Leitin að framúrskarandi verkum á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi er hafin fyrir Hönnunarverðlaun Íslands 2020. Búið er að opna fyrir ábendingar en hægt er að benda á eigin verk eða annarra til miðnættis 21. september 2020 hér. Áætlað er að verðlaunaafhending og málþing þeim tengt fari fram þann 5. nóvember næstkomandi.

 
Hægt er að benda á verk í tveimur flokkum, Hönnun ársins 2020 og Besta fjárfesting ársins 2020 í hönnun. Vinningshafar geta komið úr öllum greinum hönnunar en þurfa að skara verulega fram úr með verkefni sínu eða vinnu. Til að hljóta Hönnunarverðlaun Íslands 2020  þurfa hönnuðir að vera félagar í einu af aðildarfélögum Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs eða vera fagmenn á sínu sviði.
Allir geta sent inn ábendingu, bæði yfir sín eigin verk og annarra, Hönnunarverðlaun Íslands eru peningaverðlaun að upphæð 1.000.000 krónur, sem hafa verið veitt af ráðherra ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunar.
 
Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að Hönnunarverðlaununum segir verðlaunin eiga að varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar og arkitektúrs, enda sé vægi hönnunar í menningu, samfélagi og viðskiptalífi alltaf að aukast.
 
Dómnefnd Hönnunarverðlaunanna er skipuð 6 manns. Í vinnu sinni þarf dómnefnd að hafa mjög góða þekkingu á hönnunargreinunum og vera fagleg og óhlutdræg. Í dómnefnd sitja fulltrúi skipaður af Hönnunarsafni Íslands, sá er jafnframt formaður dómnefndar, fulltrúi skipaður af Listaháskóla Íslands, þrír fulltrúar skipaðir af stjórn Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs og einn fulltrúi skipaður af Samtökum Iðnaðarins.
 
Dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands 2020 skipa:
 
  • Paul Bennett, yfirhönnuður og stjórnandi hjá IDEO og deildarforseti hönnunardeildar við Listaháskóla Íslands. Hann er skipaður af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.
  • Sigrún Birgisdóttir, arkitekt og prófessor við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands. Skipuð af Listaháskóla Íslands.
  • Sigríður Sigurjónsdóttir, formaður dómnefndar. Hún er forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands. Skipuð af Hönnunarsafninu.
  • Hörður Lárusson, grafískur hönnuður og einn af eigendum hönnunarstofunnar Kolofon. Heiðursfélagi FÍT, sat í stjórn Hönnunarmiðstöðvar Íslands frá 2013 og formaður stjórnar 2016 – 2019. Skipaður af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.
  • Sigrún Halla Unnarsdóttir, fatahönnuður, stofnandi og meðlimur í hönnunarteyminu IIIF, stofnandi AD og meðlimur í stjórn LungA skólans. Sigrún er með MA gráðu í fatahönnun. Skipuð af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.
  • Margrét Kristín Sigurðardóttir, almannatengsla - og samskiptastjóri Samtaka iðnaðarins. Hún er skipuð af Samtökum Iðnaðarins.

Allar frekari upplýsingar má finna á heimasíðu Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs
Við hvetjum ykkur til að senda inn tillögur!