Hildur Guðnadóttir tónskáld hefur undanfarna mánuði farið sigurför um heiminn með tónlist sinni í  kvikmyndinni The Joker annars vegar og þáttaröðinni Chernobyl hins vegar.

Velgengni hennar hefur sjálfsagt ekki farið framhjá neinum þar sem Hildur hefur hlotið hver stórverðlaunin á fætur öðrum síðastliðnar vikur.

Hún tók við Emmy og Grammy verðlaunum fyrir Chernobyl og Golden Globe, BAFTA og nú síðast Óskarsverðlaunum fyrir The Joker. 

Hildur hlaut hylli viðstaddra þegar hún tók við Óskarnum í gærkvöldi og meðal þeirra sem stóðu upp fyrir henni voru þau tónskáld sem voru tilnefnd í sama flokki, John Williams, Alexandre Desplat, Randy Newman og Thomas Newman. Hildur minnti á mikilvægi þess að leyfa röddum kvenna að heyrast og hvatti þær til þess að láta í sér heyra. Hildur er fyrsta konan í 23 ár til þess að hreppa Óskarinn og aðeins sú 4 í 92 ára sögu verðlaunanna til að hljóta verðlaun i flokki tónskálda. Hún tók við verðlaununum úr höndum Sigourney Weaver sem, ásamt Gal Gadot og Brie Larson, kynntu verðlaunaflokkinn.

Við lítum á þetta sem merk tímamót í íslenskri menningarsögu og erum stolt af því að Hildur verður lykilfyrirlesari á Hugarflugi, árlegri listráðstefnu Listaháskóla Íslands í ár og kemur til með að opna ráðstefnuna fimmtudaginn 13. febrúar klukkan 16:30 í húsi Listaháskólans við Laugarnesveg. Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskólans mun eiga samtal við Hildi sem talar beint frá Berlín þar sem hún býr ásamt manni sínum og syni.

screenshot_2020-02-10_at_19.34.50.png
Hildur tekur við Óskarnum í Dolby höllinni 9.febrúar Ljósmynd: ABC
screenshot_2020-02-10_at_19.38.01.png
Joaquin Phoenix leikur Jokerinn Ljósmynd: Warner Bros

 

Umvafin tónlist 

Hildur er komin af miklu tónlistarfólki en móðir hennar er Ingveldur Guðrún Ólafsdóttir óperusöngkona og faðir hennar Guðni Franzson tónskáld og klarinettuleikari. Hildur er gift bandaríska tónskáldinu Sam Slater og saman eiga þau soninn Kára. Tónlist hefur verið stór hluti af lífi Hildar allt frá barnæsku en hún hóf nám í sellóleik ung að aldri. Hún stundaði nám í klassískum sellóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og hóf nám í  tónsmíðum við Listaháskóla Íslands árið 2002.

Hildur vakti fyrst athygli aðeins 15 ára gömul sem forsprakki og söngkona hljómsveitarinnar Woofer. Þá var hún einn stofnanda tónaflokksins Sprellikvintett sem glæddi götur Reykjavíkur tónlistarlífi sumarið 2001. Um svipað leyti lét hún hafa eftir sér að það væri sorglegt að sjá hversu fáar konur og stelpur væru að semja tónlist. Í kringum aldamótin 2000 gerðist hún meðlimur hljómsveitarinnar Rúnk. Sveitina skipuðu þau Hildur, Björn Kristjánsson eða Borko, Svavar Pétur Eysteinsson, betur þekktur sem Prins Póló, Benedikt Hermann Hermannsson sem gengur undir nafninu Benni Hemm Hemm og Ólafur Björn Ólafsson.

Hildur útskrifaðist með BA próf frá tónsmíðabraut Listaháskóla Íslands árið 2005 en það var fyrsti árgangurinn til að útskrifast af brautinni.  Hún hefur starfað sem tónskáld síðan þá og haft nóg fyrir stafni. Árið 2006 gaf hún út sína fyrstu sólóplötu „Lost in Hildurness“  og þremur árum síðar, árið 2009, kom út önnur sólóplata hennar „Without Sinking.“ Hildur lauk síðar framhaldsnámi í tónsmíðum frá UDK (Universität der Künste) í Berlín þar sem hún settist að við lok námsins. Hildur hefur einbeitt sér að kvikmyndatónlist í auknum mæli undanfarin ár, en segist þó hafa hálfpartinn slysast inná þá braut. Árið 2003 kynntist Hildur íslenska tónskáldinu Jóhanni Jóhannssyni en tengsl þeirra urðu stór þáttur í aðkomu Hildar að kvikmyndaheiminum. Jóhann sem samdi að mestu tónlist fyrir kvikmyndir hlaut Golden Globe verðlaunin árið 2015 fyrir tónlistina í kvikmyndinni The Theory of Everything og var tilnefndur fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Arrival árið 2017. Hildur lýsir þeim Jóhanni sem tónlistarlegum sálufélögum. Þau unnu oft í verkefnum hvors annars og þannig fékk Hildur innsýn í kvikmyndaheiminn. Jóhann flutti loks til Berlínar og Hildur vann með honum í öllum hans tónsmíðaverkefnum, þar að auki unnu þau í sama hljóðveri í Berlín og þannig má segja að ferill Hildar í kvikmyndatónsmíðum hafi tekið flug. Eitt af síðustu verkefnunum sem Hildur og Jóhann unnu að saman var tónlist fyrir kvikmyndina Mary Magdalene með Rooney Mara og Joaquin Pheonix í aðalhlutverkum sem kom út árið 2018. Þá höfðu tónsmíðar Hildar einnig verið notaðar í þáttaröðinni The Handmaid’s Tale sem Hulu streymisveitan framleiddi.  

hildur_gudnadottir_headshot_5_photo_by_antje_jandrig.jpg
Ljósmynd: Antje Jandrig

 

Nýsköpun 

Hildur hefur verið óhrædd við að fara nýjar leiðir í tónsmíðum sínum og hefur verið í virku samstarfi við hljóðfærasmiði. Í kvikmyndinni The Joker nýtir Hildur til dæmis nýtt hljóðfæri sem ber nafnið Dórófón hannað af myndlistarmanninum Halldóri Arnari Úlfarssyni. Halldór starfaði sem aðjúnkt í vöruhönnun  og sem umsjónarmaður verkstæðis við hönnunar- og arkitetúrdeild Listaháskólans. Aðspurður segist Halldór þakka Hildi fyrir að hann hafi byrjað að taka dórófóninn alvarlega:

„Það er nú líklega henni að þakka að ég fór að taka þetta verkefni mátulega alvarlega.  Þetta byrjaði sem nokkurskonar brandari þar sem ég ætlaði að gera strengjahljóðfæri sem gengi út á að vinna með endurómun (e. Feedback). Þegar kom í ljós að i hentaði Hildi í hennar sköpun og fagurfræði hóf ég að þróa þetta verkefni áfram. Þegar á reyndi kom síðan í ljós að fleiri hafa áhuga á þessu verkfæri til tónlistarsköpunar. Velgengni Hildar hefur því virkað sem áframhaldandi hvati til að þróa verkefnið áfram.“

Hægt er að kynna sér virkni dórófónsins betur hér - http://www.halldorophone.info/about/ 

Hildur hefur einnig starfað með Hans Jóhannssyni hljóðfærasmiði að Ómari. Ómar er 6 strengja rafselló með innbyggðri rafrás sem líkir eftir hljómblæ hágæða hljóðfæra. Í samvinnu við Signal Wizard Systems hefur Hans búið til selló með frábærum hljómgæðum sem eru unnin úr upptökum af mjög verðmætum hljóðfærum. Hildur hefur aðstoðað við að finna praktísk vandamál og að fínpússa virkni hljóðfærisins, og þar kemur í ljós brennandi áhugi hennar á tilraunamennsku, sem birtist svo í verkum hennar.

ómar
Ómar Ljósmynd: Hans Jóhannsson 

 

Verðskulduð velgengni 

Berglind María Tómasdóttir dósent við Listaháskólann í flutningi og miðlun samtímatónlistar segir velgengni Hildar svo sannarlega verðskuldaða:  

„Hún er frábær listamaður sem hefur alltaf farið sínar eigin leiðir. Þessi síðustu verk hennar sem vakið hafa alla þessa athygli byggja á þeirri miklu vinnu sem hún hefur lagt á sig undanfarna áratugi. Framlag hennar býr yfir listrænu áræði, innsæi og einlægni sem myndar þann persónulega hljóðheim sem Hildur skapar og hefur nú slegið í gegn. Sviðsljósið hefur hún nýtt til að benda á rýran hlut kvenna í heimi kvikmyndaiðnaðarins sem hún á nú þátt í að stækka. Og betri fyrirmynd er ekki hægt að hugsa sér, heilsteypt sem hún er sem listamaður. Sigurganga Hildar er stórkostleg og verðskulduð, fyrir hana sem listamann, konur í tónlist og Íslendinga alla.“ 

Hildur er umkringd góðu fólki. Tónskáldið Kristín Björk, betur þekkt sem Kira Kira, er ein af nánustu vinkonum Hildar. Hún tók nýlega við stöðu þjónustufulltrúa tónlistardeildar LHÍ sem hún sinnir samhliða tónsmíðum sínum. Kristín fer fögrum orðum um velgengni Hildar. 

,,Þegar jafn heilsteypt og góðhjarta manneskja og Hildur nýtur velgengni og hefur orðið, þá geta mikil kraftaverk gerst og á enn víðtækari sviðum en við sjáum fyrir í dag! Hún fókuserar mikið á hugleiðslu og Yoga iðkun meðfram tónlistinni og ég er sannfærð um að hennar stjarna skín jafn skært og raun ber vitni af því hún hlúir sérstaklega vel að sínu innra ljósi og forgangsraðar því og ástvinum sínum ofar öllu öðru. Þannig að staðurinn sem tónlist hennar sprettur frá er tær, heilbrigður og gefandi fyrir alla sem njóta. Hennar sigrar eru verðlaun fyrir allar konur í tónlist, alla tilraunatónlistarnörda og dróndreka, hljóðskúlptúrprakkara og lifandi sönnun þess að það borgar sig að trúa á tónlistina og sjálfa sig”. 

 

Listaháskóli Íslands óskar Hildi innilega til hamingju með þennan ótrúlega árangur og hlakkar til að fylgjast með áframhaldandi velgengni þessa glæsilega fulltrúa útskrifaðra nemenda Listaháskóla Íslands.