Saga Sigurðardóttir, sviðslistakona og hollnemi LHÍ ávarpaði nemendur á skólasetningu 2018. 
 
/
 
Gott fólk! Kæru nemendur! Hvar sem þið eruð stödd á þeirri leið.
 
Það er geggjað að vera með ykkur í dag. Þetta er alltaf svo yndislegur og æsandi tími. Ekki aðeins er það umhverfið og náttúran sem eru að ná þroska eftir sumarið, þessir litir, þessi lykt, þessi stemming… Heldur er það þessi lína sem við erum stödd við núna. Nýtt upphaf.
 
Ég man þegar ég var enn á ný stödd við svona nýtt upphaf fyrir tveimur árum síðan. Ég var að hefja mastersnám í sviðslistum hér við Listaháskólann og mæti félaga mínum á planinu við skólann. Hann spyr mig hvernig þetta leggist nú í mig. Ég ber mig reyndar hálfaumlega og segi eitthvað á þessa leið, að ég vildi nú reyndar óska að ég vissi aðeins betur hvað ég vildi nákvæmlega með þessu. Félagi minn svarar mér með annarri spurningu: Ef ég vissi það nákvæmlega, hvort ég væri þá ekki komin á endastöð?
 
Ég get ekki annað en tekið undir þetta. Þess vegna langar mig til þess að segja einmitt þetta við ykkur, núna:
 
Framundan er tækifæri til þess að vita ekki. Og ég hvet ykkur til þess að nýta það. Ég hvet ykkur til þess að vingast við óvissuna. Í óvissunni lúrir listaverkið og bíður eftir því að koma ykkur á óvart. Í óvissunni hvíla fræ örlaganna.
 
Nú er húsið umkringt biðukollum. Biðkollur eru stórkostlegar! Og það má í raun segja að húsið sé einnig fullt af biðukollum. Það er með hugmyndir einsog fræ biðukollunnar: Það kemur sá tími (þegar biðukollan hristir sig eða eitthvað hreyfir við henni) að þau fljúga af stað. Svo kemur tíminn þar sem þau fljúga um, oft lengi vel. Strjúkast við hitt og þetta á leiðinni, daðra við veggi og eyru stöðumælavarða, áður en þau nema staðar. Og þá kemur tíminn, við réttar aðstæður, þar sem þau lenda, koma sér fyrir, og mynda rætur. Rætast.
 
Á meðan þið finnið draumum ykkar rætur munuð þið missa móðinn, og þið munuð finna hann aftur. Móðurinn mun jafnvel finna blossa og verða að eldmóði, síðan að glæðum, ef til vill ösku. Og þá mun sveppur stinga þar upp kollinum og ný hringrás hefst. Þetta verða alls konar kaflar, þetta verður ykkar leið.

 

Mig langar til þess að flytja fyrir ykkur hluta úr verki eftir franska listamanninn Robert Filiou (1926 – 1987). Ég hef snúið textanum yfir á íslensku, en verkið heitir á ensku TEACHING AND LEARNING AS PERFORMING ARTS.

/

Hvernig gengur allt saman?

Hve mörg ykkar ætla að koma fram í dag? Hve margar konur? Hver margir karlar? Hve mörg börn? Kettir? Hundar?

Ég heiti Róbert, en hver eruð þið? Hvað með þig? Hver ert þú?

Komið endilega nær. Og fyrst þið komið nær, ætla ég að raka mig. Hvað er nú á seyði? Æ, ég hef gleymt rakvélablaðinu. Jæja, hvað um það. Rakstur lætur hárin vaxa, vissuð þið það? Athyglisvert.

Eru einhver ykkar hér hamingjusöm? Það var gott, en brátt munuð þið verða óhamingjusöm. Eru sum ykkar óhamingjusöm? Það var leitt, en brátt munuð þið verða hamingjusöm. Að vera hamingjusamur gerir okkur óhamingjusöm. Svefninn vekur okkur. Eruð þið ekki sammála? Þetta er dans. Eigum við að dansa? Við getum dansað við tónlist af annarri tíðni, það eina sem við þurfum að gera er að snúa okkur í hring, eftir hring eftir hring eftir hring. …allir með…. Hring eftir hring eftir hring eftir hring eftir hring.

Bráðum, mun það sem við köllum jörð, - þetta skulum við segja saman – hafið eftir mér: Bráðum mun það sem við köllum Jörð - - halda áfram að snúast hring eftir hring - - án þess, sem kallast ég - - og þú.

Þetta er í raun ástarljóð. Erfitt að eiga við hana, ástina, finnst ykkur það ekki? Ég þekki söngvaskáld sem veit allt um þetta. ÞAÐ ER ERFITT AÐ ELSKA, segir þetta skáld. Við gætum öll sungið eitthvert ástarlag núna, bara hvert fyrir sig! Þið getið gert það innra með ykkur.

Flestir virðast vera sammála um ástina, er það ekki? Að hún sé eitthvað sem gott er að finna, og gott að dreifa. Eruð þið sammála?

Ég hef annars verið að velta fyrir mér lágmarki og hámarki. Ég legg til að þið spyrjið börnin ykkar, eða, barnið í ykkur sjálfum: Hverju viljð þið raunverulega áorka í lífinu? Það er að segja, eru einhver lágmarks-markmið sem við getum komið okkur saman um, og veitt þeim okkar hámarks-orku? Til þess að komast að þessu er ekki nóg að spyrja vísindamenn eða stjórnmálafólk, og því spyr ég ykkur.

Mitt persónulega svar er: Harmónía, tónlist úr ólíkum tíðnum, að ferðast létt. Stöðugt þakklæti fyrir hið daglega kraftaverk. Eins og núna - þá er mér mál! Ég þyrfti að afsaka mig augnablik og fara og tæma blöðruna. Það er nú eitt kraftaverkið, að pissa. Það sem ég kann best að meta eru þessi innbyggðu kraftaverk. Einsog að geispa. Eða hnerra. Ég er viss um að þið getið látið ykkur detta fleiri í hug.

Kynlíf er svo annað. Og aftur erum við farin að tala um ástina, eða vöntun á henni. Hvernig ástin er önnur hliðin á hatri. Heyrði ég einhvern segja, hvað með þrá? Já, hvað með þrá? Hvað er málið með þrá?

Munið þið eftir latnestka orðatiltækinu, POST COÍTUM, OMNE ANIMAL TRISTE EST.

Eða: Rétt eftir samneyti er hvert dýr dapurt.

Við gætum tekið þetta hringinn og sagt: Rétt fyrir samneyti er sérhvert dýr glatt.

Og enn á ný, förum við hring eftir hring. Hvað segið þið um að ég taki af ykkur mynd? Ókei, ég ætla að ná góðri mynd. Allir að brosa…. Og svo eina einn, þar sem allir fíflast. Að fíflast, viðheldur greind.

(Smellt af á filmuvél).

 

Þessi stund er hér með skráð. Hún liggur hér á filmu. Tilfinningar ykkar, væntingar og spurningar.

Nú er það ykkar að framkalla þær.

/