Myrkir Músíkdagar fóru fram dagana 24. – 29. janúar með fjölda fjölbreyttra tónleika, þar sem lögð var áhersla á frumflutning nýrra íslenskra verka. Það má með sanni segja að hollnemar tónlistardeildar hafi verið þar áberandi, en 10 tónskáld sem hlutu menntun sína við tónlistardeild Listaháskóla Íslands áttu verk á hátíðinni.
 
Þar skal fyrst nefna Báru Gísladóttur (BA 2013), en tvennir tónleikar hátíðarinnar voru helgaðir verkum hennar.
 
Önnur hollnematónskáld eru þær Anna Þorvaldsdóttir (BA 2004), Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir (BA 2016), María Huld Markan Sigfúsdóttir (BA 2007), Veronique Vaka (MMus 2018), og að lokum Ásbjörg Jónsdóttir (BA 2014 / MA 2018) og Ragnheiður Erla Björnsdóttir (BA 2016) sem skrifuðu saman óperuna Mörsugur.
 
Þá má ekki gleyma Lilju Maríu Ásmundsdóttur sem lauk Bmus prófi í píanóleik 2015 en hefur snúið sér nær einvörðungu að tónsmíðum og flutningi eigin tónlistar á síðari árum.
 
Karlkyns hollnemar eru tveir; Helgi Rafn Jónsson (BA 2009 ) og Úlfur Hansson (BA 2012).
 
Á þessu yfirliti er deginum ljósara hve sterk áhrif tónsmíðanám við Listaháskóla Íslands hefur haft á íslenska tónlistarsenu og þá sérstaklega þegar kemur að framsókn kvenna sem hafa látið sífellt meira til sín taka á sviði tónsköpunar… og kannski kominn tími til.