Undanfarin misseri hafa margir aðilar með tengingu við Listaháskóla Íslands verið að sanka að sér verðlaunum og það á ekki síst við á FÍT-verðlaununum en þar voru á meðal tilnefndra sem og verðlaunahafa núverandi nemendur, hollnemar og einnig starfsfólk. Enda um fjölda hæfileikaríka einstaklinga að ræða.
Verðlaunaafhendingin sjálf fór fram 17. mars og erum við stolt að segja frá því að Birna Geirfinnsdóttir, prófessor í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands, hlaut fjölda verðlauna. Þar á meðal gullverðlaun í flokki bókahönnunar, sem hún fékk ásamt Arnari Frey Guðmundssyni, fyrir verkið Svefngríman. Einnig tryggðu þau sér silfurverðlaun í sama flokki fyrir Ævarandi hreyfing / Perpetual Motion.
Hvað varðar hollnema Listaháskólans þá eru þeir fjölmargir sem hlutu verðlaun FÍT í hinum ýmsu flokkum og óskum við þeim öllum innilega til hamingju með þeirra frábæru hönnun.