Hildigunnur Sverrisdóttir hefur verið ráðin deildarforseti arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands.
 
Hildigunnur lauk Cand.Arch.-gráðu frá Kunstakademiets Arkitektskole í Kaupmannahöfn og hefur starfað sem hönnuður á arkitektastofum auk þess að starfa sjálfstætt sem fræðimaður, ráðgjafi og listrænn stjórnandi á fagsviði arkitektúrs og manngerðs umhverfis. Hún er virkur rannsakandi en eftir hana hafa birst fjölda greina og bókakafla á fagvettvangi arkitektúrs og á breiðari vettvangi lista auk þess sem hún hefur umtalsverða reynslu af þverfaglegu samstarfi í fjölbreytilegum verkefnum. 
 
Hildigunnur hefur umfangsmikla reynslu af kennslu og akademískum störfum. Hún hefur verið stundakennari við Listaháskóla Íslands frá 2006 og var fagstjóri og aðjúnkt við hönnunar- og arkitektúrdeild frá 2012 til 2015. Þá hefur hún verið gestakennari víða erlendis m.a. við Yale School of Architecture, Kunstakademiets Arkitektskole í Kaupmannahöfn, KTH í Stokkhólmi, UIB í Bergen og UCLA og MIT háskólana í Bandaríkjunum.  
 
Hildigunnur hefur setið í ráðum og nefndum m.a. á vegum LHÍ, mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Arkitektafélagi Íslands og Íslensku bókmenntaverðlaunanna.  
  
Við færum Hildigunni hamingju- og heillaóskir með stöðuna.