Platan Herberging hefur að geyma þrjú ný verk fyrir flautu og rafhljóð eftir Berglindi Maríu Tómasdóttur,  dósent í flutningi og miðlun samtímatónlistar við tónlistardeild Listaháskóla Íslands. Platan kemur út í dag, 4. janúar 2019.

Hljóðheimur plötunnar hverfist í kringum flautuhljóð, andardrátt, rödd og rafhljóð sem öll eru unnin úr flautuhljóðum, Verkin þrjú, Lofthelgi, Herberging og Ö, lýsa ástandi eða tilfinningu, þau hreyfast hægt og eru sjaldnast á leiðinni eitthvað. 

Herberging var unnin samstarfi við Ólaf Björn Ólafsson sem sá um upptökur og er meðhöfundur að verkinu Ö.  Þar kemur fram ásamt Berglindi Maríu, Marta Guðrún Halldórsdóttir, söngkona. Um tónjöfnun sá Valgeir Sigurðsson; höfundur texta í bæklingi er Sigurbjörg Þrastardóttir og um grafískt útlit plötunnar sá Kjartan Hreinsson.

herberging.jpg

 

Um Berglindi Maríu Tómasdóttur

Berglind María Tómasdóttir er flautuleikari og tónskáld sem vinnur þvert á miðla. Í verkum sínum leitast hún við að kanna ímyndir og erkitýpur sem og tónlist sem félagslegt fyrirbæri.

Verk Berglindar hafa meðal annars verið pöntuð og flutt á vegum Flautusamtaka Bandaríkjanna (The National Flute Association), Norrænna músíkdaga, Myrkra músíkdaga og Listahátíðar í Reykjavík. Sem flautuleikari hefur Berglind einnig pantað og frumflutt fjölmörg ný verk og komið fram á tónleikum og tónlistarhátíðum víðs vegar um Bandaríkin og Evrópu. Hún hefur leikið inn á fjölda hljóðrita, meðal annars sem einleikari ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Vladimir Ashkenazy. Berglind er einn af flautuleikurum flautuseptettsins viibra sem hefur starfað og komið víða fram með Björk Guðmundsdóttur undanfarin ár í tengslum við nýjustu plötu hennar, Utopiu.

Berglind María stundaði nám í flautuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og Konunglega danska konservatoríið og lauk doktorsprófi í flutningi samtímatónlistar frá Kaliforníuháskóla í San Diego árið 2013. 

Plötuna Herbergingu má nálgast á Bandcamp og lengri útgáfu á geisladiski.