Föstudaginn 28. septemner s.l. fór fram haustútskrift Listaháskóla Íslands. Að þessu sinni útskrifuðust alls tíu nemendur; tveir nemendur með meistarapróf úr listkennsludeild, fimm með meistarapróf í sviðslistum, einn með meistarapróf í söng- og hljóðfærakennslu og tveir með bakkalárpróf í arkitektúr.

 

Ávarp rektors við útskrift:

Kæru gestir, kæru útskriftarnemar!

 

I

Þegar einn fjölhæfasti dægurtónlistarmaður síðustu aldar, Quincy Jones, var í heimildarþætti um ævi hans spurður að því hver hefði verið hans persónulegi drifkraftur á hans ótrúlega ferli, sagði hann einfaldlega: "Ég held áfram. Og svo held ég áfram að halda áfram."
Svo sannarlega ekki háfleygt svar frá manni sem á að baki ótrúlegt ævistarf og flest verðlaun allra bandarískra tónlistarmanna á sviði dægurtónlistar og kvikmyndatónlistar, auk þess að hafa sett saman söluhæstu plötur veraldarsögunnar. Samt er þetta svar svo dásamlega einlægt í einfaldleika sínum. Snilld listamanna er nefnilega stundum að stórum hluta til fólgin í persónuleika þeirra; í iðjuseminni, seiglunni, þvermóðskunni.
 
Þið sem útskrifist hér í dag, farið héðan úr tiltölulega öruggu skjóli háskólastarfsins og út í samfélag sem iðulega krefst umsvifalauss afrakstur. Samfélags þar sem óþolinmæðin á það til að kæfa listfengið; þar sem tíminn reiknast á kostnað yfirlegunnar, dýptarinnar og jafnvel skilningsins. Í umhverfi þar sem þið þurfið sjálf að hafa nægilega sterk bein til að halda áfram að gera það sem þið teljið ykkur þurfa að gera. Og halda svo áfram að halda því áfram, allt þar til það skilar ykkur því sem skiptir ykkur máli - því sem er lykillinn að ykkar listsköpun.

II

Síðustu misseri hafa markast af miklu umróti hér í Listaháskólanum. Á rétt rúmu ári höfum við fært tónlistardeildina upp í Skipholt og sviðslistadeildina í Laugarnes. Fyrir utan fjármuni, hefur þetta kostað umtalsverða vinnu, auk þess að reyna á bjartsýni og úthald allra sem að þessum flutningum hafa komið, hvort heldur sem um er að ræða nemendur eða starfsfólk. Jafnframt er deginum ljósara að innra starf Listaháskólans sem heildar hefur breyst - með nýju umhverfi kemur í einhverjum skilningin líka nýtt innihald, nýjar ögranir og ný tækifæri.
 
Þessar hræringar eru einungis upphafið að löngu breytingarskeiði ef allt fer að óskum; forsmekkur þess sem vonandi mun rætast innan fárra ára í fullhannaðri Listaháskólabyggingu, sameiginlegum vinnustað og uppeldisstöð allra listgreina. Við þurfum að fara að máta okkur inn á slíkan stað, velta vöngum yfir þeim möguleikum sem í slíku sambýli felst og þeim ögrunum sem við þurfum að takast á við á leiðinni á þann áfangastað. Þau lóð sem þið skiljið eftir ykkur á útskriftardegi hér innanhúss eru svo sannarlega verðug á vogarskálar framtíðardrauma og nýrrar sýnar. En um leið er arfleifð ykkar innan veggja skólans hluti hefðar og tíðaranda sem okkur ber að virða og varðveita.
 
Það er því von mín - og okkar allra sem horfum á eftir ykkur út á fagvettvanginn - að þið sjáið ykkur hag í að rækta sambandið við skólann og halda áfram að vinna orðspori hans gagn í hverjum þeim miðli sem þið kjósið.

III

Hefðin eða arfleifðin ber stundum með sér yfirbragð þess yfirgefna eða úrelta, ekki síst ef hún hefur verið vanrækt eða afrækt. Samt sem áður er það listarfleifðin sem leiðir okkur fyrir sjónir hvaðan við komum og hver við erum. Og þá á ég ekki við í þjóðernislegum skilningi, því listin knýr ekki á um slíkt, frekar en annað sem skilgreinir okkur í þröngum stakki. Listin ávarpar stóra samhengið; hún spyr ekki um aldur eða kyn, kynhneigð, trúarbrögð eða pólitík þótt hún fjalli vissulega um þessi mál þar sem ekkert er henni óviðkomandi.
 
Listin felur í sér möguleikann á því að þvera mæri tungumála, menningarheima og jafnvel ólíkra tíma. Í þessari víðu skírskotun listarinnar; í umburðarlyndum, upplýsandi og oft á tíðum krefjandi miðlum listheimsins, er svigrúm fyrir allar þær hugmyndafræðilegu vangaveltur sem ögra viðteknum gildum, í fagurfræði, vísindum, félagslegum þáttum og sjálfsmynd samfélagsins.
 
Og það er þar sem gildi hennar liggur fyrir okkur öll og okkar sameiginlegu arfleið. Listin markar okkur leið til framtíðar sem þáttakendum í stærra samhengi, utan þess þrönga heims sem alla jafna rammar inn hversdaginn.

 

IV

Finally just a few words in English since we are today also celebrating the graduation of the second cohort of the international master’s programme in performing arts within the Iceland University of the Arts. I want to thank the students that were brave enough to embark on that journey with us. Thank all of you that were ready to embrace many unforeseen challenges, with admirable courage and resilience.

My congratulations to you all on this very special day, - og jafnframt óska ykkur hinum öllum innilega til hamingju með áfangann um leið og ég hvet ykkur til að halda áfram - og ef það virkar ekki - halda þá bara áfram að halda áfram.