Á aðventu 2021  

 
Nú líður senn að jólum með allri þeirri eftirvæntingu sem fylgir hátíð ljósanna í svartasta skammdeginu.  
 
Að baki er annað ár litað af óvenjulegum aðstæðum á heimsvísu. Þrátt fyrir þá erfiðleika sem slíku ástandi fylgir heldur starfsemi Listaháskólans áfram að eflast og auðgast fyrir tilstilli ykkar,
þess einstaka hóps starfsmanna og nemenda sem starfa og nema við Listaháskóla Íslands. Ykkur öllum færi ég mínar innilegustu þakkir fyrir frjótt samstarf á árinu sem er að líða.
 
Framundan eru spennandi tímar á nýju ári sem ég trúi að muni leiða í ljós bæði sigra og sóknarfæri fyrir okkur öll. Starfsemi alls Listaháskólans undir einu þaki er loksins í farvatninu, kvikmyndadeild í uppsiglingu,
endurskoðun á ákveðnum þáttum bæði námsframboðs og vinnuumhverfis. Allt stór verkefni og til marks um getu og þroska okkar góða háskóla.  
Það er því með mikilli tilhlökkun sem ég óska ykkur öllum gleðilegrar hátíðar, gæfu og farsældar á nýju ári. 
  
Með kærri jólakveðju,  
Fríða Björk Ingvarsdóttir.  
 
Skrifstofa Listaháskólans er lokuð yfir hátíðirnar og við hlökkum til þess að taka á móti ykkur aftur þegar við opnum á nýju ári, 3. janúar 2021, kl. 08:00.