Á aðventu 2020.  

 
Nú þegar líða fer að lokum bæði annar og árs langar mig til að þakka starfsfólki og nemendum Listaháskólans fyrir einstaka staðfestu í óvenjulegu árferði. Við höfum bæði siglt í ólgusjó og haft vindinn í fangið undanfarin misseri. Þrátt fyrir það hefur okkur tekist að stíga ölduna þannig að nemendur skólans hafa notið nauðsynlegrar handleiðslu og getað menntað sig þannig að sannur sómi er að, auk þess sem starfsfólk hefur gert sig gildandi á sínum fræðasviðum með eftirtektarverðum hætti.
 
Enginn veit fyrir víst hvað komandi ár ber í skauti sér en okkur fylgir þó umtalsverður meðbyr með hækkandi sól. Við kunnum til nýrra verka og erum jafnframt að hefja gefandi vegferð við frekari þróun háskólastarfsins, með ýmis ómetanleg tækifæri í farteskinu. Rannsóknir blómstra sem aldrei fyrr og fyrir höndum er framsækin vinna við þróun frekari tækifæra í háskólanámi á fræðasviði lista.
 
Um leið og ég þakka samstarfið á liðnu ári óska ég ykkur gleðilegrar hátíðar og færi mínar bestu óskir um gæfu og gengi á nýju ári.  Megi 2021 koma með birtu og kraft og vonandi aukinni samveru.  
 
Með kærri jólakveðju,  
 
Fríða Björk Ingvarsdóttir  
 
Skrifstofan er nú lokuð yfir jólin og við opnum aftur mánudaginn 4. janúar 2021