Sigríður Þóra Flygenring, nemandi á öðru ári í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands, er hönnuður að merki (e. logo)  nýrrar fyrirlestrarraðar háskólans sem ber titilinn Þolmörk. Fyrirlestrarröðin er tilraun til að opna á samlegðaráhrif milli ólíkra listgreina og skapa þannig þverfaglegan umræðuvettvang fyrir nemendur, starfsfólk háskólans og aðra áhugasama. Hægt er að lesa meira um Þolmörk hér.

 
Sigríður Þóra Flygenring, eða Didda, eins og hún er oftast kölluð, er tvítug og útskrifaðist frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 2018. Hún lagði einnig stund á nám við sjónlistabraut í Myndlistaskólanum í Reykjavík. Listaháskólinn tók Diddu á tal og spurði út í merkjahönnunina.
 
Hvernig varð merki Þolmarka til?
„Merkið er eiginlega bara fyrsta hugmyndin sem ég fékk útfrá nafninu Þolmörk. Þar sem kassarnir mætast í merkinu táknar nokkurs konar mörk sem textinn fer yfir. Ég ákvað líka að „m“–ið í orðinu yrði skringilega staðsett milli svörtu og hvítu flatanna til að passa við nafnið,“ segir Didda sem hefur töluverðan áhuga á merkjahönnun.
 
„Mér finnst mjög gaman að skoða merki og hugmyndirnar sem liggja að baki þeim. Svoleiðis hugmyndavinna finnst mér yfirhöfuð mjög skemmtileg.“
 
Hvert sérðu fyrir þér að stefna eftir að þú lýkur grunnnámi í grafískri hönnun hér í LHÍ?
„Eftir námið hérna vonast ég til að geta tekið að mér einhver skemmtileg verkefni, ferðast smá og fara svo kannski í master einhvers staðar úti,“ segir Didda en hún er á leið í skiptinám til Amsterdam næsta vor. “Það gæti verið að ég myndi einhverjar tengingar þar. Annars er ég með fullt af hugmyndum að verkefnum sem ég vonast til þess að framkvæma næstu árin.“
 
Við þökkum Diddu innilega fyrir spjallið og óskum henni til hamingju með nýtt merki Þolmarka!
tholmork_logo.jpg