Halla Birgisdóttir er meistaranemi í listkennsludeild Listaháskóla Íslands

 
Halla býr og starfar í Reykjavík. Hún er með bakkalárgráðu frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands og hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum sem og haldið einkasýningar vítt um land. 
 
Hún notar teikningar og texta til þess að skapa brotakennd frásagnarrými sem birtast áhorfendum m.a. sem innsetningar, bókverk og veggteikningar. Halla kallar sig myndskáld. 
 

Þó það sé erfitt, þá er það hægt

 
Bakgrunnur Höllu liggur í myndlist en hún er reyndar alin upp á kúabúi. 
 
„Eins og margir myndlistarmenn var ég stöðugt að teikna sem krakki. Pabbi segir mér að frá því að ég var pínulítil hafi ég leitað í teikningu eins og huggun ef eitthvað kom uppá. Þegar kom að því að velja framhaldsskóla fór ég á listnámsbraut í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti og eftir að hafa tekið mér árshlé og verða mamma, sótti ég um í myndlistardeild í Listaháskólanum.“
 
Árið 2011, þegar hún var í myndlistarnáminu, veiktist Halla alvarlega á geði. 
 
„Ég missti tengslin við raunveruleikann og fór í það sem heitir geðrof. Ég er með geðhvörf og komst að í geðhvarfateymi hjá Landspítalanum,“ segir Halla en á Landspítalanum fékk hún mikla fræðslu, fann rétta lyfjaskammtinn og varð sérfræðingur í sjálfri sér.
 
„Að hafa geðheilsuna mína í fyrirrúmi, passa upp á reglulegan svefn, minnka áfengisneyslu og passa upp á álag, hefur hjálpað mér að komast á þann stað að geta stundað meistaranám. Mig langar bara að segja að þó það sé erfitt, þá er það hægt.“
 
thumbnail_4_halla.jpg
Vinna við verkið Hún reynir að gera sig stærri (2016) á listahátíðinni Plan - B í Borgarnesi. Ljósmyndari: Daníel Helgason

 

Er betra að fela?

 
Þegar Halla var komin í bata og útskrifuð af geðdeild, byrjaði hún að teikna til þess að fóta sig aftur í lífinu. 
 
„Ég setti mér það verkefni að teikna eina mynd á dag og birta hana á bloggsíðu, smám saman fóru þessar teikningar að snúast um reynsluna. Útskriftarverk mitt úr myndlistardeild 2013 heitir Tók ég eftir því þá, eða tók ég eftir því eftir á? Þar velti ég fyrir mér tilvist þess augnabliks sem sá sem er geðveikur eða aðstandendur hans átta sig á því að veikindin eru til staðar,“ segir Halla og bætir við að geðræn vandamál eru eitthvað sem fólk geymir oftast heima hjá sér. 
 
„Ef þau væru til dæmis kjóll þá væri fólk bara í honum heima, eða innanundir fötunum og helst ekki þegar að það koma gestir. Stundum vex geðveikin á þann veg að það er ekki lengur hægt að fela hana. Er betra að fela?“ 
 
thumbnail_1_halla.jpg
Útskriftarverkefni Höllu úr myndlistardeild LHÍ Tók ég eftir því þá, eða tók ég eftir því eftirá? (2013). Ljósmyndari: Friðvin Ingi Berndsen

 

Skömmu eftir útskrift úr myndlistardeildinni byrjaði Halla að skrifa og teikna um reynsluna af því að fara í geðrof og varð vinnan fljótlega að heilli bók.
 
 
thumbnail_halla_broturbok.jpg
Brot úr bókinni Tók ég eftir því þá, eða tók ég eftir því eftirá?

 

Eftir að hafa lokið námi í myndlistardeild LHÍ hefur Halla starfað sem myndlistarmaður, haldið margar sýningar, gefið út bókverk, eignast annað barn og unnið í sjálfri sér. 
 
„Ég hef verið frekar dugleg að taka þátt í allskonar verkefnum en það er ekki fyrr en nýlega að ég hef fengið borgað fyrir það. Ég er ekki mikill sölumaður og finnst eiginlega hundleiðinlegt að standa í því, þessvegna hef ég alltaf þurft að vinna með til þess að fá salt í grautinn,“ segir Halla og nefnir dæmi um aðrar vinnur en hún hefur meðal annars starfað sem baðvörður í íþróttahúsi, umönnun aldraðra og stuðningsfulltrúi í dagþjónustu fyrir fatlaða. 
 
„Þó öll þessi störf hafi verið gefandi, sérstaklega að vera stuðningsfulltrúi, þá fannst mér þau togast á við myndlistina. Ég skráði mig þessvegna í listkennslu til þess að reyna að finna mér vettvang sem rímar við ástríðu mína sem er myndlist.“
 

Ekki bara númer á blaði

 
Eftir einungis stuttan tíma í náminu fannst Höllu hún strax hafa lært heilmikið. 
 
„Mér fannst ég strax byrjuð að þroskast sem einstaklingur og líka sem listamaður. Ég er búin að kynnast fullt af fólki á ýmsum aldri, með allskonar bakgrunna og taka þátt í fjölbreyttum verkefnum. Það eru mikil fræði kennd og maður lærir heldur betur að búa til kennsluáætlun. Listrænar útfærslur eru í hávegum hafðar og hafa t.d. allar mínar ritgerðir verið gerðar með samspili teikninga og texta,·“ segir hún og nefnir að tækifæri til þess að spreyta sig á verklegri kennslu séu mörg og fjölbreytt og að eins sé mikið lagt upp úr samræðum. 
 
„Kennslustundirnar eru lifandi og þurrir fyrirlestrar eru mjög sjaldgæfir, eiginlega man ég ekki eftir neinum. Kennarar eru mjög áhugasamir og andrúmsloftið er persónulegt. Manni finnst maður ekki bara vera númer á blaði heldur einstaklingur og maður finnur að ef maður kemur með athugasemdir er á mann hlustað. Svo ég komi líka með uppbyggilega gagnrýni að þá er tímastjórnun það sem flestir kennarar eiga í vandræðum með, sem er held ég af því að þeim finnst svo gaman að ef nemendur myndu ekki fylgjast með tímanum værum við í sólahring í skólanum. Námið er samt líka erfitt og krefjandi og maður verður líka pirraður á ýmsu, þá er gott að eiga góða samnemendur til þess að pústa við. Eins og ég vinn ennþá mikið í samstarfi við samnemendur mína úr myndlistardeildinni held ég að framtíðin bjóði upp á mikið samstarf við núverandi skólafélaga.“
 

Aukinn skilningur og innsýn í geðrof

 
Þegar kom að því að velja útskriftarverkefni frá listkennsludeild hafði myndskáldið ekki hugsað sér að fjalla um geðhvörfin. 
 
„Mér fannst ég hafa gert það alveg nóg og ætlaði að skrifa um samspil mynda og texta í lestrarbókum. Svo fattaði ég að öll mín skriflegu verkefni snerust um þetta á einn eða annan hátt, ég hafði mikla innri þörf fyrir að fara dýpra í þessa reynslu. Skilyrði lokaverkefna eru að þau innihaldi miðlun af einhverjum toga sem gefur okkur talsvert rými til þess að vera skapandi rannsóknum okkar“ segir Halla. 
 
Verkefnið hennar er listrannsókn og miðar Halla að því að gefa út bók um reynslu sína og rannsaka hvernig það að hún taki sína persónulegu frásögn yfir í það almenna geti hjálpað öðrum. 
 
„Markmið rannsóknarinnar tengist þeirri von um að ef ég tala upphátt um mína reynslu, geti það hjálpað öðrum að tjá sig um sína. Að bókin geti aukið skilning og innsæi á því hvað geðrof er og virkað sem útgangspunktur fyrir samtöl. Ég hef tekið viðtöl við sjö einstaklinga sem ég lét lesa bókina. Úrvinnslan verður samspil fræðilegs texta og teikninga með vísunum í bókina og viðtölin.“
 
thumbnail_2_halla.jpg
Gluggi inn í reynslu annarra (2020) teikning úr lokaverkefni

Margbreytileikinn í okkur

 
Halla er í myndlistarklúbbi sem heitir Inspirational Young Female Artist Club. Hér má skoða heimasíðu YFAC.
 
„Við erum meðal annars með í bígerð útgáfu á bókinni minni, útgáfu á bókverki um okkar verk og sýningu á Djúpavík, Vestfjörðum.“
 
Það er því óhætt að segja að það séu ýmis járn í eldinum hjá Höllu en hún stefnir að útskrift í haust. 
 
„Ég veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég frestaði útskriftinni minni þangað til í haust, vegna þess að ég náði ekki að halda áætlun með lokaverkefnið vegna inflúensu og leikskólaverkfalls. Ég var mjög fegin að hafa tekið þessa ákvörðun því að stuttu seinna kom Covid19 til landsins með samkomubanni sem framlengdi fjörið með leikskólabarn heima.“
 
Í náminu hefur þróast mjög spennandi samstarf á milli Höllu og skólasystur hennar, Hörpu Björnsdóttur, sem einnig er nemandi í listkennsludeild. 
 
„Við höfum verið að þróa námskeið sem heitir Margbreytileikinn í okkur: sjálfsmynd sem hús í þrívíðu formi og prófað það fyrir ólíka hópa. Við höfum m.a. kennt það sem listasmiðju á safni, fyrir unglinga í grunnskóla, framhaldsskólanemendur og samnemendur okkar og kennara“ útskýrir Halla en í verkefninu vinna þær stöllur með sjálfsmyndina og hvernig við mannfólkið erum margbreytileg sem einstaklingar og sem samfélag. 
 
„Við höfum sótt um rannsóknarstyrk til þess að fara dýpra í þetta verkefni og erum með á döfinni að kenna námskeiðið á nokkrum stöðum. Hver veit nema þetta verði einhverskonar námskeið á hjólum?“
 
 
thumbnail_5_halla.jpg
Halla með dætrum sínum í Heiðmörk. Ljósmyndari: Daníel Helgason