Guðrún Óskarsdóttir er dansari og meistaranemi í listkennsludeild. Guðrún stofnaði ennfremur nýverið dansskólann Óskandi. 
 

Nýtur þess að vera nemandi 

Guðrún hefur alltaf haft áhuga á og gaman að því að kenna. „Ég var búin að hafa augun á listkennslunáminu í nokkur ár en var þá búsett erlendis. Þegar við fluttum heim þá hafði ég enn áhuga á því og fann sterkt að mig langaði að halda áfram að vera í dansverkefnum og vinnu tengdri kennslu. Ég prófaði því að sækja um og sjá til hvernig færi,“ útskýrir Guðrún og bætir við að upplifun hennar á náminu er mjög góð. 
 
gudrun-oskarsdottir.jpg
 
„Ég hlakka til að fara í skólann á morgnana, ég nýt þess að vera nemandi og mér finnst gaman að kynnast þeim sem eru með mér í náminu. Mér finnst það svo mikill kostur hvað nemendurnir sem eru með mér í skólanum koma frá ólíkum listgreinum og eru á mismunandi aldri sem gerir umræður og hópavinnu ennþá áhugaverðari. Kennararnir í skólanum eru einstakir og rauninni allt starfsfólkið svo hlýtt og mannlegt, nokkuð sem er yndislegt.“ 

Fyrra og seinna líf

Í sex ár áður en Guðrún sótti um nám við listkennsludeild LHÍ var aðalstarf hennar að vera heima með börnunum sínum þremur. „Fyrsta árið mitt í LHÍ var ég í 50% námi og heima með yngsta stráknum mínum. Ég er þakklát fyrir að hafa haft það val að vera svona mikið heima og getað verið í námi eða kennslu samhliða sem gaf mér tækifæri til að þroska mig sem einstakling.“
 
Kaflaskil urðu í lífi Guðrúnar þegar hún flutti til Bandaríkjanna. „Ég tala stundum um að ég hafi verið dansari í fyrra lífi og móðir og kennari í seinna lífi þó dansinn sé alltaf til staðar. Það að fara í gengum meðgöngu og fæðingu og verða mamma breytti mér. Ég fór í jóganám, sérmenntaði mig í meðgöngu- og mömmujóga, seinna í krakkajóga og svo jóga fyrir börn með sérþarfir,“ segir Guðrún sem fór á ýmis námskeið tengd dansi og danskennslu og bætti við sig námi í ungbarnanuddi og hreyfiþroska barna.
 
„Ég öðlaðist þá nýja sýn á hvað hreyfing og umhverfi gegna mikilvægu hlutverki í þroskun heilans; hvernig dans og hreyfing getur stutt barnið líkamlega, andlega, tilfinningalega og haft áhrif á nám og sköpunargáfuna,“ segir Guðrún sem segist hafa unun af því að kenna dans og leiða aðra kennara þar sem þau vinnum í sameiningu að því að bjóða upp á danskennslu í þroskandi og uppbyggjandi umhverfi; opna hugann fyrir sköpun, nýrri hugsun, auka félagsfærni, hreyfifærni og sjálfstraust. 
 
jolasyining_2019.png
 

 

Bakgrunnurinn Guðrúnar í danslistinni er upphaflega klassískur ballett. „Ég fór í fyrsta balletttímann minn hjá Ballettskóla Guðbjargar Björgvins sjö ára gömul. Síðar lá leiðin í Listdansskóla Íslands, Kungliga Svenska Balettskolan í Stokkhólmi og Íslenska dansflokkinn þar sem áhuginn fyrir nútímalistdansi jókst. Ég stofnaði danshópinn Darí Darí Dance Company ásamt tveimur öðrum dönsurum og fékk tækifæri til að semja og dansa í ólíkum verkum eftir ólíka danshöfunda bæði hér heima og erlendis.“
 
En hvernig kom það til að Guðrún stofnaði dansskólann? „Það er svolítið skrýtin saga hvernig það kom til að ég stofnaði dansskóla. Ef ég hefði verið spurð fyrir ári síðan hvað ég yrði að vinna við eftir nokkra mánuði hefði ég aldrei svarað að ég yrði skólastjóri og eigandi dansskóla. Þetta er eitthvað sem gerðist bara, eins einkennilegt og það hljómar. Ballettskóli Guðbjargar Björgvins var rekinn af Guðbjörgu Björgvinsdóttur í 36 ár. Haustið 2018 tók Dansgarðurinn - Klassíski listdansskólinn við rekstrinum. Í janúar 2019 byrjaði dóttir mín í skólanum og um vorið var fundur með foreldrum þar sem farið var í hugmyndavinnu um hvernig hægt væri að fá fjármagn inn í skólann til að létta undir rekstrinum. Á einum fundinum spurði Hrafnhildur mig hvort ég hefði áhuga á að taka við rekstrinum. Mín fyrstu viðbrögð voru að segja nei enda skynsamlegt svar,“ segir Guðrún en örfáum vikum síðar ákvað hún þó að taka við starfinu. 
 

Lét drauminn rætast 

Skólinn opnaði haustið 2019 og fékk nafnið Óskandi, sem samanstendur af ósk og andi. „Ósk er dregið af því að óska sér en einnig vísun í föðurnafnið Óskarsdóttir. Andi er þýðing á „spirit“ og vísun i andrúmsloftið, þar sem eitt af aðalmarkmiðum skólans er að bjóða upp á uppbyggilegt, jákvætt og notalegt andrúmsloft þar sem nemendur fá tækifæri til finna sína rödd“ segir Guðrún.
 
Nafn skólans á sér líka forsögu en það varð til fyrir tæpum þremur árum þegar Guðrún og fjölskylda bjó enn í San Francisco. „Sumarið 2017 þegar við fluttum heim var planið að opna Óskandi innan veggja Dansgarðsins en það yrði að mestu leyti eða eingöngu fyrir foreldra og ung börn, yngri en þriggja ára. Draumurinn var að opna svo seinna miðstöð fyrir foreldra ungra barna þar sem væri leikaðstaða, kaffihús og boðið upp á tíma fyrir börn og foreldra. En svo þegar við fluttum var nóg að gera að koma sér fyrir eftir átta ár erlendis og þriðja barnið á leiðinni svo að þessi áform fóru á pásu. Það var því gaman að fara í samstarf við Dansgarðinn og koma þessu í framkvæmd haustð 2019 þó það væri í annarri mynd en upprunalega planið var.“ 
 
Óskandi býður upp á nám frá þriggja ára aldri; ballett, skapandi dans, nútímlistdans, sirkús, jóga, fullorðinsballett og samfélagsdansa fyrir eldri borgara og vonast skólastjórinn til að færa út kvíarnar í framtíðinni. „Draumurinn er að Óskandi verði áfram dansskóli en með tímanum verði einnig miðstöð fyrir foreldra, börn og einstaklinga á öllum aldri. Í janúar bættum við við danstímum fyrir eldri borgara sem er einn liður í því að Óskandi verði miðstöð fyrir nágrannasamfélagið. Dans og hreyfing eru mikilvægir þættir í líkamlegri og andlegri líðan barna, unglinga og fullorðinna og mikilvægt að í hverjum bæ og/eða borgarhluta sé boðið upp á fjölbreytt form hreyfingar.“
 

Samvinna er skemmtileg

Guðrún er þakklát fyrir að vera í samstarfi við Klassíska listdansskólann og að skólinn sé undir Dansgarðinum, enda finnst henni samvinna vera skemmtileg. „Eitt af aðalmarkmiðum Dansgarðsins er að gera danskennslu aðgengilega og með góðri samvinnu þessa tveggja skóla, Óskanda og Klassíska listdansskólans, þá getum við í enn meira mæli boðið upp á faglega og fjölbreytta kennslu fyrir börn, unglinga og fólk á öllum aldri,“ segir Guðrún en stóri draumurinn hennar er að dans verði í boði fyrir alla, innan og utan hins hefðbundna skólakerfisins. 
 
baksvids_jolasyning_2019.jpg
 
„Listkennsla hvetur til sköpunar, öryggis og forvitni, þátta sem undirbúa nemandann fyrir lífið samhliða lesfærni og stærðfræðihugsun. Einn þáttur í listkennslu er dans. Hugtakið dans er einstakt og felur í sér bæði líkamsfærni og sköpun. Dans getur haft jákvæð áhrif á aga, félagsfærni og sjálfstraust, og virkað sem forvörn gegn ýmsum heilsukvillum. Það ætti að vera í boði fyrir alla og skyldufag í öllum skólum landsins.“ 
 

Áframhaldandi uppbygging

Það sem er framundan hjá Guðrúnu er að halda áfram í skólanum og að byggja Óskanda upp. „Ég þarf að leita leiða hvernig hægt er að reka dansskóla og miðstöð sem býður upp á listformið dans. Það er hark að vera í þessari starfsemi og erfitt að finna hvar hægt er að fá stuðning og hugsanlega styrki svo að starfsemi sem þessi nái og fái að blómstra enn meira.“ 
 
Aðspurð hvernig gangi að sameina námið og vinnuna segir skólastjórinn að það hafi gengið ágætlega hingað. „Það er margt í náminu sem ég er að nýta mér í vinnunni og styrkir mig sem kennara og stjórnanda. Það er samt ákveðið álag sem fylgir því að vera bæði í námi og rekstri skólans en það sem hjálpar mjög mikið er að mér finnst bæði skólinn og vinnan rosalega skemmtileg verkefni. Meðan það er gaman og vilji fyrir hendi þá getur maður gert ýmislegt.“ 
 
 
Hér má skoða heimasíðu dansskólans og kynna sér það fjölbreytta starf sem þar fer fram.