Guðmundur Ingi Þorvaldsson hefur verið ráðinn lektor í leiklist með áherslu á aðferðir samtímasviðslista við sviðslistadeild Listaháskólans. Alls sóttu níu um stöðuna og hlutu fimm þeirra hæfi. 

Guðmundur lauk leikaranámi frá Leiklistarskóla Íslands, meistaragráðu í sviðslistum frá Goldsmith, University of London og MBA námi frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur viðamikla þekkingu og reynslu á sínu sérsviði sem leikari, hefur miðlað verkum sínum á fagvettvangi auk þess að hafa þekkingu á straumum og stefnum í samtímasviðslistum. Guðmundur hefur leikið í fjölda leiksýninga, í kvikmyndum og sjónvarpi bæði hérlendis og erlendis auk þess sem hann hefur töluverða reynslu af leikstjórn á sviði og í útvarpi.

Guðmundur er einn meðlima sviðslistahópsins RaTaTam. Hann var framkvæmdastjóri Tjarnarbíós og hefur setið í stjórn Leiklistarsambands Íslands og Sjálfstæðu leikhúsanna.