Hönnunarverðlaun Íslands voru veitt við hátíðlega athöfn í Iðnó þann 14. nóvember síðastliðinn. Þverfaglega teymið Genki Instruments hlaut hönnunarverðlaunin fyrir græjuna Wave.

 
Meðal þeirra sem standa að Genki Instruments eru Jón Helgi Hólmgeirsson vöru- og samspilshönnuður og Þorleifur Gunnar Gíslason grafískur hönnuður, en báðir eru þeir hollnemar Listaháskóla Íslands og eru jafnframt stundakennarar við hönnunar- og arkitektúrdeild. Auk Jóns Helga og Þorleifs samanstendur Genki Instruments af þeim Ólafi Bjarka Bogasyni rafmagnsverkfræðingi með meistaragráðu í tónlistartækni (e. Music technology), Daníel Grétarssyni forritara og rafmagnsverkfræðingi og Haraldi Hugossyni hagfræðingi.
 
Fimm verkefni voru tilnefnd til verðlaunanna. Eitt þeirra er verkefnið Heima, samstarfsverkefni Unicef og Búa Bjarmars Aðalsteinssonar vöruhönnuðar, hollnema Listaháskóla Íslands og stundakennara við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands. Listaháskóli Íslands var samstarfsaðili Búa og Unicef í verkefninu og tóku þrír kennarar hönnunar- og arkitektúrdeildar meðal annars þátt í að stýra vinnusmiðju sem var hluti af verkefninu.
 
Önnur verkefni sem hlutu tilnefningu voru Endurmörkun Þjóðminjasafnsins sem var í höndum Jónsson & Le‘macks og Sigurðar Oddssonar hollnema frá Listaháskóla Íslands,  True Grit, reiðhjól frá hjólreiðafyrirtækinu Lauf og að lokum Listasafnið á Akureyri hannað af þeim Ásmundi Hrafni Sturlusyni og Steinþóri Kára Kárasson hjá Kurt og Pí. Steinþór var um árabil prófessor við hönnunar- og arkitektúrdeild og þeir Ásmundur kenndu lengi saman námskeið um hönnun í borgarrými við deildina.
 
Listaháskóli Íslands tók á dögunum tal af Jóni Helga Hólmgerissyni, einum stofnenda Genki Instruments og spurði út í tilurð fyrirtækisins, hönnunarferlið og hvaða þýðingu það hefur að hljóta Íslensku Hönnunarverðlaunin.
 
HVERNIG VARÐ GENKI INSTRUMENTS TIL?
„Óli Bjarki og Danni tóku þátt í hraðli hjá Startup Reykjavík sumarið 2015. Þá langaði til að samtvinna sín helstu áhugamál sem eru tónlist og verkfræði og fyrsta hugmyndin þeirra var að búa til hljóðfæri þar sem hluta af hljóðfærinu væri stýrt með handahreyfingum. Svo áttu þeir fund með Höllu Helgadóttur framkvæmdarstjóra Hönnunarmiðstöðvar sem benti þeim á að verkefnið yrði að hafa skýrari sýn og að eitt sem þeir gætu gert væri að ráðfæra sig við hönnuð. Þá höfðu þeir samband við mig en ég var nýbúin með meistaranám í gagnvirknihönnun (e.interaction design) í Malmö þar sem að ég hafði einblínt á samtal tónlistarmanna við áhorfendur og er svo sjálfur með bakgrunn í tónlist. Svo var eiginlega frekar mikil tilviljun að Óli Bjarki heyrði í mér, ég þekkti hann ekki beint en vissi hver hann var. Ég var nýbúinn með námið og hafði komið heim til Íslands í sumarfrí, ég var búin að vera á landinu í svona þrjá daga þegar Óli Bjarki heyrði í mér. Ég auðvitað stökk bara á þetta því verkefnið hljómaði svo spennandi. Haraldur var einn af þeim sem var að stýra Startup Reykjavík á þessum tíma en hann er hagfræðingur og hefur þennan skilning á markaðsfræði og fjármálum sem okkur vantaði, svo við stálum honum til okkar. Þorleifur kemur svo aðeins seinna inn með grafísku hönnunina. Við Þorleifur höfum unnið lengi saman að allskonar verkefnum, til dæmis unnum við tveir í samstarfi við Jónsson og Le’Macks að hönnun umbúða á Norðursalti, við fengum Red Dot verðlaun fyrir það verkefni. Við vinnum vel saman og það skilar sér í hönnuninni.
 
 
GETURÐU SAGT MÉR AÐEINS FRÁ WAVE OG FERLINU Á BAKVIÐ GRÆJUNA?
„Já, eins og ég sagði höfðum við allir áhuga á tónlist og vildum samtvinna þann áhuga inn í aðra þekkingu sem við höfðum. Á Íslandi hefur maður svo góðan aðgang að tónlistarfólki þannig að það var virkilega góður markaður til að hanna fyrir, maður gat verið í svo beinum samskiptum við tónlistarfólk um þær þarfir og hugmyndir sem það hafði um svona græju. Við komumst fljótt að því að mikil áhersla var lögð á nákvæmni og áreiðanleika en um leið var mikilvægt að varan væri sýnileg, töff og áhugaverð. Wave er hringur sem þú setur á vísifingur og gerir þér kleift að stýra hljóði þráðlaust með handahreyfingu. Hringurinn hefur þrjá takka sem þú getur ýtt á með þumalfingrinum og þannig stjórnað ákveðnum hlutum, en hreyfing handarinnar getur líka breytt hljóðinu.Genki Instruments er á þeirri vegferð að gera tækni náttúrulegri og eðlislægari fyrir fólk. Raddstýring og augnskanni eru ekki jafn eðlislægar gjörðir og til dæmis hreyfing. Hreyfingin er minna áberandi og þú þarft ekki að hafa skjá fyrir framan þig eða leyfa öllum í kringum þig að heyra hvað þú ert að biðja tæknina um að gera.
Tónlistarmenn geta nýtt Wave á mjög fjölbreyttan hátt, en fyrir utan að nota hringinn til að spila tónlist, er hægt að nýta sér hann sem fjarstýringu til dæmis við upptökur á tónlist. Ef þú styðst við tölvu til að taka upp hljóð, geturðu verið inní söngklefa í upptökustúdíói að flytja tónlistina og byrjað eða stoppað upptökuna innan úr klefanum með hringnum. Síðan hafa margir tónlistarmenn notað þetta á tónleikum. Halldór Eldjórn notaði þetta til dæmis þegar hann spilaði í útgáfuboði HA eftir að við tókum við Hönnunarverðlaununum. Hann sagði okkur frá því að Wave hefði haft rosaleg áhrif á hvernig hann samdi verkið sem hann spilaði þarna því allt í einu voru möguleikar Wave farnir að stýra tónsmíðinni og leiddu hann áfram í að búa til eitthvað sem hann hefði ekki búið til annars.
Wave þarf ekki að einskorðast við tónlistarbransann en nú þegar búið er að hanna hringinn er hægt að yfirfæra hann á allskonar aðra hluti. Ýmisleg fyrirtæki hafa haft samband við okkur og sýnt áhuga á að innleiða þessa tækni í allt annað samhengi, ég get ekkert sagt meira um það núna, annað en að það eru mjög spennandi verkefni framundan.“
 
 „Til að fá einhverja áhugaverða útkomu þarf auðvitað að vita bæði  hvað  á að gera og hvernig  á að gera það.“
 
NÚ ER KOMIÐ ÞIÐ ÚR MJÖG ÓLÍKUM ÁTTUM, HVAÐA ÁHRIF HEFUR ÞAÐ Á SAMSTARFIÐ?
„Genki Instruments er svona klassísk þverfagleg hópavinna. Af því að við komum úr svo ólíkum áttum höfum við mjög ólík sjónarmið sem skarast og klassa alveg endalaust. En staðreyndin er sú að enginn okkar hefði getað gert þetta einn, við hefðum komist að allt annarri niðurstöðu ef við hefðum ekki unnið saman. Við horfum ólíkt á heiminn, sem getur verið erfitt en skilar sér alltaf í miklu betri ákvörðunum. Óli Bjarki og Danni koma inn í þetta með bakgrunn úr verkfræðinni og hugsa kannski oftar hvernig er hægt að gera hlutina, á meðan við hönnuðirnir látum það ekki endilega stoppa okkur og hugsum frekar hvað er hægt að gera. Til að fá einhverja áhugaverða útkomu þarf auðvitað að vita bæði hvað á að gera og hvernig á að gera það. En þetta er að sjálfsögðu ekki svona klippt og skorið. Við erum allir í öllu. Við tökum líka alltaf slaginn og rökræðum um hlutina þangað til við komumst að niðurstöðu sem allir eru ánægðir með. Halla Helgadóttir lýsti þessu samstarfi okkar sem „jákvæðri togstreitu milli verkfræðinga og hönnuða,“ og ég held að það sé frekar góð skilgreining á Genki Instruments.
 
„Mér finnst spennandi að takast á við mismunandi krefjandi verkefni, hvort sem þau eru í þverfaglegri samvinnu eða innan míns fags og ég stefni bara á að halda áfram að kljást við krefjandi og spennandi hluti sem vöruhönnuður.“
 
FINNST ÞÉR ÞESSI SAMVINNA HAFA HAFT ÁHRIF Á HVERNIG ÞÚ HUGSAR UM HÖNNUN? 
„Já hún hefur örugglega gert það þegar maður pælir í því. Meistaranámið sem ég var í gekk samt út á þverfagleika svo ég vissi alveg frá byrjun að þessi þverfagleiki Genki Instruments yrði styrkleiki. Ég hafði oft upplifað að vera með hugmynd og byrja á verkefni sem ég gat ekki klárað því mig vantaði sérfræðiþekkingu annarra, ég var kannski með klikkaðar hugmyndir í hausnum en hefði þurft aðstoð snillinga til að framkvæma hugmyndirnar. Genki gaf mér svo allt í einu tækifæri til að framkvæma eitthvað sem ég hefði aldrei getað gert einn. Mér finnst samvinnan hins vegar töluvert meira krefjandi en hefðbundnari hönnunarvinna. Í samvinnunni er maður alltaf í baráttu við þessa togstreitu og þarf að leggja svo mikið á sig til að skilja aðra og gera sig skiljanlegan. Þannig að núna, eftir að hafa verið í mikilli samvinnu, finnst mér allt í einu miklu rólegra að vinna hefðbundna hönnunarvinnu, eins og til dæmis húsgagnahönnun, og vinna þá einn. Samtalið sem á sér stað í þeirri vinnu er ekki jafn rafmagnað.
Mér finnst spennandi að takast á við mismunandi krefjandi verkefni, hvort sem þau eru í þverfaglegri samvinnu eða innan míns fags og ég stefni bara á að halda áfram að kljást við krefjandi og spennandi hluti sem vöruhönnuður.“
 
 
HVER HELDUR ÞÚ AÐ SÉ FRAMTÍÐ GENKI INSTRUMENTS? 
„Eins og við hugsum þetta núna er fyrsta kynslóð af Wave komin í framleiðslu, tónlistarmenn eru farnir að nota vöruna og fyrirtæki farin að þróa hana til að aðlaga að sínum þörfum. Nú tekur bara við áframhaldandi vinna við að kynna vöruna útá við og síðan langar okkur að gera aðra kynslóð af hringnum. Við sjáum fyrir okkur að halda áfram á þessari braut og einbeita okkur að því að bæta samskipti fólks við tæknina, það eru alls konar tækifæri fólgin í því.“ 
 
AÐ LOKUM, HVERNIG VAR AÐ VINNA HÖNNUNARVERÐLAUN ÍSLANDS 2019, HVAÐ ÞÝÐIR ÞAÐ FYRIR YKKUR? „Ég hef satt best að segja aldrei verið jafn ánægður með að vinna nokkur verðlaun. Þetta er alveg gígantískur heiður. Þessi fimm verkefni sem eru tilnefnd til Hönnunarverðlaunanna eru valin af öllum þeim hönnunarverkefnum sem eru gerð á Íslandi á síðustu tveimur til þremur árum, og það er ótrúlegt að vera í hópi þeirra hönnuða. Þetta er eiginlega bara klikkað og við erum búnir að vera í algjöru spennufalli. Við höfum auðvitað harkað í þessu verkefni í rúmlega fjögur ár og svona verðlaun hvetja okkur mjög mikið áfram, maður fær kannski ákveðna staðfestingu á því að öll þessi vinna er ekki til einskis og að það sé tekið eftir því sem maður er að gera.“
 
Hægt er að skoða meira um verkefnið Wave og Genki Instruments á heimasíðu þeirra hér.
 
Það verður ótvírætt spennandi að fylgjast með áframhaldandi þróun hjá Genki Instruments og óskar Listháskóli Íslands þeim félögum innilega til hamingju með að hafa hlotið Hönnunarverðlaun Íslands 2019!
 
 
genki_instruments_primary_logo.png
 

 

Ljósmyndir birtar með leyfi Genki Instruments