Tilkynnt hefur verið um styrkúthlutanir til þriggja rannsóknaverkefna úr nýjum Rannsóknasjóði Listaháskólans. 

Hlutverk sjóðsins er að styðja við rannsóknir fastráðinna akademískra starfsmanna með rannsóknahlutfall og stuðla að uppbyggingu þekkingar og þróun rannsókna á fagsviði lista. Í Listaháskólanum eru stundaðar fjölbreyttar rannsóknir þar sem unnið er með margvísleg efni, form og miðla. Borin er virðing fyrir ólíkri nálgun, viðfangsefnum og framsetningu. Skilyrði er að verkefnum sé miðlað á opinberum vettvangi.

Fjórir aðilar hlutu styrki til þriggja rannsóknaverkefna að þessu sinni; Ásgerður G. Gunnarsdóttir, lektor í sviðslistafræðum og fagstjóri fræða við sviðslistadeild, vegna rannsóknaverkefnisins Um alla borg og upp á svið – Óvænt samstarf í borginni, Bryndís Björgvinsdóttir, lektor fræða, og Birna Geirfinnsdóttir, lektor og fagstjóri í grafískri hönnun við hönnunar- og arkitektúrdeild, fyrir rannsóknaverkefnið Kristín Þorkelsdóttir: ferill, viðhorf, verk og Þorbjörg Daphne Hall, dósent og fagstjóri í tónlistafræðum við tónlistardeild, fyrir rannsóknaverkefnið Jazztónlist á Íslandi 1930 – 2010.

Um alla borg og upp á svið – Óvænt samstarf í borginni er leitt af Ásgerði G. Gunnarsdóttur, lektor fræða við sviðslistadeild, og unnið í samstarfi við og með stuðningi evrópskra samtaka hátíða og listhúsa, RDF og apap-Performing Europe. Viðfangsefni verkefnisins er að rannsaka aðferðir listamanna og sýningarstjóra innan sviðslista, sem byggja verk sín og hátíðir á samstarfi við borgir og íbúa þeirra; vinna með raddir borgarbúa og smærri hópa innan borgarsamfélaga. Niðurstöðum verður miðlað með flutningi verka á Reykjavík Dance Festival,  á málþingi og með útgáfu bókverks í tengslum við hátíðina sem fram fer síðar á árinu. Í umsögn stjórnar Rannsóknasjóðs LHÍ segir m.a.: „Hér er á ferðinni spennandi og ögrandi rannsóknaverkefni sem hefur ótvírætt gildi fyrir fræðasviðið, menningarstarf og samfélag. Má ætla að hátíðin sjálf, málþingið og útgáfan með sínum beinu tengslum út í samfélagið muni í senn efla skilning almennings á faginu, sem og styrkja samtal og opna möguleika nýrrar nálgunar innan þess.“

Kristín Þorkelsdóttir: ferill, viðhorf, verk miðar að því að rannsaka, greina og miðla ævistarfi hönnuðarins Kristínar Þorkelsdóttur. Höfundar verkefnisins eru Bryndís Björgvinsdóttir, lektor fræða, og Birna Geirfinnsdóttir, lektor og fagstjóri í grafískri hönnun, við hönnunar- og arkitektúrdeild. Rannsóknaverkefnið verður unnið í samstarfi við Kristínu sjálfa og niðurstöðum þess miðlað með útgáfu bókar og í fyrirlestrum sem fyrirhugaðir eru samhliða útgáfunni. Í umsögn stjórnar Rannsóknasjóðs LHÍ segir m.a.:„Um er að ræða mikilvæga og tímabæra útgáfu sem styður við og dregur fram framlag kvenna í grafískri hönnun á Íslandi.“

Rannsóknaverkefnið Jazztónlist á Íslandi 1930 – 2010 er leitt af Þorbjörgu Daphne Hall, dósent og fagstjóra í tónlistafræðum við tónlistardeild. Aðstoðarrannsakandi verkefnisins er Ásbjörg Jónsdóttir, tónskáld og tónlistarkennari. Um er að ræða vinnu við hluta stærra rannsóknaverkefnis sem ætlað er að spanna sögu jazztónlistar á Íslandi í heild en saga jazztónlistar á Íslandi hefur ekki verið rannsökuð með markvissum hætti til þessa og jazzfræði ekki verið stunduð hér á landi. Fyrirhugað er að miðla niðurstöðum í The Oxford History of Jazz in Europe, með fyrirlestri á Hugarflugi, ráðstefnu Listaháskóla Íslands um rannsóknir í listum, og fyrirlestri á alþjóðlegri jazzráðstefnu Rhythm Changes í Amsterdam, auk greinar um kynjavínkil í jazzsögu Íslands í Jazz Research Journal. Þá er stefnt að því að skrifa bók á íslensku um efnið þegar öllum hlutum verkefnisins er lokið. Í umsögn stjórnar Rannsóknasjóðs LHÍ segir m.a.:„Verkefnið styður við uppbyggingu fræðasviðsins, og er auk þess líklegt til að fela í sér útvíkkaða möguleika á nýrri þekkingu á öðrum fræðasviðum t.d. hvað varðar innsýn í kynþáttahyggju á Íslandi. Niðurstaða stjórnar er að hér sé um að ræða rannsóknarverkefni sem verðugt sé fyrir Listaháskólann að styðja.“

Stjórn Rannsóknarsjóðs LHÍ 2019 – 2021 skipa Þórhallur Magnússon, tónskáld og deildarforseti tónlistardeildar Sussex háskóla í Bretlandi (formaður), Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, lektor í listkennsludeild og Alexander Roberts, lektor í sviðslistadeild. Varamanneskja Alexanders, Tinna Gunnarsdóttir, prófessor í hönnunar- og arkitektúrdeild, tók sæti í stjórn við úthlutun úr sjóðunum 2019. 

 

Ljósmynd: Owen Fiene