I
Síðustu vikur hafa með vaxandi þunga dregið fram í dagsljósið kynbundið ranglæti, áreitni og ofbeldi í samtímanum.
 
Allt hefur þetta gerst undir formerkjum #metoo hreyfingarinnar; hreyfingar sem hófst með sögu einnar konu, en hefur fyrir tilstuðlan ótrúlegrar samstöðu orðið að víðtækri viðhorfsbyltingu um allan hinn vestræna heim.
 
Það eru töluverð tíðindi að umræðan í samfélaginu skuli hafa snúist um þessi alvarlegu mál í jafnlangan tíma og reyndin sýnir og vitnar vonandi um það að umburðarlyndi eða aðgerðarleysi gagnvart kynbundnu ofbeldi eða áreitni verði loks útrýmt.
 
Því þótt aldrei sé hægt að koma endanlega í veg fyrir ofbeldi eða áreitni, er sannarlega hægt að sýna samfélagslega samstöðu um að slíkt sé ekki liðið – að réttlæti sé leiðarljós gagnvart þeim sem hafa verið jaðarsettir, kúgaðir eða beittir ofbeldi vegna kynferðis eða kyngervis.
 
II
Staðreyndin er sú að konur, ekki síst ungar konur, búa nánast allstaðar við virðingarleysi, fordóma og ósæmilega hegðun í sínu starfsumhverfi.
 
Það segir sína sögu um kerfislæga kvenfyrirlitningu að nánast hver einasta kona skuli hafa slíka sögu að segja.
 
Í þessu tilliti eru allar stofnanir samfélagsins undir og er Listaháskóli Íslands þar engin undantekning, ekki síst þegar horft er til þess að konur í sviðslistum ruddu brautina með sínum röddum hér á landi.
 
III
Í ljósi þess yfirlýsta markmiðs Listaháskóla Íslands frá 29. nóvember sl. “að ofbeldi á borð við það sem #metoo hreyfingin hefur afhjúpað verði hvorki þaggað niður eða umborið”, er rétt að gera grein fyrir helstu viðbrögðum sem Listaháskólinn hefur staðið fyrir á þessu haustmisseri:
 
 • 24.10 – Forseti sviðslistadeildar sendir út yfirlýsingu fyrir hönd starfsfólks á facebook síðu deildarinnar tengslum við #metoo þar sem sviðslistastofnanir eru hvattar „til að vera vakandi fyrir neikvæðum birtingarmyndum feðraveldisins sem hamla flæði sköpunar og framgang listgreinarinnar“.
 • 27.10 – Opin málstofa um birtingamyndir feðraveldisins á vegum sviðslistadeildar.
 • 01.11 – Kynjafræðingur vinnur með starfsfólki og fulltrúum nemenda í sviðlistadeild.
 • 01.11 - Vinnuhópur um jafnréttismál er stofnaður innan sviðslistadeildar til að vinna að viðbragðsáætlun deildarinnar.
 • 27.11 – Rektor og forseti sviðslistadeildar komu fram í samtali á rás 2 RÚV.
 • 27.11 – Rektor kom fram í Kastljósi RÚV ásamt Þjóðleikhússtjóra.
 • 28.11 – Forseti sviðslistadeildar sendir út persónulega yfirlýsingu á facebook hóp sviðslistadeildar.
 • 29.11 – Rektor sendir út yfirlýsingu fyrir hönd LHÍ sem birtist á vef LHÍ, facebook síðu LHÍ og var síðan send út sem fréttatilkynning til allra fjölmiðla.
 • 29.11 – Forseti sviðslistadeildar skrifar persónulega yfirlýsingu á opinberri (opinni) facebook síðu sviðslistadeildar.
 • 29.11 – Mannauðsstjóri sendir út tölvupóst á nemendur og starfsfólk þar sem greint er frá úrræðum í boði, hvað hafi þegar verið gert og hvað sé framundan.
 • 30.11 – Mannauðsstjóri kynnir fyrstu drög að  endurskoðaðri viðbragsáætlun undir heitinu „reglur um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi“. Á næstu dögum taka þau drög ýmsum breytingum í samræmi við ábendingar og samráð við eftirfarandi aðila:
  • 30.11. Yfirlestur sérfræðings í kynjafræði.
  • 01.12.  Yfirlestur hjá jafnréttisnefnd LHÍ, framkvæmdaráði LHÍ, fagráði LHÍ og nemendaráði LHÍ.
  • 05.12. Jafnréttisnefnd fjallar um reglurnar.
  • 06.12. Framkvæmdaráð, fagráð og samráðsvettvangur stoðsviða fjalla um reglurnar.
  • 07.12. Nemendaráð fjallar um reglurnar.
  • 13.12.  Yfirlestur lögfræðings.
  • 14.12. Umfjöllun stjórnar.
 • 08.12 – Opin málstofa með kynjafræðingi á vegum sviðslistadeildar – opin öllum deildum og starfsmönnum skólans. 
 • Vinnuhópur um jafnrétti í sviðslistadeild kynnir nýskrifaðar siðareglur leiðbeinenda og endurskoðaða jafnréttisstefnu sviðslistadeildar.
 • 11.12 – Nemendum og kennurum í sviðslistadeild sem orðið hafa fyrir áreitni eða ofbeldi í skólastarfinu er boðið viðtal við utanaðkomandi sérfræðing.
 • 12.12 – Hollnemum sviðslistadeildar sem orðið hafa fyrir áreitni eða ofbeldi í skólastarfinu er boðið viðtal við utanaðkomandi sérfræðing.
 • 13.12. – Opinn fundur innan tónlistardeildar um #metoo.
 • 18.12 – Starfsfólki og nemendum sviðslistadeildar er boðin hópráðgjöf í sitt hvoru lagi í tengslum við áhrif #metoo opinberananna.
 
Á næstu dögum og vikum er gert ráð fyrir frekari umræðu í öðrum deildum.
 
IV
Á vormisseri eru eftirfarandi aðgerðir þegar fyrirhugaðar á vegum skólans sem heildar:
 
Janúar: Könnun til að skoða fjölda tilvika meðal nemenda og starfsmanna LHÍ.
Janúar: Fræðsla fagaðila fyrir nemendur annars vegar og starfsfólk hinsvegar.
Febrúar: Í verkefnaviku verður þematengd vinnustofa fyrir starfsmenn um #metoo, valdeflingu nemenda, breytta kennsluhætti og annað það sem tengist málefninu og nauðsynlegt er að ávarpa í skólastarfinu til að mennta fólk inn í viðkomandi listgreinar með ný viðmið í huga.
Febrúar: Ný stefna skólans verður kynnt þar sem fyrirhugað er að taka á þessu málefni sérstaklega, m.a. með endurskoðun siðareglna og jafnréttisáætlunar.
 
Sviðslistadeild hefur þegar hafið vinnu við að umbylta kennsluháttum á sínu fræðasviði og er nú í miðri aðgerðaáætlun sem hófst fyrir nokkru síðan. Meðal þess sem þegar hefur verið skipulagt af deildinni er:
 
Janúar: Opin málstofa með sérfræðingi í kennslufræðum um nemendamiðað nám, kosti þess og galla.
Janúar: Inntökupróf verða skipulögð í nánu samstarfi við nemendur, fyrst á leikarabraut.
Allt árið: Sjálfbærniverkefni Norteas, sem leitt er af LHÍ, er tilraun í nýjum kennsluháttum og breyttri afstöðu listamannsins í átt að meiri valdeflingu. Verkefnið hófst hér á landi 2017 og lýkur í Malmö í febrúar 2019.
 
Á haustmisseri 2018 eru eftirfarandi aðferðir fyrirhugaðar á vegum skólans sem heildar:
 
Ágúst: Nýnemadagur; stefnt er að vinnustofu þar sem reglur skólans um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi verða kynntar auk fræðslu er miðar að því að vekja nemendur til umhugsunar um breyttan hugsunarhátt á fræðasviði lista.
Október: Endurlit og stöðumat að ári loknu, er miðar að því að bæta aðgerðir og vinnuumhverfi nemenda og kennara innan LHÍ í þessu tilliti.
 
Jafnréttisdagar háskólanna: umræða um #metoo, valdeflingu, breytta kennsluhætti og fleira verður skoðað sérstaklega þessa daga.
 
V
Að lokum er rétt að taka fram að „Listaháskólinn ber ríka ábyrgð við að gæta þess að nemendur hans geti eftir útskrift stuðlað að umbyltingu og þróun samfélagsgerðarinnar á þann veg að jafnræðis sé gætt í öllu orði og æði innan þeirra list- og hönnunargreina sem kenndar eru við skólann“, líkt og fram kom í yfirlýsingunni frá 29. nóvember sl.
 
Það er ætlun okkar að standa undir þeirri ábyrgð nú, en ekki síður í framtíðinni með hverjum þeim ráðum sem nauðsynleg verða; hvort heldur sem þau lúta að hugmyndafræðilegri uppbyggingu, að innviðum og regluverki innan LHÍ, valdeflingu nemenda eða hvers kyns þátttöku í opinberri orðræðu.
 
Nemendur og starfsmenn Listaháskólans hafa enda sýnt það að þeir hafa til að bera það þor og þrek sem bylting á borð við #metoo krefst af okkur öllum.
 
Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor.