Vatnsmýri er ákjósanlegasta staðsetningin fyrir framtíðarhúsnæði Listaháskóla Íslands samkvæmt frumathugun Framkvæmdasýslu ríkisins, sem kynnt var mánudaginn 29. júní.
 
Listaháskólinn hefur glímt við húsnæðisvanda um árabil en starfsemi hans er dreifð um fjögur hús í tveimur póstnúmerum. Framkvæmdasýsla ríkisins réðst í frumathugun á húsnæðismálum LHÍ að beiðni mennta- og menningarmálaráðuneytisins í samráði við LHÍ.
 
Forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins, Guðrún Ingvarsdóttir, kynnti niðurstöðurnar fyrir fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytisins, rektor og starfsfólki LHÍ, Hollnemafélagi skólans og borgarstjóra á fundi í húsnæði skólans í Laugarnesi. Leiddi frumathugunin í ljós að Vatnsmýri væri ákjósanlegasta staðsetningin fyrir sameinað framtíðarhúsnæði Listaháskólans.
 
GI vítt.jpg

Guðrún Ingvarsdóttir forstjóri framkvæmdarsýslu ríkisins

 

„Þessi niðurstaða markar ákveðin tímamót í mikilvægu verkefni. Það er tilgreint í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að unnið verði að lausn á húsnæðismálum Listháskóla Íslands á kjörtímabilinu. Uppbygging framtíðaraðstöðu Listaháskóla Íslands í Vatnsmýrinni í Reykjavík hefur marga kosti,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
 
“Fundurinn gaf góð fyrirheit um langþráð upphaf uppbyggingar framtíðarhúsnæðis þar sem Listaháskólinn getur loks sinnt sínu mikilvæga hlutverki í faglegu umhverfi undir einu þaki og þar með orðið það mikla hreyfiafl sem hann hefur alla burði til að vera í íslensku samfélagi - ekki síst í ört vaxandi geira skapandi greina,” segir Fríða Björk Ingvarsdóttir rektor.  
 
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði að Listaháskólinn, með sitt einstaka sjónarhorn, væri góð viðbót við það fræðasamfélag sem er og verið er að byggja upp í Vatnsmýri.
 
FBIogDBE.jpg

Fríða Björk Ingvarsdóttir og Dagur B. Eggertsson 

 

Þegar er búið að tryggja fjármagn í samkeppni og útboð, en ekki verður hægt að hefjast handa við frekari uppbyggingu fyrr en búið er að tryggja fjármögnun verkefnisins. Fram kom á fundinum að málið hefði verið tekið fyrir á fundi ríkisstjórnarinnar í síðustu viku og jafnframt að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem seinkað hefur vegna Covid19, á að vera tilbúin í byrjun október. 
Frumathugunin er nú til umfjöllunar í mennta- og menningarmálaráðuneyti og verður síðan tekin fyrir og rædd á vettvangi samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir.

Hér má nálgast niðurstöður framkvæmdarsýslu ríkisins.