Vegna þeirrar óvissu og samfélagslegu breytinga sem orðið hafa af völdum heimsfaraldsins Covid-19 hefur Listaháskóli Íslands ákveðið að framlengja umsóknarfrest í alþjóðlegt meistaranám í hönnun, myndlist og sýningagerð til 15. júní 2020.
 
MA HÖNNUN
MA Design Explorations & Translations er alþjóðlegt meistaranám í hönnun. Námið er opið fyrir umsóknum frá öllum fagsviðum, innan og utan lista og hönnunarsamfélagsins. Námið kallar á þverfaglegt samtal og samstarf, við samnemendur, kennara, sérfræðinga og samstarfsaðila. Námið er gagnrýnið rannsóknarnám í hönnun þar sem undirstaða námsins eru könnunarleiðangrar þar sem við beitum hefðbundinni aðferðafræði í sértæku samhengi (kortlagning, kerfi, verkferlar, samhengishönnun) í samtímanum í bland við aðferðafræði hönnunar sem liggja á þenslumörkum hönnunar (Discursive Design, Speculative Design, Design Fiction, Critical Design, Alternative Design). Námið fer fram á ensku.
            Forkröfur eru Bachelorgráða í listum, raunvísindum eða hugvísindum.
Umsóknarform og frekari upplýsingar má finna hér.
Heimasíðu MA Hönnun má finna hér. 
 
 
MA MYNDLIST
Meistaranám í myndlist styður við framsækna listsköpun hvers og eins. Áhersla er lögð á sköpun og rannsóknarvinnu í því augnamiði að styrkja innsýn nemandans í hinn margbrotna heim samtímalistar. Sótt er eftir sveigjanleika og sérhæfingu í efnivið og aðferðum, sem krefst þess að þú sért fær um að staðsetja þig, rýna í og glíma við listrænar áskoranir og aðstæður innan fagsins. Námið fer fram á ensku.
            Forkröfur eru bakkalárgráða í myndlist, listasögu eða listfræði. Umsækjendur með bakkalárgráður í öðrum fögum geta sótt um en þurfa að sýna fram á skilning á myndlist, samhengi og aðferðafræði hennar.
Umsóknarform og frekari upplýsingar má finna hér.
Heimasíðu MA myndlist má finna hér. 
 
 
MA SÝNINGAGERÐ
Á námsbrautinni er litið á sýningagerð sem valkost innan myndlistar og námið er vettvangur þar sem hvatt er til að leita nýstárlegra leiða til að skilgreina og miðla sýningagerð og listsköpun í víðu samhengi í samtímanum. Námið er einstaklingsmiðað og megináhersla lögð á að þróa og þroska listræna sýn nemenda, og veita þeim tækifæri til að raungera hugmyndir sínar, og rými til tilrauna og rannsókna innan sýningagerðar. Hér er ekki litið á sýningagerð sem grein er einskorðast við myndlist heldur leið til að stofna til samtals við fræðasvið lista almennt, sem og önnur svið kunnáttu og sérfræðiþekkingar. Námið getur því hentað nemendum með bakgrunn í ólíkum fögum og greinum. Námið fer fram á ensku.
            Forkröfur eru bakkalárgráða (BA/BS), æskilegt er að umsækjendur hafi starfsreynslu á sviði samtímalista.
Umsóknarform og frekari upplýsingar má finna hér.