Signý Þórhallsdóttir útskrifaðist sem fatahönnuður frá Listaháskólanum vorið 2011 og starfar í dag fyrir Vivienne Westwood þar sem hún hannar kvenföt og munstur fyrir Red Label Japan.

Hvað hefurðu haft fyrir stafni síðan þú útskrifaðist frá LHÍ?
Á síðustu önninni minni í skólanum var íslenskur textílhönnuður sem starfar í New York með fyrirlestur. Hún kveikti áhuga hjá mér á prenthönnun, svo að eftir útskrift hafði ég samband við hana og spurði hvort ég mætti koma í starfsnám. Það gekk allt eftir og reyndist mér ofsalega góð reynsla. Eftir þrjá mánuði úti var ég ekki tilbúin að fara aftur heim svo ég ákvað að fara til London í staðinn og fá meiri reynslu. Ég endaði með að fá Leonardo styrk og fór í starfsnám til Eley Kishimoto og Zöndru Rhodes.

Hvar býrðu í dag og við hvað starfarðu?
Ég bý í Highbury í norðaustur London og er að vinna sem aðstoðarhönnuður hjá Vivienne Westwood en ég vinn við að hanna kvenföt og munstur fyrir Red Label Japan. Vivienne Westwood er mjög vinsælt merki í Japan og teymið mitt vinnur að tveimur fatalínum á ári sem eru einungis seldar í verslunum þar. Vinnan er mjög lífleg og skemmtileg en auðvitað líka krefjandi.

Hvað er áhugaverðast við vinnuna þína?

Mér finnst áhugaverðast að vinna í umhverfi sem þar sem einlæg ástríða fyrir hönnun og menningu helst í hendur við samfélags- og umhverfisvitund.

Nú er Vivienne Westwood mikill talsmaður umhverfisvænna neyslumynsturs, er það áberandi innan fyrirtækisins?
Já, það er áberandi bæði í hönnuninni sjálfri, efnisvali og framleiðslu, en það birtist líka inni á vinnustaðnum. Sem dæmi má nefna að þá eru reglulega haldnir fundir þar sem fjallað er um umhverfismál og starfsfólk hvatt til að láta sig þau varða. Þetta hefur haft mikil áhrif á mig, sérstaklega það að sjá áhrifamikið fyrirtæki sýna ábyrgð í verki. Þá öðlast maður smá von um að hlutirnir séu að þróast í rétta átt.

Þú hefur einnig starfað sjálfstætt sem munsturshönnuður og fyrir Anthropologie, að hvaða leiti hefur það sem þú hefur verið að gera í gegn um tíðina haft áhrif á hvernig hönnuður þú ert í dag?
Ég hef alltaf sótt í litríka hönnun og textíl. Á tímabili vildi ég frekar reyna fyrir mér sem prenthönnuður en fatahönnuður og sótti mjög í reynslu á því sviði. Ég vann sem prenthönnuður og líka í versluninni Anthropologie, sem leggur mikla áherslu á prent og textíl. Síðan fór mig að þyrsta í að vinna aftur með föt. Það hefur samt reynst mér vel að hafa reynslu á báðum sviðum og ég er einstaklega glöð að fá að vinna við hvort tveggja í dag. Ég mun tvímælalaust reyna að halda áfram á þeirri braut.

Hvað er fatahönnun fyrir þér?
Mér finnst fatahönnun vera að grípa einhverja tilfinningu eða stemmningu og setja hana í snið og efni. Hún er þannig kannski skyldari myndlist heldur en aðrir hönnunargeirar.

Föt endurspegla líka menninguna og hvaða áherslur eru ráðandi, þannig að þau segja mun meira um samtímann heldur en maður kannski gerir sér grein fyrir. Jafnvel fólk sem hefur engan áhuga á tísku hefur samt skoðun á hverju það vill klæðast.

Fyrir mér snýst hönnunin líka mikið um smáatriði og efnisval, það er það sem lætur okkur líða vel í fötunum okkar.

Hvað situr mest eftir hjá þér af því sem þú lærðir í Listaháskólanum?
Fyrir utan það að vinna að lokaverkefninu, sem var algjör rússíbani og lærdómsríkt ferli, þá held ég að ferðin til Parísar á fyrsta ári hafi staðið mest upp úr. Þar vorum við bekkurinn í sex vikur að starfa hjá hinum ýmsu hönnuðum og vinna fram að tískuvikunni. Það var ómetanleg reynsla að vera í þessu umhverfi og fá smá nasaþef af því hvernig þetta virkar allt. Svo var auðvitað dásamlegt að kynnast öllum krökkunum í bekknum!

Hversvegna ætti fólk að fara í Listaháskólann?
Mér fannst frábært við Listaháskólann að geta kynnst fullt af skapandi fólki, sem var samt að fást við ólíka hluti í mismunandi deildum. Skólinn er auðvitað líka lykilafl og tengiliður við hönnunarsenuna á Íslandi. Svo fannst mér gott hvað skólinn er þægilegur að stærð og samskiptin góð milli deilda og starfsfólks.

Hverjir eru svo framtíðardraumarnir?
Ég ætla að vinna svolítið lengur í London, það er svo mikil orka og örvun hérna. En gróskan á Íslandi er auðvitað mjög spennandi og það er gaman að fylgjast með hvernig hönnun er að komast á flug sem alvöru atvinnugrein. Það verður mjög gaman að taka þátt í því ævintýri þegar ég er búin með London.