Viktoría Buzukina vakti mikla athygli, ásamt samstarfsfólki sínu á Hvíta húsinu, seint á síðasta ári fyrir hönnun sína á myndefni stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Viktoría er hönnuður og listakona og flutti til Íslands frá Krímskaga árið 2010 til að hefja nám í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands en segist hafa fallið fyrir Íslandi löngu áður.

 

 
viktoria_buzukina_2018_1.jpg
Viktoría Buzukina, grafískur hönnuður og hollnemi hönnunar- og arkitektúrdeildar.
 
 
Áhuginn kviknaði snemma
„Ég var 10 ára þegar ég kom í fyrsta skipti til Íslands en pabbi vann á Íslandi og við mamma bjuggum úti. Síðustu fimm ár hef ég starfað sem grafískur hönnuður á auglýsingastofunni Hvíta húsinu. Í frítímum er ég að mála og gera myndskreytingar, ásamt því að sinna fjölskyldunni.“ segir Viktoría.
 
„Ég man varla eftir mér öðruvísi en að mála eða teikna,“ segir Viktoría þegar hún er spurð hvenær áhuginn á hönnun hafi kviknað og heldur áfram: „Ég var sjö ára þegar mamma bauð mér að fara í kvöldskóla og ég valdi að læra myndlist. Þar var ég til 16 ára og prófaði alls konar aðferðir eða stíla en ég er alltaf til í að prufa eitthvað nýtt. Mér finnst gaman að læra og bæta við nýrri reynslu – þannig viðheld ég vexti mínum og sköpunarkrafti.“
 
Viktoría segist alltaf hafa viljað flytja til Íslands eftir að hún kom hingað fyrst. „Fyrst vildi ég þó klára háskólanám áður en ég myndi flytja. Árið 2008 útskrifaðist ég með BA gráðu í innanhússhönnun frá Menningar- og listaháskóla Úkraínu (National University of Culture and Arts). Þar tók ég m.a. námskeið sem heitir Mörkun og við þurftum að hanna verslun og branda hana alla leið, allt frá innviðum, yfir í lógó og markaðsefni. Innanhússhönnun og grafísk hönnun - þetta tvennt gat verið svo samofið og ég fann að þetta væri það sem ég vildi gera í framtíðinni. Ég ákvað því í framhaldinu að sækja um í grafískri hönnun í Listaháskóla Íslands.“
 
Eftir að Viktoría lauk öðru ári í LHÍ sótti hún um sumarvinnu á nokkrum auglýsingastofum og fékk starf á Hvíta húsinu. „Eftir frábæra og skemmtilega reynslu það sumar, hélt ég áfram að vinna þar í hlutastarfi og eftir útskrift var ég ráðin í fullt starf. Ég sinni þó líka freelance verkefnum í myndskreytingum eða listmálun,“ segir Viktoría sem segist sinna afar fjölbreyttum verkefnum, bæði þeim sem hún vinnur hjá Hvíta húsinu og á eigin vegum.

 

 
haforn.jpg
Viktoría fangar fegurð íslenskra fugla með vatnslitum.
 
 
Fjölbreytt verkefni
„Verkefnin sem ég vinn freelance og vel sjálf eru ekki mörg, en yfirleitt tengd myndskreytingum. Ég gerði myndskreytingar fyrir ársskýrslu UNICEF 2016, hef gert nokkrar myndskreytingar fyrir íslensk tímarit, póstkort, „flyera“, myndskreytingar og uppsetningar fyrir kennslu- og vinnubækur. Síðan hef ég verið að fanga fegurð íslenskra fugla með vatnslitum og það er mín hugleiðsla milli verkefna. Í Hvíta húsinu er ég mikið í myndskreytingum, sem mér finnst skemmtilegast, en ég er líka að taka þátt í umbúðahönnun, auglýsingum, lógóhönnun, umhverfisgrafík og fleiri verkefnum fyrir fjölbreytta miðla.“
 
Fyrsta stóra verkefni Viktoríu í Hvíta húsinu vann hún með Gunnari Þór Arnarsyni. „Það voru myndskreytingar fyrir kaffihús Advania,“ segir Viktoría, „andlitsmyndir af íslenskum snillingum og brautryðjendum, Kjarval, Steini Steinarr og Bríeti Bjarnhéðinsdóttur. Þetta var áskorun og mjög skemmtilegt og ég er mjög stolt af að hafa tekið þátt í þessu. Við fengum Lúður fyrir verkefnið og silfur í FÍT-keppninni í flokknum Umhverfisgrafík.“
 
advania_kaffihus_2.jpg
Kjarval á kaffihúsi Advania.
 

 

Á mótum grafískrar hönnunar og innanhúshönnunar
Eins og fram kom hér að ofan þá átti Viktoría stóran þátt í myndskreytingum fyrir stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, sem vöktu töluverða athygli. „Mitt verk var að gera myndskreytingar fyrir forsíðu og kaflaskil. Markmiðið var að gera þetta létt og nútímalegt. Ég var mjög ánægð með útkomuna og þakka mínum yfirmönnum fyrir að treysta mér fyrir þessu verkefni,“ segir Viktoría sem segir erfitt að svara því af hvaða verkefnum hún sé stoltust.
 
„Þetta er mjög erfið spurning. Ég er jafn stolt af öllu sem ég geri. En það stendur samt upp úr verkefni á Hvíta húsinu sem ég gerði fyrir Rauða krossinn, sem reyndi á alla mína þekkingu og menntun. Það var endurmörkun á verslunum Rauða krossins á Íslandi. Algjör yfirhalning með nýju útliti, upplifun og markmiðum. Allt frá konsept búðanna niður í merkimiða, poka og hillurekka. Þetta var fyrsta innanhússhönnununarverkefnið mitt þar sem grafíska menntunin gat notið sín samhliða. Ég er stolt af útkomunni og ánægð með að hafa fengið að vinna þetta verkefni. Væri gaman að fá fleiri svona.“
 
 
rk_1.jpg
Verkefnið fyrir Rauða krossinn reyndi á alla þekkingu og menntun Viktoríu og gerði henni kleift að sameina áhuga sinn á grafískri hönnun og innanhúshönnun.
 

 

Samvinnan góð lexía
„LHÍ er frábær háskóli með fjölbreytt námskeið og góða kennara,“ segir Viktoría spurð út í gæði námsins við hönnunar- og arkitektúrdeild. „Ég fékk góða menntun þar, kynntist margvíslegum flötum grafískrar hönnunar, eignaðist vini, ásamt því að fá dýrmæta reynslu og innblástur. Ein mikilvægasta lexían sem ég lærði var samvinna. Þegar hópur fólks með ólíkar skoðanir á að vinna saman að einu verkefni, skila því á réttum tíma og láta allt ganga upp – það getur reynt verulega á. Það var ekki alltaf auðvelt en mikilvægt að læra þar sem það er alltaf góð samvinna sem liggur að baki sérhverju verkefni. Hvort heldur í háskóla eða á auglýsingastofu.“
 
satt_x8.png
Námið í Listaháskóla Íslands veitti Viktoríu góðan undirbúning. Myndskreyting úr sáttmála ríkisstjórnarinnar.