Thomas Pausz, lektor við Listaháskóla Íslands og fyrrum nemendur í vöruhönnun sýna á stórri hönnunarsýningu í Victoria and Albert Museum í London, Food Bigger than the Plate.

Sýningin Food Bigger than the Plate opnaði í Victoria and Albert Museum þann 18. maí síðastliðinn og hefur vakið mikla athygli. Sýningin, sem stendur til 20. október 2019, tekst á við matarmenningu í pólitísku samhengi, ekki síst í samhengi umhverfismála, framleiðsluaðferða og stéttaskiptingar og skoðar jafnframt þá ánægju sem matur getur veitt manneskjunni. Á sýningunni má skoða allt frá tilraunum með mannaúrgang sem eldsneyti að nýjum tillögum um borgarbúskap og framleiðsluaðferðir sem hinir ýmsu hönnuðir og listamenn hvanæva af tefla fram. Meginspurning sýningarinnar sem listamennirnir reyna að svara er hvaða sameiginlega þróun getur leitt að sjálfbærari, réttlátari og gómsætari framtíð fyrir bæði fólk, dýr og umhverfi.
 
Verk eftir áhrifamikla og þekkta hönnuði og listamenn víðs vegar að úr heiminum voru valin inn á sýningunna. Á sýningunni má meðal annars finna verk eftir þrjá listamenn sem hafa sterk tengsl við Ísland. Thomas Pausz lektor við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands, Björn Steinar Blumenstein fyrrum nemandi við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands og núverandi stundakennara við deildina og Johanna Seeleman fyrrum nemanda í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands. Verk þeirra hafa hlotið mikla athygli á sýningunni en umfjöllun um þau má meðal annars finna á vef The Economist og The Hindu.
 
Sýningin veltir upp mögulegri þróun og framtíð matar og matvæla í tengslum við hönnun og skapandi lausnir og það er sannarlega ánægjulegt að verk hönnuða sem starfa á Íslandi séu sýnd í þessu samhengi.
 

Um verkin:

Non Flowers for a Hoverfly e. Thomas Pausz
Verk Thomasar Pausz var unnið í samstarfi við rannsakendur hjá Náttúrumiðstöð líffræðilegra vísinda í Bangalore (e. the Natural Center for Biological Sciences), þau Dr. Shannon Olsson og Vikram Pradhan. Verkið sjálft gengur út á að skilja betur hvatir frjókornadreifara á borð við býflugur til að geta bætt samvinnu manna og skordýra við matarframleiðslu. Þeir sem standa að verkinu nýta sér sýndarveruleika fyrir býflugurnar til að rannsaka hvernig þær skynja heiminn og umhverfið. Niðurstöður rannsóknarinnar eru síðan notaðar til að skapa form sem virka eins og nokkurs konar gerviblóm. Gerviblómin draga flugurnar að sér, flugurnar aðstoða við frjókornadreifingu á stærri skala og auka þannig framleiðslu. Non Flowers for a Hoverfly tekst á vissan hátt við hið hefðbundna starf býflugnabóndans: Býflugnabóndinn hagnast á vinnu býfluganna með því að sjá til þess að skapa þeim kjöraðstæður. Hver tegund getur hagnast á hæfni og getu hinna tegundanna. Þetta er í algjörri mótsögn við tengsl manna og dýra sem byggir á valdi manna með misnotkun á dýrum og tíðkast í hinum hefðbundna búskap samtímans Sú nálgun sem Thomas bendir á með þessu verki veltir fram róttækum breytingum á sambandi tegundanna, þar sem samstarf og samlífi ríkir. 
 
 
nonflowers.jpg
 

 

Banana Story e. Björn Steinar Blumenstein og Johanna Seelemann
Hugmyndin af verkinu kviknaði á meðan Björn og Johanna voru enn í námi við Listaháskólann og var hluti af lokaverki þeirra beggja við skólann. Verkið gengur út á að fylgjast með ferðalagi banana frá ræktun til neyslu og er áframhaldandi rannsókn og miðlun á flóknu kerfi farmaflutninga á heimsvísu. Sagan sjálf er sögð frá sjónarhóli banana sem ferðast frá Ecuador til Íslands.
 
Upphafið að verkinu má rekja til þess þegar Björn Steinar og Johanna fundu ruslagám fyrir utan einn stórmarkaðar Reykjavíkur fullan af ferskum banönum. Þau áttu ekki til orð, hér í 8800 km fjarlægð frá Ecuador, upprunalandi banananna,  var banönunum tekið sem sjálfsögðum hlut sem væri allt í lagi að henda í hundraðatali. Þau fundu á sér að þarna lægi áhugaverð saga að baki sem vert væri að segja frá.
 
Staðlaðar einingar farmflutninga og alþjóðaviðskipta eru brotnar upp til að miðla sögu um hversdagslega hluti. Þar eru alþjóðaviðskipti og mannleg samskipti tvinnuð saman til að svipta hulunni af hversdagslegu hlutum.
 
Hrifning þeirra á banananum óx eftir því sem saga hans varð flóknari. Farmflutningum og mannlegum samskiptum er fléttað inn í tillögu hönnuðanna að nýjum leiðum til merkja hversdagslegar vörur með raunverulegum upplýsingum um uppruna vörunnar og ferðalagið hennar til neytandans.
 
_blumenstein_seelemann_made-in_label_1.jpg
 

 

 
 
Mikilvægt að vera hluti af samtalinu
Hönnuðir og listamenn munu að öllum líkindum spila stærra og stærra hlutverk á komandi árum á öllum sviðum mannlegrar tilvistar. Vandamál samtímans kalla á nýsköpun, þróun og skapandi lausnir. Það er mikið gleðiefni og ástæða til að vekja athygli á því að hönnuðir, starfsmenn og nemendur Listaháskóla Íslands séu virkir í samtalinu um þessi brýnu málefni á alþjóðavísu.