Bókin Tvísöngur kom út á dögunum á vegum Sæmundar bókaútgáfu. Í bókinni heyrum við á tal doktor Berglindar Maríu Tómasdóttur og hinnar veraldarvönu Rockriver Mary sem deila líkama. Tvísöngur er samtal þeirra um tónlist og hefðir, hljóðfærin Hrokk og Lokk og hvað er satt og hvað er logið. Í bókinni eru rannsóknir á fræðasviði lista ofnar saman við persónulegar pælingar og sögur af eigin afrekum á tónlistarsviðinu.

Tvísöngur er fyrsta bók Berglindar Maríu Tómasdóttur og segir meðal annars frá hljóðfærauppfinningum höfundar. Sögusvið hljóðfæranna Hrokkur og Lokkur er Íslendingaslóðir í Vesturheimi með kvenskörunginn Rockriver Mary í fararbroddi. Uppdiktaðar tónlistarhefðir sem tengjast hljóðfærunum eru í forgrunni og hefur verkefnið öðrum þræði verið langvarandi gjörningur um menningararfleifð, tengingar tónlistar og þjóðernis, hefða og uppruna. 

Tónlist fyrir Lokk og Hljóðbréf

Samhliða bókinni kemur út tónlist fyrir Lokk á geisladiski og hljóðsnældu, og stafrænum veitum. Geisladiskurinn kemur út á vegum þýsku útgáfunnar Backlash Music (https://www.backlashmusic.net/) og inniheldur verk fyrir Lokk eftir Karólínu Eiríksdóttur, Lilju Maríu Ásmundsdóttur, Þórunni Grétu Sigurðardóttur og Berglindi Maríu Tómasdóttur. Jafnframt kemur út hljóðsnælda með hljóðbréfum (e. Reworks) frá tónskáldum sem unnin eru út frá hljóðum Lokks og Hrokks. Tónskáldin eru Bergrún Snæbjörnsdóttir, Clint McCallum, Elín Gunnlaugsdóttir,  Erik DeLuca, Hafdís Bjarnadóttir, Kurt Uenala, Lilja María Ásmundsdóttir, Rachel Beetz, Þóranna Björnsdóttir og Berglind María Tómasdóttir.

Tóndæmi af geisladisk má nálgast hér:

Á bandcamp: https://berglindtomasdottir.bandcamp.com/album/music-for-lokkur 

Á Spotify: https://open.spotify.com/album/14068LNMxjb76nPPBGpEMw?si=bvMbrAMqSzO199Z...

Kassettu má hlusta á hér: https://berglindtomasdottir.bandcamp.com/album/lokkur-reworks 

Uppruni hlutannakvikmynd eftir Berglindi Maríu Tómasdóttur er enn ein birtingarmynd verkefnisins. Myndin er videóesseyja um hljóð, minni og sjálfsmyndir. Myndin var sýnd í Norræna húsinu fyrr á árinu sem hluti sýningarinnar Í síkvikri mótun: vitund og náttúra.

Myndin er aðgengileg hér: http://berglindtomasdottir.com/#/the-origin-of-things/

 

Berglind María Tómasdóttir er flautuleikari og tónskáld sem vinnur þvert á miðla. Í verkum sínum leitast hún við að kanna ímyndir og erkitýpur sem og tónlist sem félagslegt fyrirbæri. Sem flautuleikari hefur Berglind komið fram á tónleikum víðs vegar um heiminn, nú síðast sem meðlimur í flautuseptettnum viibra sem kemur fram með Björk í tónleikhúsinu Cornucopia. Hún hefur jafnframt leikið inn á fjölda hljóðrita, meðal annars sem einleikari ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Vladimir Ashkenazy. Verk Berglindar hafa meðal annars verið pöntuð og flutt á vegum Flautusamtaka Bandaríkjanna (The National Flute Association), Norrænna músíkdaga, Myrkra músíkdaga og Listahátíðar í Reykjavík. Berglind stundaði nám í flautuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og Konunglega danska konservatoríið og lauk doktorsprófi í flutningi samtímatónlistar frá Kaliforníuháskóla í San Diego árið 2013. Berglind er prófessor við Listaháskóla Íslands.

Hægt er að sjá nánar um útgáfuna hér: http://berglindtomasdottir.com/#/tvsngur-duet/