FISHSkin
Nýsköpun í nýtingu sjávarafurða
Reykjavík – Blönduós – Sauðárkrókur

Katrín María Káradóttir, fagstjóri námsbrautar í fatahönnun við Listaháskóla Íslands og Steinunn Gunnsteinsdóttir sölufulltrúi Atlantic Leather, stóðu í samstarfi við alþjóðlegan hóp sérfræðinga fyrir ráðstefnu og vinnusmiðju á Íslandi um nýtingu sjávarleðurs og nýsköpun í fatahönnun. Ráðstefnan, sem fór fram 9. – 13. September 2019, var hluti af alþjóðlega samstarfsverkefninu FishSkin, en verkefnið hlaut stóran styrk frá Horizon 2020, rannsóknar- og nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins. Tilgangur Horizon 2020 er að knýja fram hagvöxt og skapa störf innan Evrópu og er sjóðurinn styrktur af stjórnvöldum og leiðtogum Evrópu og meðlimum Evrópuþingsins. Verkefnið FishSkin snýst um að þróa aðferðir til að vinna roð af fiski á umhverfisvænan og ábyrgan hátt sem mótvægi við hefðbundna leðurframleiðslu.
 
Samstarfsaðilar Listaháskólans og Atlantic Leather í verkefninu eru hönnuðir og rannsakendur frá Central Saint Martins, London College of Fashion, Þjóðminsjafninu í Danmörku(National Museet), Menningarsögusafninu í Noregi (Kulturhistorisk Museum), Shenkar háskólanum í Ísrael, Kyoto Seika háskólanum í Japan, Kornit Digital framleiðslufyrirtæki frá Ísrael, Oceanographic Research frá Ísrael og Ars Trinctoria ítölsk rannsóknar- og greiningamiðstöð fyrir leðuriðnað.
 
Þessi fjölbreytti hópur tengir saman fatahönnuði, vísindamenn, tæknifræðinga og handverksfólk víða að. Hópurinn rannsakar möguleika á nýsköpun með fiskleðri sem sjálfbæran leðurvalkost.
 
Hópurinn dvaldi á Íslandi vikuna 9. – 13. september og hófst ráðstefnan í fyrirlestrarsal hönnunar- og arkitektúrdeildar á opinni kynningu um verkefnið. Í kjölfarið heimsótti hópurinn Sjávarklasann á Granda þar sem Þór Sigfússon tók á móti þeim og kynnti starfsemi Sjávarklasans. Restina af vikunni dvaldi hópurinn í Textílmiðstöð Íslands á Blönduósi þar sem Lotta Rahme, sænskur sérfræðingur í sútun fiskroðs, hélt vinnusmiðju þar sem hún kenndi hefðbundnar aðferðir við litun og meðhöndlun sjávarleðurs. Hópurinn heimsótti einnig verksmiðju Atlantic Leather á Sauðárkróki þar sem Gunnsteinn Björnsson forstjóri verksmiðjunnar leiddi þau um aðstöðuna og sýndi þeim starfsemina sem þar fer fram. Þá voru haldnar hringborðsumræður og fundir bæði á Blönduósi og Sauðárkróki þar sem hópurinn ræddi framtíð verkefnisins og skipulagði næstu skref.  
 
Næst hittist hópurinn á Ítalíu í febrúar 2020 og þar næst í Japan í ágúst sama ár.
Það verður spennandi að fylgjast með framvindu þessa þarfa verkefnisins en nokkuð ljóst er að nýsköpun sem leiðir að umhverfisvænni framleiðslu er allra hagur.
 
Hér fyrir neðan má horfa og hlusta á fréttainnslag um verkefnið