Nú á dögunum var haldið upp á 30 ára afmæli Erasmus Menntaáætlunar Evrópusambandsins. Hátíðin fór fram í Hörpu þar sem veittar voru gæðaviðurkenningar fyrir verkefni á öllum skólastigum. Tilnefnd voru 18 verkefni en sex þeir hlutu Erasmusinn 2017. Við val á verkefnum var horft til gæða, nýsköpunar, yfirfærslumöguleika, áhrifa til skemmri og lengri tíma og verkefnastjórnunar. Listaháskólinn hlaut tvær tilnefningar, fyrir stúdenta- og starfsmannaskipti og fyrir samstarsverkefnið Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarf – nýsköpun á sviði tónlistarkennslu á háskólastigi en hið síðarnefnda hlaut Erasmusinn 2017.

Hér má sjá kynningarmyndband um verkefnið

Verkefnið hlaut styrk frá Erasmus áætluninni árið 2014 en um var að ræða 2ja ára samstarf níu evrópskra tónlistarháskóla. Styrkumsókn og verkefnastjórn var í höndum Listaháskólans. Markmið verkefnisins var að þróa námsefni fyrir tónlistarkennslu á háskólastigi og aðlaga það að hlutverki tónlistarmanna nútímans. Við mat á lokaskýrslu fékk verkefnið 90 stig af 100 mögulegum sem er sérstaklega góður árangur. Í samantekt matsmanns um verkefnið og niðurstöður þess segir m.a. að verkefnið sé nýskapandi og mikilvægt í samhengi klassískrar tónlistarmenntunar enda hafi það opnað á nýjar aðferðir í þjálfun nemenda og þróun námsumhverfis. Ennfremur hafi verkefnið skapað ný tækifæri í alþjóðlegri samvinnu nemenda.

Það voru þau Alma Ragnarsdóttir, forstöðumaður alþjóðaskrifstofu LHÍ, Tryggvi M. Baldvinsson deildarforseti tónlistardeildar og Sigurður Halldórsson, fagstjóri námsbrautarinnar Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarf sem tóku á móti viðurkenningunni á miðvikudaginn var.

Nánari upplýsingar um verkefnið og niðurstöður þess er að finna hér: http://www.musicmaster.eu/naip-bank-of-resources/