Eva Brá Barkardóttir útskrifaðist úr fatahönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2012.
 
Hún bjó í Berlín um tíma eftir útskrift og vann sjálfstætt að ýmsum verkefnum þar en fann að sig langaði í frekara nám.
 
„Ég hafði ekki skýra hugmynd um hvað ég vildi leggja fyrir mig en hafði heyrt mjög góða hluti um listkennslunámið í Listaháskólanum og ákvað að prófa að sækja um. Ég hafði satt að segja ekki hugsað mikið um að gerast kennari fyrir þetta og renndi eiginlega blint í sjóinn með umsókninni. Námið fór svo langt fram úr mínum væntingum, og ég mæli eindregið með því.“ 
 
Eva Brá útskrifaðist frá listkennsludeild árið 2015 en hún tók síðustu önnina í meistaranáminu í skiptinámi í Tékklandi, í Ústí nad Labem sem er lítill bær nálægt Prag. Þar vann hún lokaverkefni sitt með tékkneskum nemendum á aldrinum 9 -12 ára.
 
„Á meðan ég var enn úti fór ég að sækja um störf heima og var svo heppin að fá strax stöðu sem textíl- og umsjónarkennari í Kársnesskóla. Ég starfaði þar á yngsta stigi í rúm tvö ár, sem var frábær reynsla og kenndi mér ótrúlega margt,“ segir Eva Brá sem er reyndar stödd í Nepal um þessar mundir.
 
„Ég fór í smá ævintýraferð til Nepal sumarið 2016 þar sem ég bjó í klaustri og kenndi búddamunkum ensku. En það voru bara þrjár vikur sem er alls ekki nóg til að upplifa Nepal almennilega svo að ég ákvað að taka mér hlé frá kennslu til þess að skoða þetta fallega land aðeins betur.“  
 
 
Nú hefur Eva dvalið í Nepal í tæpa tvo mánuði þar sem hún bæði ferðast um og kennir einnig ensku. „Áður en ég fór út heyrði ég um Empower Nepali Girls (ENG) í útvarpsviðtali við stofnanda Íslandsdeildar samtakanna, sem var þá nokkuð ný stofnuð. Mér fannst þetta vera einskonar tákn svo að ég hafði samband við stofnandann, sem kom mér í samband við ENG í Kathmandu.“
 
Empower Nepali Girls eru samtök sem veita skólastyrki og annan stuðning til stelpna sem myndu annars ekki fá tækifæri til að mennta sig.
 
„Að fá tækifæri til að vinna með samtökum eins og ENG er virkilega gefandi. Þetta er málstaður sem hefur lengi verið mér hugleikinn en lokaverkefnið mitt í listkennslu fjallaði m.a. um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, valdeflingu og mannréttindi,“ segir Eva sem á eftir að vera í Nepal í um tvo mánuði. Að því loknu stefnir hún á að ferðast um Indónesíu í sumar og svo tekur við nýtt ævintýri næsta haust.
 
„Í september mun ég hefja eins árs diplómanám á framhaldsstigi í myndlist við Chelsea College sem er hluti af University of the Arts London. Ótrúlegt en satt er enn ekki komið neitt plan að því loknu.“
 
 
Umsóknarfrestur í listkennsludeild er til og með 11. maí ´18. Hér má lesa meira um deildina.