Kvikmyndatónskáldið Einar Sverrir Tryggvason gefur út plötuna Destinations 

Kvikmyndatónskáldið og hollnemi LHÍ, Einar Sverrir Tryggvason, gefur út plötuna Destinations þann 5.maí næstkomandi. Minningar, draumheimar, hversdagsleikinn og jafnvel himingeimurinn fléttast saman í stórfenglegri tónlist sem verður gefin út á stafrænu formi en platan verður aðgengileg á öllum helstu streymisveitum tónlistar. Einar er 33 ára gamall og hefur samið tónlist fyrir fjölmargar kvikmyndir. Hann lauk bakkalárnámi í tónsmíðum frá LHÍ árið 2011 undir handleiðslu Hróðmars I. Sigurbjörnssonar og Hilmars Arnar Hilmarssonar og síðar meistaranámi í kvikmyndatónsmíðum frá Conservatorium van Amsterdam í Hollandi undir leiðsögn Jurre Haanstra.

screenshot_2021-04-08_at_12.30.06.png
 

Einar hefur átt góðu gengi að fagna í kvikmyndatónsmíðum síðastliðin ár. Kvikmyndirnar sem Einar hefur komið að eru flestar í flokki hryllingsmynda en að eigin sögn hefur hann mikið dálæti á góðum hrollvekjum. Tónlist og hljóðhönnun gegna þar lykilhlutverki og opna enn frekari möguleika á óhefðbundinni tónlist og hljóði, ómstríðni og öðrum þáttum sem skapa magnþrungið andrúmsloft. Einar hefur samið tónlist fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþætti á borð við Flateyjargátuna (2018), Kanarí (2018), Rökkur (2017), Child Eater (2016) og The Space Beetween Us (2015) svo að fátt eitt sé nefnt. 

Destinations

destinations_einar_sverir.jpeg
 

Platan markar ákveðin tímamót í lífi Einars. Áður hefur hann gefið út þrjár plötur sem allar innihalda tónlist úr ákveðnum sjónvarpsþáttum eða kvikmyndum en Destinations hefur þá sérstöðu að vera fyrsta platan sem Einar gefur út einn síns liðs. Vinnsla plötunnar hófst fyrir rúmu ári er Einar tók að klára nokkur eldri verk og samdi einnig nýtt efni. Titill plötunnar er ekki út lausu lofti gripinn en verkin byggjast öll á minningum eða augnablikum á tilteknum stöðum sem ýmist eru raunverulegir eða ímyndaðir. Staðirnir vekja allir upp sterkar tilfinningar tónskáldsins sem reynir að fanga þær í tónsmíðum sínum. Sunnan-dvöl í snæviþöktu sumarhúsalandi, hjólaferð í úrhelli í Amsterdam og myndasafn úr himingeimum frá Nasa eru dæmi um innblástur sem Einar nýtir í tónverkum plötunnar. 

Æskuslóðir 

Einar Sverrir er alinn upp á Álftanesi. Hann á ekki langt að sækja hæfileika sína í tónlist en faðir Einars er Tryggvi M. Baldvinsson, tónskáld og forseti tónlistardeilda LHÍ. Móðir Einars er Vilborg Rósa Einarsdóttir, kennari. 
Hann hóf píanónám 6 ára gamall og ekki leið á löngu þar til að hann var farinn að semja eigin tónlist. Einar stundaði píanónám fram að menntaskólaárunum er leiðin lá í Menntaskólann í Reykjavík. Áhugi hans á tón- og lagasmíðum jókst á námsárum hans í MR þar sem hann stundaði nám á efnafræðibraut. Að loknu stúdentsprófi var stefnan tekin á tónsmíðanám í LHÍ. Einar lauk bakkalárnámi frá LHÍ árið 2011 og meistaranámi frá Conservatorium van Amsterdamárið 2015 og hefur starfað sem kvikmyndatónskáld að mestu síðan. 

Það er ýmislegt á döfinni hjá Einari en hann hefur nýlega lokið við tónlist arabískrar stuttmyndar sem kemur út innan skamms. Þá eru ýmis verkefni sem taka við en þar má nefna íslenska heimildarmynd og breksa hrollvekju sem að hann mun semja fyrir. Samhliða tónsmíðunum hefur Einar unnið við ýmiskonar ritsmíð og textagerð en hann heldur úti eigin textaþjónustu sem starfar undir heitinu Tvípunktur

Það verður spennandi að fylgjast með kvikmyndatónskáldinu Einari Sverri Tryggvasyni í framtíðinni. Við óskum honum innilega til hamingju með árangurinn og velfarnaðar í komandi verkefnum. Einar er einn af fjölmörgum hollnemum tónlistardeildar LHÍ sem eiga mikilli velgengni að fagna í sviði tónlistar bæði innanlands sem utan. 

Áhugasamir geta fylgst með Einari Sverri á ýmum miðlum en hann heldur úti vefsíðu þar sem ýmsan fróðleik um hann og verk hans má finna. Þá eru verk hans einnig aðgengileg hér á soundcloud.