Nemendur á fyrsta og öðru ári í arkitektúr við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands heimsóttu La Tourette klaustrið í Frakklandi dagana 12. – 15. nóvember 2019. Klaustrið er hannað af hinum þekkta arkitekt Le Corbusier og tónskáldinu og arkitektinum Iannis Xenakis árið 1953 og byggt í núverandi mynd árið 1961. La Tourette klaustrið er stórfengleg bygging í 25 kílómetra fjarlægð frá Lyon í suðausturhluta Frakklands. Le Corbusier hannaði líka kirkju og klaustursgarð umhverfis klaustrið. Byggingin er síðasta verkið sem Le Corbusier hannaði og var það mikil lífsreynsla fyrir nemendur að fá að dvelja í klaustrinu, rannsaka og velta byggingunni fyrir sér. Með nemendunum fóru þær Hólmfríður Ósmann Jónsdóttir og Hrefna Björg Þorsteinsdóttir prófessorar í arkitekúr og Birta Fróðadóttir sem einnig kennir arkitektúr við Listaháskólann.
 
Space and light in order. Those are the things that men need just as much as they need bread or a place to sleep – Le Corbusier
 
Markmið ferðarinnar var að skoða og upplifa, nema og skrásetja. Nemendur unnu með texta, skissur, ljósmyndir og hljóðupptökur auk þess sem hver nemandi hélt draumadagbók. Áhersla var lögð á margþætta skynjun í upplifun á rými og arkitektúr þar sem öll skilningarvitin voru virkjuð.
 
Dagskráin var þétt en nemendur byrjuðu hvern dag á að skrifa í draumadagbækur sínar. Dagbækurnar fylgdu 1. árs nemum inn í námskeiðið Draumarými, eftir að heim var komið, þar sem skrásettar eru rýmisupplifanir úr draumum. Eftir skrifin  tók við morgunbæn í kirkjunni og svo morgunmatur í matsal. Eftir morgunmat var unnið verkefni þar sem ýmist voru skoðuð hljóð, rým, form, birta og/eða litir. Klukkan 12:00 tók við hádegismessa í kirkjunni og í kjölfarið hádegismatur í matsal. Eftir hádegi unnu nemendur áfram í verkefni fram að kvöldmessu í kirkjunni og sameiginlegum kvöldmat í matsal klaustursins. Á kvöldin voru nemendur hvattir til að nota tímann til að  skrifa eða lesa í sellunni (svefnherbergjum sínum) sem þeim var úthlutað.
 
Dvölin í La Tourette var ætlað að vera upphaf ferðalags þar sem sjónum nemandans væri beint inn á við; að eigin kjarna. Verkefnin sem nemendur unnu höfðu öll það að markmiði að nemandinn nýtti dvölina til kyrrðar og íhugunar um eigin sköpun.
 
Afrakstur ferðarinnar má meðal annars sjá á sýningu nemenda sem verður opnuð mánudaginn 9. desember klukkan 17:00. Á sýningunni má einnig sjá lokaverkefni nemenda úr áfanganum Draumarými.
 
You employ stone, wood and concrete and with these materials you build houses and palaces...but suddenly you touch my heart... That’s architecture – Le Corbusier
 
Nemendur voru mjög ánægð með ferðina en tveir nemendanna lýstu fyrir starfsmanni hönnunar- og arkitektúrdeildar sinni upplifun af ferðalaginu:
 
„Það er auðvitað ekki sjálfsagt að umgangast svona byggingu í lengri tíma, að vakna bara og kveikja á því að maður er inní Le Corbusier byggingu. Sellurnar, eða svefnherbergin voru fín og ég lagði mig fram um það að vera ekki með síma eða tölvu. Við vildum ekkert endilega vera að pæla í Samherja málinu þegar við vorum þarna, heldur reyna að vera á staðnum. Við töluðum ekki mikið saman og ég var mikið einn, sem var geðveikt. Ég var að reyna að upplifa það að mér leiddist, mér hefur varla leiðst síðan ég var barn og ég náði að láta mér leiðast þarna úti sem var frábært. Svo sótti ég allar messurnar og vaknaði þannig að ég yrði tilbúinn í morgunbænina. Ég er ekki trúaður en það er gaman að hafa einhverja rútínu. Munkarnir þarna eru ekki endilega að pæla í byggingunni, tilgangurinn er frekar trúarlegur og við fengum að taka þátt í því. Ég skrifaði mikið og var byrjaður að pæla í draumum áður en ég fór út. Ég tók eftir því að þegar maður vaknar við vekjaraklukku þá hreinsast draumarnir, en þarna úti vaknaðiru bara við sólina og fólk sem dreymir ekki vanalega fór að muna draumana sína.“
 
-Snorri Freyr Vignisson, nemandi á 1. ári í arkitektúr
 
 
„Mér fannst mögnuð upplifun að vera í klaustrinu. Það var ótrúlegt að vera í þessu húsi, bæði sem arkitektanemi og bara sem manneskja. Þetta klaustur er seinasta byggingin sem Le Corbusier teiknar. Hann er náttúrulega helsti arkitekt módernismans og hálfgerð goðsögn. Fyrir mér var þetta eiginlega pílagrímsferð. Svo seinasta kvöldið fór að snjóa og það var allt hvítt þegar við vöknuðum morgunin eftir, það var svo mikil kyrrð. Þetta var eins og draumur, þokan sem sveif yfir og hvítur snjórinn í þessu umhverfi lét manni líða eins og maður væri staddur í draumi.“
                                                                                    -Katrín Heiðar, nemandi á 2. ári í arkitektúr