Ingunn Elísabet Hreinsdóttir útskrifaðist frá listkennsludeild árið 2020

 
Ingunn hlaut á dögunum verðlaun Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar fyrir lokaverkefni sitt. 
 

Dansað alla daga

 
Áður en Ingunn hóf nám í listkennsludeild þá bjó hún og stundaði nám í Stokkhólmi.
 
„Ég kláraði BA í nútímadanskennaranum frá Stockholm University of the Arts, Dans och Cirkushögskolan í Stokkhólmi í Svíþjóð 2018. Samhliða því lauk ég B.Ed. prófi í kennarafræðum með kjörsviðið tónlist, leiklist, dans frá Háskólanum á Akureyri,“ segir Ingunn sem útskrifaðist í júní 2020 úr meistaranámi í listkennslu við Listaháskóla Íslands. 
 
Tíminn í Stokkhólmi var lærdómsríkur fyrir Ingunni Elísabetu.
 
„Ég dansaði alla daga og var mikið að spá í sómatískri nálgun (e: somatic approach) þar sem lögð er áhersla á líkamann, reynslu og færni hans, og innri líkamlega skynjun. Ég hef tileinkað mér þessa nálgun í dansinum og nýtti mér hana meðal annars í lokaverkefninu mínu úr listkennsludeild.“ 
 

Vildi taka þátt í uppbyggingunni

 
Hvað varð til þess að Ingunn ákvað að fara í listkennslu í LHÍ?
 
„Listkennsla í skólum landsins skiptir sköpun og öll börn ættu að fá möguleika að upplifa listir, enda gegna þær stóru og mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Þar af leiðandi þurfum við að mennta kennara í listkennslu,“ segir hún og heldur áfram. „Við viljum skapa fjölbreytt samfélag þar sem einstaklingar hugsa lausnamiðað, hafa góða sjálfsþekkingu, nýta gagnrýna og skapandi hugsun, læra samvinnu og geta nýtt sér sjálfstæð vinnubrögð. Þetta eru allt eiginleikar sem geta nýst nemendum í gegnum lífið óháð því hvaða starfsframa þeir kjósa sér,“ segir Ingunn.
 
„Mig langaði til að taka þátt í þessari uppbyggingu, að hvetja og virkja nemendur í eigin sköpunargleði og að nemandinn fái að nýta þá þekkingu og færni sem býr innra með honum. Það þótti mér eftirsóknarvert. List er ein leið fyrir einstakling að tjá sig og öðlast skilning á umhverfi sínu, sjálfum sér og öðrum. Það er í höndum kennarans að leiðbeina og draga fram skapandi hlið barnsins. Því hafði meistaranámið mikla merkingu fyrir mig.“   
 

Myndir: Aðsendar og Carlo Cupaiolo
 

 

Hugmyndir verða að veruleika

 
Ingunn segist hafa verið alsæl í náminu í listkennsludeild. „Það var mikið af spennandi valáföngum í boði, einnig var í boði að taka þátt í ýmsum verkefnum, t.d. List fyrir alla og Barnamenningarhátíð. Það er líka mikið af áhugaverðugu fólki bæði kennurum og nemendum sem maður fékk tækifæri til að kynnast og læra hvert af öðru.
 
Það sem stóð upp úr náminu hjá Ingunni var að sjá hugmyndir sínar verða að veruleika.
 
„Þú færð aðstoð og ný verkfæri og getur því fylgt hugmyndinni eftir. Þú fékkst tíma til þess að hugsa, ígrunda, ræða um hugmyndina og sást hvernig hún lifnaði við og þróaðist áfram. Hún varð til. Það var magnað að fylgjast með og taka þátt í öllu ferlinu,“
 

Verðlaunað lokaverkefni 

 
Lokaverkefni Ingunnar  Skapandi dans – Mótun handbókar fyrir danskennara í grunnskólum hlaut verðlaun Skóla-og frístundasviðs nýverið. 
 
„Tilgangur lokaverkefnisins var að stuðla að fjölbreyttari danskennslu í grunnskólum og markmiðið að búa til verkfæri, í formi handbókar, sem kennarar geta nýtt í þeim tilgangi“ útskýrir Ingunn.
 

Myndir: Eva Árnadóttir

 

„Handbókin, Skapandi dans, er ætlað að gefa kennurum hugmyndir að skapandi starfi í gegnum dans. Hún býður nemendum tækifæri til þess að tjá og túlka skoðanir sínar, hugmyndir og tilfinningar, treysta á sjálfan sig og vinna út frá sér og sínum þörfum í gegnum sjálfstæð og skapandi vinnubrögð. Nemendur geta upplifað persónulegan vöxt og uppgötvað ýmislegt nýtt um sjálfan sig, jafnvel eitthvað sem þá hafði ekki órað fyrir.“ 
 
Handbókin er unnin út frá skapandi dansi en það er dansform þar sem áhersla er lögð á hreyfingu sem tjáningu.
 
„Þar er nemandinn í aðalhlutverki og notar færni sína og reynslu til þess að skapa. Í skapandi dansi læra nemendur fyrst og fremst í gegnum eigin líkama, þannig að tengsl þeirra við námsefnið eykst og skilningur á því eflist á áhrifaríkan hátt.“ 
 
Nánari upplýsingar um verkefnið á Skemmu og af vef LHÍ
 

Áhersla á ímyndunaraflið

 
Fljótlega eftir útskrift síðastliðið haust hélt Ingunn þriggja daga skapandi danssmiðju á Akureyri fyrir krakka á aldrinum 6 til 7 ára.
 
„Þátttakendur fengu að kynnast helstu hugtökum skapandi dans ásamt því að skapa út frá sjálfum sér. Áhersla var lögð á sköpunarferli og samþættingar annarra listgreina. Þátttakendur sköpuðu sér dýr sem fyrirfinnst ekki á jörðinni og uppgötva hátterni þess, bæði í hreyfingu og útliti. Síðan unnu þátttakendur saman að skapa heim dýranna svo rík áhersla var lögð á ímyndunaraflið og skapandi hugsun. Listasmiðjan hlaut styrk frá Listasumri. 
 
Ingunn vann einnig með Guðrúnu Óskarsdóttur, danskennara og meistaranema við listkennsludeild, við að skapa danssmiðju fyrir eldri borgara.
 
„Dansgarðurinn fékk styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til þess að skapa sex vikna danssmiðju fyrir eldri borgara. Dansgarðurinn samanstendur af Klassíska listdansskólanum, Óskandi, Forward Youth Company og Dans fyrir alla,“ segir Ingunn.
 

Dansa, kenna og halda áfram að láta drauma sína rætast

 
Eitt af markmiðum Dansgarðsins er að svara samfélagslegum þörfum á sviði dans-og danslistar og gera danskennslu aðgengilega sem flestum.
 
„Þarna fengum við tækifæri til að þróa og þjóna eldri borgurum enn frekar. Megináhersla var lögð á auka vellíðan, félagsleg samskipti, líkamsmeðvitund, styrk, þol og að þátttakendur smiðjunnar fengju tækifæri til að hreyfa sig út frá eigin færni. Ég starfa einnig sem nútímalistdanskennari í Óskandi, hef gert síðan 2019,“ segir Ingunn en hún starfar líka sem grunnskólakennari í grunnskóla Seltjarnarness, Mýrarhúsaskóla og Valhúsaskóla, og kennir þar dans.
 
 
Hvað er svo framundan hjá þessum öfluga dansara og kennara?
 
„Ég er að vinna í að gefa handbókina út. Annars bara halda áfram að dansa og kenna dans, skapa og halda áfram að láta drauma sína rætast. Einnig að takast á við ný verkefni sem lífið gefur.“