Fjórir píanónemendur við tónlistardeild LHÍ, þau Alexander Edelstein, Ásthildur Ákadóttir, Guðný Charlotta Harðardóttir og Hjalti Þór Davíðsson héldu á dögunum tónleika í Camerata-salnum í Helsinki Music Centre þar sem þau fluttu einleiksmúsík fyrir píanó úr ýmsum áttum.

Tónleikarnir voru liður í heimsókn hljóðfærabrautar til Helsinki í septemberlok en auk tónleikanna héldu Peter Maté, prófessor og fagstjóri brautarinnar og Edda Erlendsdóttir, píanóleikari og stundakennari, masterklassa fyrir nemendur Síbelíusarakademíunnar.

Crossing Keyboards

Heimsóknin var haldin undir merkjum Crossing Keyboards verkefnisins sem er samstarfsverkefni norrænna og baltneskra tónlistarháskóla en píanóbraut LHÍ hefur verið þátttakandi í verkefninu í rúmt ár. Verkefninu er ætlað að efla samstarf og faglegt tengslanet á milli landa og skóla þar sem kennarar og nemendur hafa færi á að skiptast á hugmyndum og sækja sér innblástur. 

Nemendur og kennarar frá Síbelíusar-akademíunni munu endurgjalda heimsóknina í nóvember en dagana 19. - 21. nóvember munu þau bjóða upp á tónleika og masterklassa í Reykjavík á vegum tónlistardeildar LHÍ.

Helsinki2
 
Helsinki1