Ólst upp við ilm af olíulitum 

 
„Pabbi minn er myndlistarmaður og hluti af stofunni okkar var vinnustofa pabba,“ segir Brynhildur Kristinsdóttir sem ólst upp við ilm af olíulitum. 
 
„Ég gat fylgst með honum mála þannig kynntist ég myndlistinni fyrst. Seinna stundaði ég nám á myndlistarbraut við Menntaskólann á Akureyri og skúlptúrdeild Myndlista- og handíðaskóli Íslands eftir útskrift fór ég til Ítalíu þar sem ég vann á vinnustofu myndhöggvara í litlum bæ sem heitir Pietrasanta. Ég varð snemma hugfangin af handverki og fannst mikilvægt að kunna til verka því fór ég í Iðnskólann eftir Ítalíudvölina í einn vetur og lærði þar húsgagnasmíði. Seinna lærði ég kennslufræði í Háskólanum á Akureyri.“
 
Brynhildur segist elska að kenna. „Ég hef starfað við kennslu meira og minna frá því að ég lauk MHÍ vorið 1989 auk þess sem ég hef unnið við mína eigin myndlist. Mér finnst mjög gefandi að vera kennari en það er vissulega líka krefjandi í svo mörgum skilningi. Ég er sannfærð um að list- og handverksiðkun veitir okkur aukið innsæi og visku, að ferlið sjálft kennir okkur að tengjast okkur sjálfum og umhverfi okkar.“ 
 
„Kennsla er ferli og þú þarft stöðugt að skerpa skilning þinn, auka kunnáttu þína og skoða þína eigin kennsluhætti og finna nýjar leiðir í kennslu. Mér fannst kominn tími til að taka hlé frá kennslu og auka þekkingu mína á listkennslu í víðum skilningi,“ útskýrir Brynhildur þegar hún er spurð að því hvers vegna listkennsludeild LHÍ varð fyrir valinu. 
 
Upplifun Brynhildar af náminu var afar góð þó að covid hafi auðvitað sett mark sitt á námstímann. „Samræður nemenda voru mikilvægar, það að fá tækifæri til að miðla sinni sýn og meðtaka það sem aðrir höfðu fram að færa fannst mér stór hluti af náminu. En LHÍ er hafsjór af hæfileikaríkum kennurum og nemendum með svo fjölbreytta þekkingu,“ segir Brynhildur og bætir við að hún hafi saknað þess þó að hafa ekki aðgang að vinnurými í skólanum þar sem hægt hefði verið að gera tilraunir með efni og aðferðir. 
 
 
img_1849.jpg
 
Lokaverkefni Brynhildar ber heitið „Að vaxa í gegnum skapandi ferli“ en hún útskrifaðist frá listkennsludeild í janúar 2022. „Í verkefninu beini ég sjónum mínum að sköpunarferlinu og samþættingu námsgreina með það að markmiði að búa til námsverkefni í myndlist með framangreint að leiðarljósi. Í rannsókninni eru kynntar skapandi námsleiðir þar sem nemendur fá tækifæri til að taka virkan þátt í undirbúningi og mótun viðfangsefna hverju sinni.“ 
 
Markmið Brynhildar var að rannsaka sköpunarferlið; hvernig skapandi nám og samþætting námsgreina getur glætt áhuga nemenda á umhverfinu og stuðlað að auknum sjálfsskilningi og vexti. „Ég trúi því að athöfnin í sjálfri sér, ferlið við að skapa hjálpi okkur að kjarna okkur og sýna heiminum hver við erum. Hvort sem það er skrifaður texti, mynd sem þú málar, húfa sem þú prjónar eða leikfang sem þú smíðar þá lærir þú eitthvað um sjálfan þig og hvernig þú getur notað sköpunarkraft þinn og hæfileika til að miðla til annara og hvetja. Sköpunarferlið er gefandi í sjálfu sér en það getur vissulega líka verið sársaukafullt og viðkvæmt ferli.·“
 
Námsverkefnin sem fylgja með ritgerðinni og miða að því að vera valdeflandi og hvetja nemendur til að taka þátt í skapandi námsleiðum má finna á námsverkefni.is. 
 
Brynhildur kennir myndlist í Brekkuskóla á Akureyri þar sem hún leggur áherslu á samþættingu námsgreina. „Ég hef mikinn áhuga á að samþætta myndlistina við umhverfismennt og heimspeki auk þess sem ég hef verið að prófa nýja miðla í kennslu og námi, “ segir Brynhildur sem er með vinnustofu í Listagilinu á Akureyri og er að undirbúa sýningu í Kaktus. Auk þess kennir hún einnig í Brekkuskóla og Fjölmennt. 
 
„Ég er stolt af því að vera kennari og mér finnst kennslan næra myndlistarmanninn og myndlistarmaðurinn gefur af sér í kennsluna. Þetta er mjög gott hvort með öðru. Þegar við erum raunverulega til staðar verðum við náttúrulega forvitin og fær um að gefa svör við spurningum út frá okkar eigin sannfæringu. þegar við bregðumst við lífinu með nærveru og núvitund, byrjum við að líta á heiminn öðrum augum. Meðvituð, gefandi  nærvera og einlæg leiðsögn byggð á ígrundun og þekkingu er það dýrmætasta sem kennari getur gefið nemanda sínum.“
 
Brynhildi finnst mikilvægt að nemendur læri að tjá sig með aðferðum lista. „Það er mikil áskorun að takast á við óbærilegan sársauka, að geta tekist á við hann með listsköpun er ákjósanlegur kostur. Þú opinberar tilfinningar þínar en um leið opnar þú á samræður sem gagnast ekki bara þér heldur einnig þeim er sjá og upplifa verkin þín.“
 
hjalteyri.jpg