BRYNDÍS SNÆBJÖRNSDÓTTIR FÆR VEGLEGAN RANNSÓKNARSTYRK
FYRIR VERKEFNIÐ ÍSBIRNIR Á VILLIGÖTUM

Dr. Bryndís Snæbjörnsdóttir, myndlistarmaður, prófessor og fagstjóri meistaranámsbrautar í myndlist, og samstarfsmaður hennar, dr. Mark Wilson, myndlistarmaður og prófessor við Háskólann í Cumbria í Englandi, fengu nýlega úthlutað rúmlega 42 millj. króna styrk til þriggja ára úr Rannsóknarsjóði Íslands fyrir rannsóknarverkefni sitt Ísbirnir á villigötum.
 
Markmið verkefnisins er að auka þekkingu á fjölþættum tengslum dýra, manna og umhverfis á tímum heimsvæddrar loftslagshlýnunar og hækkandi sjávarmáls. Skoðaðar verða m.a. komur ísbjarna til landsins útfrá þeim stöðum sem þeir numu land og þeim frásögnum og gögnum sem finna má í tengslum við heimsóknir þeirra. Aðspurð um megin ásetning verkefnisins segir Bryndís hann felast í að því að draga athygli að spurningum um eignarhald í umhverfispólitísku samhengi.
 
"Með því að setja dýrið í forgrunn og beina ljósi að hinu margbreytilega hlutverki þess í veröldinni; sem lífveru, sambýlisveru, gesti, umhverfisvísi, afsteypu og skrautmun verður reynt að afbyggja annarleika þess í mannheimum“. Hún segir mikla hvatningu felast í því fyrir rannsóknir á sviði samtímamyndlistar og uppbyggingu rannsóknarstarfs innan Listaháskólans að hljóta viðurkenningu og stuðning sem þennan.
 
 
Áhersla verður lögð á að rannsaka ferðir ísbjarna frá Norður- og Norðvestur-hluta Íslands í samhengi sögu og samtímans. Um er að ræða listrannsókn sem unnin er út frá forsendum myndlistar. Aðferðafræðin felur í sér sértæka nálgun við þær heimildir sem aflað er; greiningu á mörkum og tengslum milli menningarlegs og náttúru, - og félagsfræðilegs samhengis, auk samverkandi áhrifa loftslagsbreytinga á umhverfisrof og fólksflutninga. Í rannsókninni verður safnað saman og unnið með texta, myndir, hljóð, lífsýni og önnur efni sem tengjast ferðum ísbjarna til landsins, ásamt því að draga fram, túlka og miðla þeirri undirliggjandi merkingu sem hið sjónræna og ritaða efni felur í sér. Verkefnið er unnið í fjölþættu samstarfi við vísinda-, mennta-, og menningarstofnanir hér á landi og í Bandaríkjunum sem gerir það að verkum að rannsóknin mun veita samanburðarniðurstöður sem skírskota til víðara menningarsamhengis og leiða m.a. til myndlistarsýninga, alþjóðlegrar ráðstefnu ásamt útgáfu bókar um verkefnið í heild. Samstarfsaðilar verkefnisins eru tvær námsleiðir við Háskóla Íslands, í listfræði og í þjóðfræði, auk Rannsóknarsetursins á Ströndum, Listasafnið á Akureyri og Anchorage Museum í Alaska.
 
Alls bárust 198 umsóknir um verkefnastyrki til Rannsóknarsjóðs og var þrjátíu og einn styrkur veittur að þessu sinni, eða um 16% umsókna. Verkefnið verður hýst hjá Listaháskóla Íslands. Er þetta í annað sinn sem verkefni á fræðasviði lista hlýtur styrk úr Rannsóknarsjóði en á síðasta ári hlaut verkefni Guðmundar Odds Magnússonar, Sjónarfur í samhengi, styrk til tveggja ára.