Björn Leó Brynjarsson hefur verið valinn nýtt leikskáld Borgarleikhússins fyrir leikárið 2017 til 2018. Björn Leó lauk B.A. gráðu í Fræðum og framkvæmd úr leiklistardeild Listaháskóla Íslands árið 2011 sem nú er sviðshöfundabraut við í sviðslistadeild. Hann hefur m.a. starfað sem texta- og hugmyndasmiður og skrifað pistla fyrir útvarp. Björn Leó er stofnmeðlimur „action-leikhús-hópsins“ Cobra Kai, skrifað og leikstýrt m.a. verkinu Tranturinn og hnefinn auk þess að vera meðhöfundur og aðstoðarleikstjóri verksins Petra í uppsetningu Dansaðu fyrir mig sem sýnt var á Lókal 2014 og leiklistarhátíðinni í Tampere 2015. Hann skrifaði og leikstýrði verkinu Frami árið 2015 sem sýnt var í Tjarnarbíó og vakti mikla athygli áhorfenda og gagnrýnenda.

 

Hjartanlega til hamingju með heiðurinn. Hvaða þýðingu hefur það fyrir þig að fá þetta tækifæri, og í hverju felast tækifærin?

Ég er fyrst og fremst gríðarlega þakklátur að fá þessa viðurkenningu og það er mjög spennandi að fá svona gott tækifæri. Það sem er frábært við þetta er að nú fær maður tíma og aðstöðu til að sinna skrifum að fullum krafti. Hingað til hef ég getað skrifað þegar tækifærin og tíminn gefast en nú er hægt að demba sér í þetta án þess að hafa áhyggjur af öðru. Þetta er virkilega gott framtak hjá Borgarleikhúsinu að styðja svona við bakið á þeim sem sinna leikritun hérlendis.

 

Hver eru helstu hugðarefni þín, eru einhver sérstök efnistök sem kveikja meira í þér en annað?

Það sem kveikir helst í mér þessa dagana er svona að reyna að horfa á mannskepnuna og heiminn útfrá sjónarhorni þar sem eitthvað er að, eitthvað er bilað. Við lifum í veruleika sem gengur einhvern veginn upp og fólk virðist geta átt í einhverjum samskiptum en það þarf bara rétt svo að gægjast undir yfirborðið og þá kemur í ljós að við erum öll fullkomlega snarbiluð. Raunveruleikinn er stundum fáránlegri heldur en grillaðasti skáldskapur sem þú finnur. Það er bara ekki sagan sem við segjum hvort öðru, það er ekki narratívan sem við veljum. Við viljum að það sé allt í lagi þó það kannski sé það ekki. Hins vegar eru það einnig þessar narratívur sem mér finnst svo áhugaverðar. Við erum umvafin frásögnum og texta frá því að við vöknum og þar til við förum að sofa. Hver einasti smáhlutur í umhverfi okkar einhvern veginn tengdur inn í eitthvað táknkerfi og segir sögu. Kannski er þetta afleiða af því að búa í frjálshyggjusamfélagi þar sem allt er markaðssett og með sitt "branding".  Mér finnst einnig einstaklega spennandi þegar hinum ýmsu geirum (e. genre) er blandað saman. Ég er nýbúinn að horfa á Last Action Hero Með Arnold Schwarzenegger tvisvar og er eiginlega ennþá í smá sjokki yfir því hvað hún er góð. Æsingur, hasar, átök, geðveila og almenn undarlegheitin sem finnast í hversdagsleikanum eiga hug minn allan þessa dagana. Verkið sem ég er að skrifa gengur svolítið út á þetta. Þar eru persónur sem ströggla við að segja sína sögu, sýna sjálfa sig og aðra í ákveðnu ljósi en enda einhvern veginn týndar og skilningslausar. Við erum kjötsekkir sem halda að þeir viti eitthvað.

 

Hvernig sérðu fyrir þér vinnuferlið, ertu með einhverjar væntingar til þess?

Vinnuferlið á svolítið eftir að koma í ljós þar sem ég hef hingað til unnið í miklum skorpum. Ég hef ekki prófað að vinna stanslaust í ár að skrifum en mér finnst það bara virkilega spennandi. Ég trúi mikið á vinnuferlið og að maður sé að leita þegar maður skrifar. Það eru bara Nóbelsskáld sem geta sest niður og sagt „nú ætla ég að skrifa þetta“ og svo skrifað út hugmyndina sem þau höfðu í kollinum. Maður er einhvern veginn að fiska eftir einhverju og síðan dettur maður á eitthvað sem er gott og þá nýtir maður það. Listamenn eiga ekki hugmyndir sínar, hugmyndirnar koma til listamanna. Þær eiga þá. Maður er eins og útvarp og starf listamannsins felst í því að kveikja á útvarpinu.

 

Áttu heilræði til ungra sviðshöfunda?

Mér finnst ég ennþá vera rétt svo byrjarður að snerta á þessari skepnu sem skrif eru og bý kannski ekki yfir mikilil tækni sem ég get sagt frá. En eins og ég sagði þá trúi ég á ferlið og slembulukku (e. serendipity). Eins og gæinn sem var að reyna að búa til magamixtúru og fann óvart upp Coca Cola.

 

Leikritunarsjóður Leikfélags Reykjavíkur undir forystu Vigdísar Finnbogadóttur velur leikskáldið, en ásamt henni í nefndinni eru Brynjólfur Bjarnason og Kristín Eysteinsdóttir. Meðal fyrri leikskálda hússins hafa verið m.a. Tyrfingur Tyrfingsson sem líkt og Björn Leó er útskrifaður frá Listaháskólanum, Salka Guðmundsdóttir, Auður Jónsdóttir, Jón Gnarr og Kristín Marja Baldursdóttir