Bjarki Bragason lektor og fagstjóri bakkalárnáms við myndlistardeild tekur nú þátt í European Geosciences Union (EGU) ráðstefnunni í Vínarborg ásamt myndlistarmanninum Önnu Líndal.

Bjarki mun fjalla um verk sín Perhaps That In Which It og Ten Thousand And One Years, sem fjalla um árekstur hins mennska og jarðfræðilega tímaskala. Erindi Bjarka og Önnu, Infinite Next, vísar einnig til rannsóknarverkefnis þeirra þar sem þau tóku þátt í mælingum á Grænlandsjökli, en það verkefni tók síðar form sýningar í Nýlistasafninu. Verkin sem Bjarki fjallar um voru nýlega til umfjöllunar í nýrri bók um myndlist á vegum MIT Press; Weather as Medium, þar sem Janine Randerson rannsakaði myndlist Bjarka út frá hugmyndum um veður sem efnivið.

EGU er stærsta jarðvísindaráðstefna í heimi og taka þar þátt 15,000 vísindamenn á öllum sviðum jarðvísinda. Bjarki mun flytja erindi á þverfaglegri málstofu sem ber titilinn Anthropocene (Mannöldin) sem vísar til þess að frá iðnbyltingu sé maðurinn orðinn að jarðfræðilegu afli.