Bjarki Bragason hefur verið ráðinn nýr forseti myndlistardeildar Listaháskólans. 
 
Bjarki lauk BA-gráðu í myndlist frá LHÍ árið 2006, árið áður stundaði hann nám við UdK-Berlin og hlaut MFA-gráðu í myndlist frá California Institute of the Arts, CalArts í Los Angeles árið 2010. Hann hefur verið mjög atkvæðamikill á öllum sviðum myndlistarumhverfisins: í sýningahaldi, þar sem hann hefur haldið um tug einkasýninga og á fjórða tug samsýninga hérlendis og erlendis en jafnframt starfað við kennslu, listrannsóknir, stjórnun og trúnaðarstörf.  
 
Bjarki hefur góða og yfirgripsmikla þekkingu á háskólastarfi en hann hóf kennslu við LHÍ árið 2007 sem stundakennari og hefur kennt fjölda námskeiða þvert á skólann síðan. Hann var fastráðinn í stöðu háskólakennara og fagstjóra við myndlistardeild LHÍ árið 2016, leysti af sem fagstjóri meistaranáms í myndlist 2020-2021 og hefur leyst af í starfi deildarforseta frá því í ágúst 2021. Auk þessa kenndi Bjarki við Myndlistarskólann í Reykjavík um árabil þar sem hann starfaði einnig sem verkefnastjóri við stofnun Sjónlistadeildar og var um tíma stjórnarformaður skólans. Þá hefur Bjarki einnig kennt og haldið fyrirlestra við háskóla víða erlendis. 
 
Í verkum sínum og rannsóknum fjallar Bjarki gjarnan um tímann, hvernig árekstur jarðsögulegs- og mennsks tími birtist í byggingum, stöðum og náttúrulegum fyrirbærum. 
 
Bjarka eru færðar hamingju- og heillaóskir með nýtt hlutverk innan LHÍ.