Bjarki Bragason lektor og fagstjóri við myndlistardeild á verk á sýningunni Gjöfin frá Amy Engilberts sem opnar í Listasafni íslands föstudaginn 8. mars kl. 20:00. Á sýningunni eru verk sem Listasafn Íslands hefur eignast á undanförnum árum að tilstuðlan erfðagjafar Amy Engilberts.

Á sýningunni gefur að líta tvö verk eftir Bjarka, A Brief Translation of the Beginning frá árinu 2008 þar sem efnahagshrunið birtist í formi þýðingar á fréttatíma, og niðurbrot upplýsinga um stórar breytingar á sér stað.

Á sýningunni er einnig  verkið Á milli B og C (Letters Between B and C) en það er verkefni þar sem samtal um tvö ólík söfn kemur fyrir. Söfnin innihalda plöntusýni frá sitthvorum tíma og stað, en titillinn vísar í bréfaskriftir sem voru grunnur þess að annað safnið varð að veruleika. Um sumarið 2009 í janúar 2010 tók Bjarki sýni af öllum plöntum og trjám í garði sem tilheyrði látnum ættingja, en framtíð garðsins var óákveðin. Söfnunin hafði í fyrstu engan áþreifanlegan tilgang, var heldur framkvæmd sem leið til þess að velta fyrir sér ferli söfnunar og minnis. Sumarplönturnar voru þurrkaðar og frágengnar eftir hefðbundnum leiðum, en vetrarsýnin geymd í kössum, þar sem þau voru óreiðukenndari, en verkfæri til þeirrar sýnatöku gleymdust. Hitt safnið myndaðist frá haustinu 2010 fram til vorsins 2011, í gegnum bréfasamskipti Bjarka við plöntufræðinginn Clyde, sem starfar við arkíf plöntusafns á Hawaii. Safnið samanstendur af brotnum leifum af plöntusýnum frá ýmsum tímabilum, en plönturnar eiga það sameiginlegt að vera útdauðar eða í útrýmingarhættu. Clyde hafði að ósk Bjarki farið í gegnum ómælt magn sýna, og hrist þau lauslega og safnað, með leyfi stjórnar safnsins, brotunum sem af féllu og sent honum í bréfapósti.

Á milli B og C er upphafið af tíu ára ferli Bjarka sem nýlega leiddi af sér einkasýninguna Þrjúþúsund og níu ár í Nýlistasafninu.

Nánari upplýsingar | Facebook viðburður