Bjarki Bragason, lektor og fagstjóri í myndlistardeild, er um þessar mundir ásamt Önnu Líndal gestalistamaður Sagehen Creek Field Station rannsóknarstöðvar University of California, Berkeley, í Sierra Nevada fjöllum norður Kaliforníu. Skógurinn í kring um Sagehen Creek er hluti af náttúruverndarsvæðum í umsjón University of California, í honum eru stundaðar fjölmargar rannsóknir á trjám og vistkerfum, m.a. samskiptum á milli trjáa og áhrifum loftslagsbreytinga á vistkerfi.

Við rannsóknarstöðina starfa vísindamenn úr fjölmörgum greinum náttúruvísindanna, en Nevada Museum of Art, Center for Art and Environment, er í samstarfi við UC Berkeley um aðkomu myndlistarmanna að starfi rannsóknarstöðvarinnar. Á undanförnum árum hafa fjölmargir myndlistarmenn starfað við Sagehen Creek Field Station, helst má þar nefna Newton og Helen Mayer Harrison.

Í dvölinni vinnur Bjarki að rannsóknum á fornum trjám í Sagehen skóginum. Skógurinn var hogginn niður í heild sinni í gullgrafara æðinu í Kaliforníu á 19. öld, en trjábolir sem skildir voru eftir geyma upplýsingar um loftslag og skógarelda aldir aftur í tímann. Í verkum sínum skoðar Bjarki m.a. loftslagsbreytingar út frá menningar- og sögulegum ástæðum og speglar hann oft persónulega frásögn í samhengi hnattrænna breytinga. Nýleg sýning hans í Nýlistasafninu skoðaði garð ömmu hans og afa, sem verður senn rifinn, og 3000 ára birkitré sem kom undan Vatnajökli sl. sumar vegna bráðnunar jökulsins. Um þessar mundir vinnur Bjarki að sýningarverkefni með Listasafni ASÍ, og mun hann vinna áfram með hugmyndir um lifandi kerfi sem vísbendingar um tímann.

Samstarf vísindamanna og myndlistarmanna við Sagehen Creek rannsóknarstöðina opnar leiðir til þess að víkka samtalið um náttúruna og þær krefjandi spurningar sem blasa við hvarvetna á tímum mannaldarinnar.

https://sagehen.ucnrs.org