BERSKJÖLDUÐ á Listasafni Reykjanesbæjar
Sýning meistaranema í sýningargerð við Listaháskóla Íslands

Sýningin Berskjölduð opnaði þann 28.mars í Listasafni Reykjanesbæjar. Um er að ræða samsýning ellefu listamanna sem fanga áskoranir og viðfangsefni í lífinu á ólíkan hátt.  Meistaranemar í sýningagerð við Listaháskóla Íslands standa að baki sýningarinnar en nemendahópurinn er fyrsti árgangur nýrrar námsleiðar sem myndlistardeild LHÍ býður upp á. Nemendurnir eru þau Vala Pálsdóttir, Emilie Dalum, Björk Hrafnsdóttir, Ari Alexander Ergis Magnússon og Amanda Poorvu.

Nemendur fengu frjálsar hendur í efnistökum sýningarinnar og leituðu fanga m.a. í viðfangsefni námsins. Þau nota eigin sjálfsímynd og reynsluheim sem efnivið og úr því verða til opinská og djörf verk. Sum verkanna sýna úthald og seiglu á meðan önnur fagna mannslíkamanum með húmor og næmni. Á sýningunni er meðal annars að finna verk þar sem rússneski listamaðurinn Maria Sideleva beitir aðferðum lýðvistunar til að safna saman sjálfsmyndum kvenna sem eru af fyrstu og annarri kynslóð innflytjenda í Bandaríkjunum. Innblástur Maria byggir á eigin reynslu sem innflytjandi og eru verkin sett fram í þeim ásetningi að draga fram birtingarmynd mannslíkamans í fjölmiðlum og auglýsingum. Þá fengu nemendur tækifæri til að skoða gjörningararkíf Nýlistasafnsins og fengu þar að láni verk, m.a. eftir Berglindi Ágústsdóttur; dansgjörning frá árinu 2008 með sterka samsvörun við notkun samfélagsmiðla nútímans. Á sýningunni má einnig sjá upptöku frá síðasta gjörningi Rósku í Nýlistasafninu árið 1996. 

Hér má sjá myndasafn frá sýningunni. Myndirnar tók Vigfús Bjarnason.

Berskjölduð

Sýningarstjóra og nemendur í meistaranámi í sýningagerð við Listaháskóla Ísland

Vala Pálsdóttir lauk meistaragráðu í markaðsviðskiptum frá Emerson College í Boston og nam jafnframt listfræði við Háskóla Íslands. Áhugi Völu í sýningargerð snýr að því brjóta upp sýningaformið og vinna að heildrænni nálgun í miðlun og mótun myndlistar. 

Emilie Dalum á að baki háskólanám í þjóðfræði og ljósmyndun og er starfandi listamaður og sýningarstjóri í Reykjavík. Í sýningagerð sinni hefur hún undanfarið rannsakað þætti trausts og nándar, sem og hin síbreytilegu hlutverk hennar sem sýningarstjóri annars vegar, og listamaður hins vegar.  

Björk Hrafnsdóttir er með BA gráðu í Listfræði frá Háskóla Íslands og Sorbonne IV í Frakklandi. Í meistaranáminu hefur Björk lagt sig við að rannsaka áhrif persónulegrar reynslu listamanna á verk þeirra, feminísk fræði og sýningar-aktivisma.  

Ari Alexander Ergis Magnússon útskrifaðist með BFA gráðu frá myndlistardeild Parsons School of Design listaháskólanum í París, Frakklandi. Ari er myndlistarmaður, kvikmyndaleikstjóri, handritshöfundur og ský í buxum. 

Amanda Poorvu lauk BA gráðu í myndlist frá Oberlin College í Ohio, Bandaríkjunum. Áhersla Amöndu er á gerð sýninga um nútíma- og samtímalist sem vekja spurningar og umræður innan tíðaranda samtímans.  

Eftifarandi listamenn taka þátt í sýningunni Berskjölduð 

Ásdís Sif Gunnarsdóttir 
Berglind Ágústsdóttir
Dýrfinna Benita
Egill Sæbjörnsson
Freyja Reynisdóttir
Hildur Ása Henrýsdóttir
Maria Sideleva
Melanie Ubaldo
Michael Richardt
Róska
Sara Björnsdóttir

Sýningin stendur enn yfir en frekari upplýsingar veitir Hanna Styrmisdóttir, prófessor í sýningagerð við Listaháskóla Íslands í síma 845 9151.

Meistaranám í sýningargerð við LHÍ

Sýningargerð er tveggja ára nám og hóf göngu sína á síðastliðnu ári. Þá er litið á sýningagerð sem sjálfstæða listgrein á vettvangi myndlistar sem einskorðast ekki við hana, heldur er leið til að stofna til samtals við fræðasvið lista almennt. Umsóknarfrestur í námið er til 26.apríl 2021. Hanna Styrmisdóttir er prófessor og fagstjóri meistaranáms í sýningargerð við LHÍ. 
Nánari upplýsingar má finna hér á vef skólans.