Listkennslunemar taka þátt í Barnamenningarhátíð. 

 

Barnamenningarhátíð 2017 fer fram í Reykjavík 25. - 30. apríl og samkvæmt venju taka nemendur í listkennsludeild LHÍ virkan þátt í hátíðinni. 
 
 
Nemendur í kennslufræði leiklistar verða með leiklistarsmiðjur fyrir nemendur í Dalskóla við Úlfarsbraut í Reykjavík 27. og 28. Apríl. Nemendur 6. bekk í Dalskóla fá kynningu á leiklist í óhefðbundnu leikrými og taka þátt í að setja upp örverk sem þeir skapa sjálfir.
 
Nemendur í kennslufræði tónlistar taka þátt í tónlistarviðburðum Eniga Meniga og Upptakti sem fara fram í Hörpu 25. apríl. 
 
FRIÐUR: FLUGAN SEM STÖÐVAÐI STRÍÐIÐ
Miðvikudaginn 26. apríl standa nemendur í kennslufræði sjónlista fyrir 2ja klukkustunda námskeiði fyrir börn í 2. og 3. bekk Waldorfsskólans Sólstafa í Norræna húsinu. 
 
Bekkurinn er alþjóðlegur og í honum eru 5 strákar og 9 stelpur. Flest börnin eiga annað eða bæði foreldrin sem eru erlend og er því mismunandi bakgrunnur við hvert og eitt sem og menningarmunur. Verkefnið er unnið með bókina “Flugan sem stöðvaði stríðið” eftir Bryndísi Björgvinsdóttur til hliðsjónar.
 
28. - 30. apríl 15 - 17, Norræna húsið.
 
Norræna húsið, í samvinnu við listkennsludeild Listaháskóla Íslands, býður upp á skapandi samverustund fyrir fjölskyldur undir handleiðslu Guðbrands Magnússonar myndlistarmanns og nemanda við listkennsludeild.
 
Í vinnusmiðjunni gefst þátttakendum tækifæri að vinna myndskreytingar í tengslum við mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
 
Vinnusmiðjan er opin öllum áhugasömum og fer fram kl 15-17 á neðri hæð Norrænahúsins.
 
25. - 30. apríl 8.30 – 16.30, Grasagarðurinn í Reykjavík.
 
Hvað leynist í náttúrunni sem við höfum aldrei séð eða heyrt?
 
Rúmlega sjötíu nemendur í 5. bekk Laugarnesskóla standa fyrir sýningu á listrænum afrakstri spennandi þriggja daga rannsóknasmiðju í samvinnu við listkennslunema Listaháskóla Íslands og Grasagarð Reykjavíkur.
Markmið smiðjunnar og sýningarinnar er að vekja athygli á þeim áhrifum sem einstaklingurinn hefur á sitt nánasta umhverfi og náttúruna, í dag og í framtíðinni.
 
Í vinnusmiðjunni er lögð áhersla á fagurfræðilegar upplifanir þátttakendameð áherslu á skynjun eða upplifun þeirra á umhverfinu. Í vinnunni er einnig lögð áhersla á að þátttakendur smiðjunnar vinni út frá skynfærunum. Smiðjan byggir á virku samspili þátttakenda við umhverfi Grasagarðsins og umræðum um hvernig við byggjum sanngjarnt samfélag sem stuðlar að sjálfbærni
 
25. – 30. apríl 10-17, Þjóðminjasafnið
 
Börnin sem teiknuðu myndirnar á sýningunni hafa flúið ásamt fjölskyldum sínum erfiðar aðstæður og stríð í heimalandi sínu og sækjast eftir alþjóðlegri vernd á Íslandi.
 
Sýningin byggir á listasmiðju sem myndlistarkonan Ásdís Kalman stýrði í samstarfi við Rauða krossinn á Íslandi og Þjóðminjasafn Íslands. Sýningin er einnig hluti af meistaraverkefni Ásdísar. 
 
Markmiðið með smiðjunni var þríþætt: - Að virkja og hvetja unga hælisleitendur til að tjá sig myndrænt, án orða, en flest barnanna tala önnur tungumál en íslensku eða ensku. - Að bjóða þeim að taka þátt í Barnamenningarhátíð, með því að setja upp þessa sýningu. - Að gera börnin sýnilegri í nærsamfélaginu. Vonast er til að gestir fái örlitla innsýn í hagi barnanna og áhuga á að vita meira um málefni barna á flótta.