Skólasetning Listaháskóla Íslands fór fram Í Laugarnesi í dag 20. ágúst. Nýnemar eru í ár um 170 og þar að auki eru 40 skiptinemar að hefja nám við skólann. 

Hér fyrir neðan má lesa ávarp rektors á skólasetningu. 

 

Kæru nýnemar, aðrir nemendur og ágæta samstarfsfólk,

I

Það er venju fremur ánægjulegt að ávarpa ykkur öll hér í Laugarnesi, þar sem þetta hús er nú orðið að starfsstöð þriggja deilda. Í ávarpi við skólasetningu fyrir ári síðan sagði ég frá öllum þeim óvissuþáttum sem við vorum þá að glíma við vegna ástandsins í starfsstöð okkar við Sölvhólsgötu - en þeir voru fjölmargir og flóknir.

Í miðju þeirrar orrahríðar sem við stóðum í gagnvart ríkisvaldinu á þeim tíma og var loks farin að skila árangri er leið á haustið, féll ríkisstjórnin sem hægði mjög á því lausnamiðaða samtali sem var rétt að hefjast. Óvæntar kosningar, ríkisstjórnarmyndun og sá tími sem tekur ráðuneyti og stjórnmálamenn að ná utan um sína málaflokka varð að lokum til þess að við vorum án nokkurra haldbærra trygginga um úrlausnir langt fram á þetta ár.

Það er því nánast eins og kraftaverk að við skulum vera farin að sjá fyrir endann á uppbyggingu nýrrar starfsstöðvar fyrir sviðslistadeildina hér undir sama þaki og listkennsludeildin og myndlistardeildin voru fyrir.

Og þið höggvið væntanlega eftir því einhver ykkar að ég segi "sjá fyrir endann á"... Staðan er nefnilega sú að þrátt fyrir að hér hafi verið framin kraftaverk í uppbyggingu á ótrúlega stuttum tíma, þá er ekki allt fullkomlega tilbúið eins og þið hafið líklega orðið áskynja í kynningum innan ykkar deilda hér í Lauganesi í morgun. Við erum hér sem sagt á umbreytingatímum og það reynir á samstöðu okkar, sveigjanleika og félagslegan styrk að koma öllu hér í fulla notkun.

 

II

Mig langar til að dvelja aðeins við hugmyndina um félagsanda og - menningu hér innan Listaháskólans. Þegar tónlistardeildin flutti úr Sölvhólsgötunni fyrir einu ári síðan, raskaðist fyrirkomulag sem hafði verið lengi við lýði. Þótt brýnn húsnæðisvandi tónlistardeildarinnar væri leystur með flutningum yfir í Skipholt, þá losnuðu ekki einungis jákvæðir kraftar úr læðingi við flutningana heldur sköpuðust einnig erfiðleikar. Flutningarnir höfðu sem sagt áhrif langt út fyrir það sem lýtur að húsnæði og þeirri einu deild sem verið var að flytja. Þeir höfðu mikil áhrif á sviðslistadeildina sem eftir sat, en einnig á stofnunina sem heild.

Félagsandi - menning á vinnustað - felst nefnilega ekki einvörðungu í umgjörðinni utan um starfsemina heldur einnig í því hvernig við háttum lífi okkar og störfum innan slíkrar umgjarðar. Hvernig við hugsum og upplifum okkur, mætum öðrum, tökum tillit, fáum hugljómun, deilum og miðlum.

Lærdómur okkar af því að tæma starfsstöðina í Sölvhólsgötunni er sá að allar þessar hrókeringar eru einungis fyrstu skrefin í því langa umbreytingarferli sem að lokum mun vonandi færa okkur öll undir eitt þak í bættum aðstæðum og viðunandi húsnæði fyrir alla okkar starfsemi. Hversu langan tíma umbreytingaferlið allt mun taka veit ég ekki. Ég veit bara að því lýkur ekki fyrr en við höfum náð fótfestu og aðlagast í einni sameiginlegri starfstöð fyrir allan Listaháskólann; þar sem þekking okkar, vilji og vonir geta blómstrað sem aldrei fyrr í þverfaglegum skóla og í takti við kröfur samtímans hverju sinni.

Í þessu ferli skulum við hafa í huga að fastheldni á það sem fyrir er, vanans vegna, rétt eins skortur á vilja til að takast á við breyttan veruleika, er til marks um skammsýni og afturhald. Þarfagreiningin sem við unnum á síðasta ári fyrir nýja byggingu, sýndi svo ekki verður um villst að á næstu árum þurfum við að endurskoða afstöðu okkar til alls þess sem hér er kennt, numið og rannsakað. Við þurfum að spyrja okkur af hverju við gerum hlutina svona en ekki hinsegin, skoða hvort við getum deilt meira, eða lært af öðrum, hvort gæðin liggi í breyttum vinnuaðferðum, annarsskonar rýmisþörf, eða breyttum hugmyndafræðilegum áherslum.  

Sú vegferð sem við eigum framundan verður því einungis unnin á farsælan hátt með opnum huga. Með því að fagna hinu óþekkta; takast á við samtalið, núninginn og ögranirnar sem umgjörð í umbreytingarferli hefur óhjákvæmilega í för með sér. Við skulum ganga inn hversdaginn með því skapandi hugarfari sem við setjum í öndvegi í sjálfri listsköpuninni - í megininntaki háskólakennslu Listaháskólans.

 

III

Ég vildi að ég gæti sagt ykkur hvenær við komumst á áfangastað í því ferðalagi sem ég var að lýsa, en því miður hef ég ekki slík svör. Við bíðum fjárlaga næsta árs til að sjá hvort framhald verður á fjárveitingum til uppbyggingar framtíðarhúsnæðis. Jafnframt bíðum við nýrrar uppfærslu á fjármálaáætlun ríkisins til næstu fimm ára til að sjá hvort yfirleitt er gert ráð fyrir því að slíkri uppbyggingu verði lokið á viðunandi tíma; áður en samningar okkar um leiguhúsnæði sem við nýtum nú renna út - svo dæmi sé nefnt.

Þangað til þau svör berast, nýtum við krafta okkar til að takast á við hugmyndafræðilega þróun er svarar kalli tímans við nám, kennslu og rannsóknir - höldum áfram að gera okkur gildandi í fræðasamfélaginu hér heima og erlendis.

IV

Og þá loks að meginmáli þessa dags; eftirvæntingunni sem fylgir því að hefja nýtt skólaár, hvor heldur sem maður kemur ókunnugur til leiks sem nýnemi, er í miðri á eða jafnvel farinn að sjá til lands í þeirri glímu sem listnám er.

Hingað eruð þið komin til að kljást við það allra pólitískasta í heimsmyndinni; mannlega tilvist og afstöðu einstaklinga og samfélags til hennar. Ykkur er ekkert óviðkomandi. Ekkert er þess eðlis að þið getið ekki rannsakað það og varpað á það nýju ljósi með þeim verkfærum sem listirnar færa ykkur. Niðurstöðurnar verða vitaskuld með allskonar hætti, en af og til munið þið hitta naglann á höfuðið með verkum sem sannarlega skipta sköpum.

Sextugsafmælisbarn síðustu viku og fyrirmynd í að takast á við kvenpólitískar ögranir -  poppstjarnan Madonna - sagði eitt sinn að hún "hefði ekki orðið sú sem hún er ef hún hefði ekki haft öll þessi íhaldssömu gildi til að gera uppreisn gegn". Hún afhjúpar með þessum orðum þann þátt listanna sem felst í því að merkja hið afturhaldssama og bylta óttalaus viðteknum gildum standi þau í vegi fyrir framförum og nýjum hugmyndum.

Í heimspeki er stundum talað um gildi sem það sem í stuttu máli má greina sem skilgreiningu á hvað er gott og vont á hverjum tíma fyrir sig. En það er líka til ítalegri kenning um gildi sem spanna allar siðferðislegar greinar heimspeki, félagsvísinda, trúarbragða, fagurfræði og jafnvel á síðari tímum, femíniskrar heimspeki. Madonna staðsetur sig einmitt innan þessarar ítarlegu kenningar með uppreisn sinni gegn viðteknum hugmyndum og íhaldssömum gildum.

Hugsun áþekka hennar má rekja langt aftur í sögu listanna. Listirnar hafa í gegnum aldirnar verið hverfipunktur umbreytinga í efnistökum og umhverfi, valdið byltingum í hugarfari og margvíslegum framförum. En til þess að listirnar nái að þjóna slíku hlutverki í okkar samfélagi, þurfum við sem hér stöndum að bera með okkur ástríðu fyrir því sem við erum að gera; samsama okkur framsækinni hugmyndafræði og taka okkur sterka stöðu í orðræðunni um listir og menningu á forsendum sem spanna miklu víðara svið en það sem við getum staðið fyrir sem einstaklingar. Það er okkar að brýna tilgang háskóla á borð við Listaháskólann og skapa andrými fyrir annarskonar hugsun og menningu en þá sem er fyrst og fremst viðtekin og sjálfgefin.

 

V

Í takti við það sem ég sagði hér áðan um félagsanda langar mig til að ljúka þessu ávarpi með vísun í hugmyndafræði endurreisnarinnar sem var að miklu leyti það afl sem skaut sterkum grunni undir listirnar eins og við þekkjum þær í gegnum aldirnar allt fram á okkar daga. Og ekki einungis listirnar heldur reyndar öll önnur vísindi.  

Endurreisnin fól í sér hugmyndafræðilegan bræðing þar sem myndlistarmenn störfuðu sem arktitektar samhliða listsköpun sinni og unnu einhver mestu afrek mannkynssögunnar á því sviði. Listarmenn voru áhrifavaldar í stjórnmálum og beittu list sinni jafnt í pólitískum tilgangi sem fagurfræðilegum. Þetta voru tímar þar sem flestir listamenn voru náttúruvísindamenn, þar sem leikhúsið skaraðist við sirkusinn og fleytti sinni pólitísku vigt áfram í tengingu við fjöllistamenningu borgartorganna. Tímar þar sem danslistin rambaði á mörkum félagsvísinda í þróun sem sagði til um stéttvísi og stöðu og þar sem tónlistin var nátengd hugmyndum manna um stærðfræði og stjörnufræði, jafnt sem stöðu mannsins í trúarlegu samhengi alheimsins.

Þetta voru tímar sem spruttu upp úr karnivaleskum gjörningum miðalda, sem rússneski heimspekingurinn Bakhtin afhjúpaði á síðustu öld sem grundvallar þátt í áhrifamætti listgjörninga á samfélagsmynd hvers tíma - fyrst og fremst fyrir tilstilli pólitískrar gagnrýni og ádeilu. Og það var einmitt Bakhtin sem hélt því fram að polýfónían væri grundvöllur sannleikans - sýndi fram á að sannleikurinn væri margradda námundun.

Mig langar til að hvetja ykkur til að skoða nám ykkar hér út frá sjónarhorni Bakhtins. Það er styrkur Listaháskóla Íslands að vera margradda háskóli; pólyfónískur skóli sem vill láta til sín taka í samtímanum, skapa samtal á milli listgreina og vísinda - skapa nýja þekkingu, rýna í þá gömlu - brjóta niður tálmanir, afmá landamæri og takast þannig á við ögranir framtíðar.  

Ég hlakka til að vinna með ykkur í vetur og lýsi skólann settan.