Kæru útskriftarnemar, aðstandendur og aðrir gestir!

I

List er pólitísk. Hún er pólitísk í afstöðu sinni til hefðar, sögu og samtíðar. Hún er líka pólitísk þegar hún tekst á við hversdagsleikann, hið upphafna, innra líf eða jafnvel neindina. Hún er ekki síður pólitísk þegar hún leitast við að hafna öllu samhengi eða skilgreiningum og skapa eigin sjálfstæða heim. Listin, hvernig sem hún birtist okkur, kemst nefnilega aldrei hjá því að taka afstöðu – sjálft afstöðuleysið verður pólitískt í víðfeðmu samhengi listanna.

Í þessu pólitíska afli felst hinn mikli galdur listarinnar og erindi hennar við umheiminn. Það er sama hvar listin leitar fanga, hvert hún stefnir eða hvort hún staldrar við; hún er óhjákvæmilega áhrifavaldur í lífi okkar allra, burt séð frá því hvort við erum móttækilega fyrir henni eða ekki.  Þetta er hið mikla undur listarinnar – undur sem staðist hefur tímans tönn órofið í árþúsundir, sama hvað annars gengur á í heimsmyndinni.

 

Listin, umfram önnur vísindi er byggja á glímu hugaraflsins við raunveruleika mannskepnunnar, er því eitthvert sterkasta mótunarafl heimssögunnar. Í listinni geymum við andrými hvers tíma; menninguna og mennskuna.

 

II

Þrátt fyrir þessi óumdeildu sannindi um vægi listanna, á listsköpun sem og varðveisla og framsetning menningararfleifðarinnar mjög undir högg að sækja hér á landi. Listir njóta ekki sannmælis; ekki sem skapandi vísindi, ekki sem fræðasvið, ekki sem atvinnugrein eða sem forsenda nýsköpunar. Til lista er horft í orði en ekki á borði. Listir njóta ekki skilnings þeirra sem bera hitann og þungann af því að móta samfélagsmyndina. Þær njóta ekki fulltingis þeirra sem hefur verið treyst til þess af almenningi að skapa okkur frjóa og farsæla framtíðarmöguleika á svo til nýrri öld.

Það er eins og stjórnmálin hafi þrengt svo skilgreininguna á hinu pólitíska og um leið fókus sinn á samfélagið að einungis skammtímasjónarmið eða þröngir hagsmunir þeirra sem eru frekir til valdins ráði ríkjum – án tillitis til þeirra fjölbreyttu þátta sem skapa þéttan og sterkan þjóðfélagsvef. Þetta birtist hvað skýrast í stefnumótun stjórnvalda nú í vor um afar naum fjárframlög til háskólastigsins á næstu fimm árum og þá ekki síður í hugmyndum um breytt lánafyrirkomulag Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Skilningsleysi gagnvart háskólastiginu er þó sýnu alvarlegast hvað viðkemur háskólanámi í listum. Listaháskóli Íslands, sem í dag útskrifar 140 nemendur sem allir stóðust einhver ströngustu inntökuskilyrði háskólanáms á Íslandi og erfitt nám í kjölfarið, ber til að mynda ábyrgð á því að viðhalda einni stærstu atvinnugrein þjóðarbúsins og skákar þar áliðnaði, fiskvinnslu og landbúnaði hvað fjölda ársverka varðar. Hópur þeirra sem vinna við skapandi atvinnugreinar hér á landi telur nú um 15 – 20 þúsundir, sem með störfum sínum stuðla þar að auki að margvíslegum afleiddum verkefnum er aðrar atvinnugreinar byggja sína afkomu á – nægir að nefna ferðaþjónustu sem dæmi.

 

Í ljósi ofangreinds skýtur það skökku við að Listaháskólinn skuli vera eini háskólinn á Íslandi sem býr við fullkomlega óviðunandi húsnæði og mesta aðstöðuleysi íslenskra háskóla hvað flesta tæknilega innviði og aðstöðu varðar.

 

Þrátt fyrir að brátt séu liðnir tveir áratugir síðan Listaháskóli Íslands var stofnaður með fyrirheitum um góðan aðbúnað og það frelsi sem fylgt gæti aukinni listrænni og fjárhagslegri samlegð hefur nánast ekkert áunnist í þá veru. Frá því ég tók við mínu starfi fyrir þremur árum hefur ítrekað verið reynt að hvetja stjórnvöld til þess að taka afstöðu til vandans og móta stefnu í samráði við stjórnendur skólans – án nokkur árangurs eða haldbærra svara. Áskorunum og tillögum vegna aðstöðuleysisins hefur ekki einungis verið mætt af fálæti heldur beinlínis tómlæti.

IV

Við skulum hafa í huga að Listaháskóla Íslands hefur eigi að síður verið falin ábyrgð á rannsóknum, greiningu, skráningu og viðgangi allrar lista- og hönnunararfleifðar þessa lands. Hann ber ábyrgð á einu víðfeðmasta fræðasviði íslensk háskólasamfélags.

Á undanförnum þremur árum hefur því ítrekað verið bent á þá staðreynd að þrátt fyrir umfangsmikið fræðasvið og brýn verkefni á sviði rannsókna – ekki síst á menningararfleifðinni þar sem ástandið er í sumum tilvikum svo alvarlegt að ómetanleg verðmæti gætu endanlega glatast ef ekkert er að gert – er Listaháskóli Íslands einn skóla með einungis 8% framlag til rannsókna af þeim fjármunum sem ríkið ráðstafar til rekstrarins. Aðrir skólar fá að minnsta kosti töfalt meira og upp í allt að sex sinnum meira til þess að sinna sínum rannsóknum. Þetta er umhugsunarefni á tímum þar sem þjóðin hefur gengið í gegnum endurskoðun á gildum sínum og náð fjárhagslegu jafnvægi.

Við hljótum einnig að spyrja hvers vegna listnemar – þeir námsmenn sem stuðla að nýsköpun og viðhaldi hinna ört vaxandi skapandi atvinnugreina – skuli vera nauðbeygðir til að kosta meiru til en aðrir við menntun sína. Af hverju þeir þurfi að fjármagna sína menntun með skólagjöldum, þegar flestir sem velja sér aðrar námsleiðir á Íslandi þurfa ekki að greiða skólagjöld. Og að þegar þeir útskrifast, skuli þeir sömu og sköpuðu þeim þetta dýra námsumhverfi jafnvel ætlast til þess að þeir vinni ókeypis eða fyrir lítið fé eins og víða viðgengst í menningarlífinu. Við skulum ekki gleyma því í þessu sambandi að krafa samtímans gangvart listamönnum um atvinnumennsku í sínum störfum er hörð. Þar er ekkert gefið eftir.

III

Aðstöðuleysið og skortur á rannsóknarfé til að sinna því hlutverki sem Listaháskólanum er sannarlega falið, afhjúpar djúpstætt skilningsleysi á vægi lista og skapandi atvinnugreina í samfélaginu – þrátt fyrir að þær blómstri sem aldrei fyrr hvað innihald og drifkraft varðar.

Mín reynsla sem rektors Listaháskóla Íslands er á þann veg að ég er aldrei innt eftir listrænum markmiðum eða þróun skólastarfsins af þeim sem skaffa okkur rekstarfé, heldur einvörðungu um aðhaldsaðgerðir eða niðurskurð. Hvernig við getum gert meira fyrir minna. Sú hugsun að skapandi fólk geti gert hvað sem er, fyrir lítið sem ekkert, er einnig byggð inn í rekstarmódel opinberra safna, sýningarsala og listahátíða af öllu tagi.

Ég ætti ef til vill ekkert að gera þetta að umfjöllunarefni. Því þegar allt kemur til alls þá er það meginverkefni lista- og hönnunar að búa eitthvað stórkostleg til úr engu. Að gefa hugmyndum form sem hafa æðri gildi en þau efni sem þau eru sköpuð úr.

Vandinn er þó sá að til þess að listsköpun geti átt sér stað og nýsköpunin skilað sér út í samfélagið sem fullbúið verk; myndlist, sviðslist, tónlist eða hönnun þarf annarsvegar að rækta jarðveginn - svo sem menntakerfið sem þetta allt sprettur úr - og hinsvegar að koma afurðunum á framfæri í stóra samhenginu. Það kostar fjárfestingu rétt eins og í öðru rekstarumhverfi. Fjárfestingu sem síðan skilar sér margfalt til baka – í tilfelli listanna ekki einungis í efnislegum gæðum, heldur ekki síður í þeim andlegu og afstæðu gæðum sem frjósöm menningararfleifð leiðir af sér.

V

Það er ykkar sem farið héðan út í dag, sem vel menntaðir listamenn, að glíma við það viðhorf sem ég hef lýst í þessu ávarpi og vinna á því bug. Halda áfram að rækta pólitísk eigindi listarinnar og samþætta þau þjóðfélagsmyndinni, samfélaginu til heilla. Ég efast ekki um að ykkur muni takast það, með samtakamætti, frjórri hugsun, skapandi ferlum og auðvitað óbilandi trú á framgang ykkar eigin listsköpunar og annarra.

Fjölmiðlaumfjöllun um LHÍ í kjölfar útskriftar

Undirfjármagnaður skóli í óhæfu húsnæði

Njóta listir ekki sannmælis?

Stjórnvöld segja framlög til LHÍ hafa hækkað

Brýn þörf á að bæta aðstöðu Listaháskólans

Rækti pólitísk eigindi listarinnar

Ekkert sexý við að vera svöng, viðtal við útskriftarnemann Grétu Kristínu Ómarsdóttur.

Varð að vera beinskeytt, viðtal við útskriftarnemann Grétu Kristínu Ómarsdóttur.

Beðið um rekstraraðhald í stað framtíðarsýnar

"Ég er innilega þakklátur". Viðtal við heiðursdoktor við LHÍ, Hjálmar H. Ragnarsson.

Heiðursdoktor við Listaháskólann fyrstur manna, viðtal við Hjálmar H. Ragnarsson í Fréttablaðinu.