Föstudaginn 21. september sl. fagnaði tónskáldið Atli Heimir Sveinsson áttræðisafmæli sínu og af því tilefni var hádegisfyrirlestur tónlistardeildar LHÍ helgaður tónlist hans og tónlistarmiðlun. 

Þráinn Hjálmarsson, tónskáld, fjallaði um feril Atla frá því í kringum árið 1960 og fram til ársins 1973 þegar Atli Heimir samdi Flautukonsertinn sinn. Þráinn skoðaði hvort tveggja viðtökur við tónlist Atla á þessu skeiði sem og greinaskrif Atla Heimis og blaðaviðtöl við hann. 

Einnig fluttu Berglind María Tómasdóttir, lektor við tónlistardeild LHÍ, Snæfríður María Björnsdóttir, nemi á söngbraut söngbrautar og Raminta Naujanyte, í meistaranámi í tónsmíðum, kafla úr verki Atla Heimis Sveinssonar, For Boys and Girls, sem Atli samdi fyrir meðlimi SÚM-hópsins árið 1967.

Við þetta tilefni veitti rektor Listaháskóla Íslands, Fríða Björk Ingvarsdóttir, einnig viðtöku höfðinglegri bókagjöf frá Atla Heimi Sveinssyni til LIstaháskólans en bókagjöfin telur um 200 titla úr bókasafni tónskáldsins.

Meðfylgjandi er upptaka af viðburðinum, föstudaginn 21. september.