Brotin kerfi

Arnhildur Pálmadóttir heldur fyrirlesturinn „Brotin kerfi“ á Microsoft Teams, þriðjudaginn 20. apríl klukkan 12:10. Fyrirlesturinn er hluti af Sneiðmynd, fyrirlestrarseríu hönnunardeildar og arkitektúrdeildar LHÍ. Athugið að fyrirlesturinn fer fram á ensku, smellið HÉR til að fara inná fyrirlesturinn.
Arnhildur Pálmadóttir arkitekt útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2006 með BA gráðu í arkitektúr en þar á undan hafði hún starfað sem tækni- og þrívíddarteiknari á verkfræði og arkitektastofum bæði á Íslandi og í Noregi. Eftir BA nám flutti hún til Barcelona og hóf nám við Tækniháskóla Katalóníu ETSAB en kláraði síðar mastersgráðu frá Institute for Advanced Architecture of Catalonia. Í dag rekur Arnhildur arkitektastofuna s. ap arkitektar sem vinnur á mörkum hefðbundinna og tilraunkenndra verkefna. Í fyrirlestri sínum "Brotin kerfi" fjallar Arnhildur um verkefni sín og hvernig þau tengjast arkitektúr á tímum loftslagsbreytinga, hvernig hún notar sögur í sinni hönnun til að varpa ljósi á villur í núverandi kerfum og hvernig sögur og þverfagleg samvinna gæti verið lykillinn að því að bjarga heiminum.
 
arnhildurpalmadottir.jpg
 

 

 
SNEIÐMYND
Öflugt rannsóknarstarf kennara við arkitektúrdeild og hönnunardeild er undirstaða þekkingarsköpunar, hugmyndafræðilegrar endurnýjunar og listrænnar nálgunar sem miðlað er til nemenda í gegnum kennslu og til samfélagsins með þátttöku í ýmsum verkefnum á innlendum og alþjóðlegum vettvangi.
Í fyrirlestraröðinni Sneiðmynd kynna kennarar hönnunardeildar og arkitektúrdeildar eigin rannsóknir og listsköpun og ræða tengsl þeirra við kennslu í deildinni.
Fyrirlestrarnir eru öllum opnir og er fagfólk, nemendur og áhugafólk um hönnun og arkitektúr hvatt til að mæta.
Dagskrá Sneiðmyndar 2021:
Miðvikudagur 17. mars 2021
Dagur Eggertsson, arkitekt og stundakennari í arkitektúr
Þriðjudagur 12. apríl 2021
Helga Lára Halldórsdóttir, fatahönnuður og stundakennari í fatahönnun
Þriðjudagur 20. apríl 2021
Arnhildur Pálmadóttir, arkitekt og stundakennari við meistaranám í hönnun
Þriðjudagur 27. apríl 2021
Hrefna Sigurðardóttir, grafískur hönnuður og stundakennari í grafískri hönnun
Þriðjudagur 4. maí 2021
Johanna Seelemann, vöruhönnuður og aðjúnkt í vöruhönnun