Arnbjörg María Danielsen fjallaði um verkefnið Íslendingasögur - sinfónísk sagnaskemmtun í hádegisfyrirlestri tónlistardeildar LHÍ föstudaginn 7. desember en Arnbjörg María var listrænn stjórnandi verkefnisins.

Íslendingasögur var samvinnuverkefni Sinfóníuhljómsveitar Íslands, RÚV og Hörpu, frumsýnt í Hörpu 1. desember 2018 í tilefni 100 ára fullveldisafmælis Íslands. Í verkinu fléttuðust tónlistarbrot úr ótal áttum saman við textabrot eftir lifandi og liðin skáld og rými Hörpu var baðað í vídeóinnsetningu og ljósum eftir Lene Juhl Nielsen og Kasper Wolf Stouenborg. Búningahönnuður var Ingibjörg Jara Sigurðardóttir

„Útgangspunkturinn að sýningunni varð hvernig við Íslendingar segjum sögur og hvernig við hlustum á sögur“ sagði Arnbjörg María en sýningin var unnin á tiltölulega skömmum tíma. Pöntun barst á vormánuðum 2018 og síðan tók við snarpt hugmynda- og sköpunarferli þar sem Arnbjörg lagðist yfir sögur og tónlist af ýmsu tagi. Smátt og smátt tók þráðurinn að myndast.

Arnbjörg María hefur talsverða reynslu af að vinna svipaðar sýningar með sinfóníuhljómsveitum, þar á meðal með Sinfóníuhljómhljómsveitinni í Gautaborg í tilefni af aldarafmæli Ingmar Bergman og Sinfóníuhljómsveitinni í Óðinsvéum í sýningu sem fléttaðist um tónlist og lífshlaup danska tónskáldsins Carl Nielsen.  Stundum hafa sinfóníuhljómsveitir tekið virkan þátt í sköpunarferlinu en í tilviki Íslendingasagna markaðist æfingaferlið eilítið af Japansför Sinfóníuhljómsveitar Íslands í nóvember 2018. 

Umfjöllun Arnbjargar Maríu og umræður, sem leiddar voru af Elísabetu Indru Ragnarsdóttur, verkefnastjóra tónlistardeildar LHÍ, má sjá í meðfylgjandi vimeo-skrá.