Fagráð Listaháskóla Íslands lýsir fullum stuðningi við þær fyrirætlanir að flytja sviðslistadeild skólans úr núverandi aðstöðu að Sölvhólsgötu og í húsnæði að Laugarnesi, þar sem myndlistardeild og listkennsludeild eru þegar til húsa. Fagráð ítrekar mikilvægi þess að þessi framkvæmd verði að fullu gengin í gegn í upphafi haustannar 2018, þannig að starfsemi sviðslistadeildar geti hafist af fullum krafti í nýju húsnæði.

Það að sameina þessar þrjár deildir undir einu þaki er ekki einvörðungu lausn á húsnæðisvanda, heldur ekki síður mikilvægt skref í því að auka á samvinnu og samþættingu milli ólíkra deilda skólans, og auðga og breikka þannig faglegt og listrænt starf innan þeirra.

Fagráð lítur svo á að ef þessar fyrirætlanir verða að veruleika, skapist ný tækifæri ekki einvörðungu fyrir starfsemi sviðslistadeildar, heldur einnig aðrar deildir skólans. Þetta er því afar mikilvæg framkvæmd fyrir faglegt umhverfi, innra starf og áframhaldandi viðgang Listaháskólans í heild.