Í nýjasta tölublaði breska tónlistartímaritsins Tempo er að finna grein eftir Atla Ingólfsson, prófessor og fagstjóra í tónsmíðum á meistarastigi við tónlistardeild LHÍ.

Óperan sviðslistaverk

Í greininni, sem ber heitið The Opera Form: Six Observations (Sex hugleiðingar um óperuformið), veltir Atli fyrir sér inntaki óperuhugtaksins og óperuformsins í samtímanum og kallar eftir opnari nálgun við hugtakið. Ópera skilgreinist ekki af ákveðnum söngstíl, kröfu um söguþráð eða laglínur heldur sé óperan fyrst og fremst sviðslistaverk. Mörkin á milli söngs og hins talaða orðs mást út og leikmynd, lýsing, hljóðmynd og hreyfingar skipa jafnmikilvægan sess og raddir í tónverki. 

Skrifin byggja að hluta til á eldri ritsmíð Atla sem birtist fyrst í Skírni árið 2016 og ber heitið „Sex alhæfingar um óperuformið“.

Atli hefur samið nokkur sviðslistaverk, nýjasta ópera hans er Njálssaga, frumsýnd í Cinnober-leikhúsinu í Gautaborg árið 2015. 

Flókinn veruleiki samtímatónlistar

Tempo, stofnað árið 1939, er helgað rannsóknum á sviði samtímatónlistar og tónlistar 20. aldar.

Á árunum 1939 til 2002 var það gefið út af enska nótnaútgáfufyrirtækinu Boosey & Hawkes og var framan af einkum tileinkað skrifum um tónlist sem útgáfufyrirtækið gaf út. Frá árinu 2002 hefur Tempo verið gefið út af Cambridge University Press og birtir rannsóknir og skrif þar sem fjallað er um alla mögulega anga samtímatónlistar og tónlistar 20. aldar, tónsmíðaaðferðr, flutningsmáta, viðtökusögu og meira til.

Ritstjóri Tempo er enska tónskáldið og tónlistarskríbentinn Christopher Fox en Tempo er gefið út ársfjórðungslega.

Fjölbreytileiki í tónlistarlandslagi okkar tíma

Í nýjasta heftinu er, auk greinar Atla, meðal annars að finna umfjöllun um tónlist rúmenska tónskáldsins Horatiu Radulescu, flaututónlist Luigi Nono og tónlist Kate Moore.

Að auki er að finna gagnrýni um tónleika og plötuútgáfur en í ritstjórnarpistli Christopher Fox sætir nokkrum tíðindum að sjá að tímaritið hafi markað sér þá stefnu héðan í frá að birta ekki umfjöllun eða gagnrýni um tónleika eða tónlistarútgáfur nema tryggt sé að bæði karlar og konur eigi hlut að máli.

Með öðrum orðum verði ekki fjallað um plötur eða tónleika þar sem karlar flytja einungis tónlist eftir karla - né heldur þar sem konur flytja einungis tónlist eftir konur. Er þetta hugsað sem sjálfstæð stuðningsyfirlýsing við alla þá sem stuðla með störfum sínum að meiri fjölbreytileika í tónlistarlandslagi dagsins þar sem alls konar raddir fá að hljóma.

Úrdrátt úr grein Atla Ingólfssonar má nálgast hér og eins er hægt að kaupa rafræna áskrift að Tempo,