Aðsókn í listkennsludeild eykst um ríflega 120% á milli ára 

 
 
Um þessar mundir standa yfir inntökuviðtöl í listkennsludeild LHÍ. Á 10 ára starfsafmæli deildarinnar er ákaflega gleðilegt að sjá að fjöldi umsókna í listkennsludeild hefur aukist um 122% á milli áranna 2018 og 2019. 
 
 
Stóraukinni aðsókn er ekki síst að þakka nýrri námsleið í deildinni; meistaranám í kennslufræðum fyrir fólk með bakkalárgráðu í öðru en listum. 
 
Námsleiðin miðar að því að mennta fólk sem hefur lokið námi á almennum fræðasviðum en vill nota aðferðir lista í kennslu. Með nýrri námsbraut er markmið listkennsludeildar að efla hlut lista og ólíkrar aðferðafræði mismunandi fagsviða enn frekar í skólastarfi. 
 
Með því að opna á nám fyrir fólk með bakkalárgráðu í öðrum greinum sem hefur áhuga og einhverja þekkingu á aðferðum lista er markmiðið að byggja brú milli ólíkra greina og fagsviða. Þannig vill Listaháskóli Íslands skila fleiri vel menntuðum kennurum út í samfélagið sem geta verið forustuafl skapandi greina.
 
 

Þessi umtalsverða aukning í fjölda umsókna á milli ára í listkennsludeild LHÍ verður að teljast sérstaklega mikið ánægjuefni enda skipta vel menntaðir kennarar sköpum í uppbyggingu og þróun samfélagsins. 

 
 
komdu_ad_kenna_dagur.jpg
Mynd: Kristinn Ingvarsson