Harpa Cilia Ingólfsdóttir, byggingafræðingur og ráðgjafi í algildri hönnun, sagði frá nokkrum áhugaverðum verkefnum og stöðum sem og hvað þarf að hafa í huga varðandi aðgengi fyrir öll í opnum hádegisfyrirlestri í Laugarnesi þriðjudaginn 14. nóvember 2017. 
 

 

Að fá að upplifa eitthvað fallegt, áhugavert eða skemmtilegt er gjöf.

 
Skynfæri okkar fanga það sem við stöndum frammi fyrir, hvort sem við getum notað öll skynfæri okkar eða hluta þeirra. 
 
Aðgengi að upplifun er ekki sjálfgefið. 
 
Til að hafa möguleika á að skynja og upplifa þurfum við að hafa úrræði til að nálgast það sem boðið er upp á. Lykillinn er að flétta saman það sem á að upplifa við rýmið eða staðsetninguna.
 
Harpa Cilia Ingólfsdóttir er byggingafræðingur og ferlihönnuður og starfar tímabundið hjá byggingarfulltrúanum í Reykjavík. Harpa lærði byggingafræði með áherslu á algilda hönnun (Universal Design) í Byggeteknisk Höjskole í Horsens í Danmörku til að hafa faglegan bakgrunn til ráðgjafar um aðgengismál.
 
Síðasta viðbót við faglega þekkingu er meistaranám í Algildri hönnun og aðgengi (Universal Design og Tilgængelighed) frá Álaborgarháskólanum í Kaupmannahöfn.
 
Harpa er ennfremur einn af stofnendum Gott aðgengi ehf og lagði grunninn að samstarfi við God adgang í Danmörku um skráningu upplýsinga um aðgengi að mannvirkjum á Íslandi.