AATB er samstarfsverkefni Andreu Anner og Thibault Brevet sem útskrifuðust bæði frá ECAL og starfa sem stendur í Zurich og Marseille.

AATB heimsóttu Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands nú í mars til að kenna nemendum í vöruhönnun og grafískri hönnun ásamt því að halda fyrirlestur um verk sín og rannsóknir.
Fyrirlesturinn fór fram 21. mars síðastliðinn klukkan 12:15 í húsi hönnunar- og arkitektúrdeildar að Þverholti 11, fyrirlestrarsal A. Hér fyrir neðan má sjá upptöku af fyrirlestrinum.
Eftir að hafa unnið áður með gagnvirka hluti og innsetningar komst listamannatvíeykið AATB fyrir þremur árum í kynni við vélmennaarm sem notaður hafði verið í verksmiðjum. Vélmennaarmurinn féll vel að rannsóknum þeirra sem snéru að því að skoða tengsl manna og véla, og leiddi þau jafnframt að því að rannsaka möguleika vélmenna og sjálvirks iðnaðar utan veggja verksmiðjunnar.
Verk AATB tengjast framleiðsluferlum og skilningi á þeim, allt frá hugbúnaðarframleiðslu, rafeindatækjum og til vélaverkfræði. Þau skoða miðlun og aðlögun vélmenna í hversdagslegu samhengi og rannsaka á gagnrýnin hátt nýjar aðstæður sem verða til við þær breytingar sem vélmenni hafa á líf okkar.