Á þessum kyrru dægrum 
Tónlist eftir Tryggva M. Baldvinsson við ljóð Hannesar Péturssonar.

kyrru_daegrum.jpeg
Plötuumslag hannaði Sunna Sigurðardóttir 

Á dögunum kom ný plata á helstu streymisveitur sem inniheldur sönglagaflokkinn Á þessum kyrru dægrum eftir Tryggva M. Baldvinsson, fyrrverandi deildarforseta tónlistardeildar, við ljóð Hannesar Péturssonar.
Flytjendur koma úr röðum hinna frábæru kennara tónlistardeildar og eru þeir Kristinn Sigmundsson, bassasöngvari og Peter Máté píanóleikari. Sönglögin skrifaði Tryggvi í rannsóknarleyfi sínu frá Listaháskólanum vorið 2022 svo að tengingin við skólann og tónlistardeild er afar sterk í þessari nýju útgáfu. Ljóðin eru sótt í síðustu ljóðabók Hannesar Péturssonar, Haustaugu, frá árinu 2018.

3f2a2770.jpg
Mynd: Eygló Gísladóttir

Sönglagaflokkurinn var frumfluttur í Salnum í Kópavogi fyrr á þessu ári og þeir Kristinn Sigmundsson og Peter Máté fluttu einnig brot af plötunni við útskriftarathöfn Listaháskólans í Hörpu í maí. 
Við óskum Tryggva innilega til hamingju með útgáfuna og hvetjum öll til þess að hlusta á plötuna hér.

tryggvi_m.jpeg

Tryggvi M. Baldvinsson

Tryggvi M. Baldvinsson lauk nýlega tíu ára störfum sem forseti tónlistardeildar Listaháskóla Íslands og vinnur nú að hinum ýmsu verkefnum. Hann stundaði nám í tónsmíðum og píanóleik við tónfræðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík og síðar framhaldsnám í tónsmíðum og tónfræði við Konservatoríuna í Vínarborg (1987 -1992). Tryggvi hefur starfað sem kennari í tónsmíðum og ýmsum tónfræðagreinum við Tónlistarskólann í Reykjavík og tónlistardeild LHÍ frá stofnun hennar, þar til hann tók við stöðu deildarforseta árið 2014. Verk Tryggva hafa verið flutt víða um heim og hefur hann hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín. Árið 2004 hlaut verk hans, Konsert fyrir klarinettu og blásarasveit, Íslensku Tónlistarverðlaunin sem sígilt tónverk ársins 2003. Árið 2008 var Tryggvi heiðurslistamaður Álftaness.